föstudagur, júlí 30, 2004

Hildur Helga Sigurðardóttir hringdi í mig í kvöld og bauð mér að sitja í þættinum Í vikulokin á Rás 1 í fyrramálið. Auk mín verður þarna Valgeir Guðjónsson músíkant og einhverjir fleiri. Það voru skrif mín á þessa bloggsíðu sem vöktu athygli Hildar á mér. Vinur minn, Guðmundur Björgvinsson listmálari, hringdi hins vegar í mig rétt á eftir Hildi til að skamma mig fyrir bloggsíðuna. Taldi hana geta gert mig frægan að endenum og skaðað mannorð mitt enda stæðust þessi skrif engan samanburð við smásögurnar, væru trivial, snobbuð og barnaleg á köflum. Það er nú það. Blogg er annars eðlis en blaðagreinar. Ekki færi ég að skrifa grein í Moggann um að stelpurnar á Súfistanum hefðu ekki verið nægilega alúðlegar sumarið 2002. Þetta er annað form og kannski lágkúrulegt í eðli sínu.

Ég plögga svo væntanlega bók í fyrramálið. Frægðarsól mín rís á hálfum hraða, hefði ég tvo mannsaldra yrði ég frægur. Ég mun því væntanlega deyja hálffrægur og sáttur, þá kominn upp í 500 eintaka sölu á bók. Það verður toppurinn, svona svipað og staða Michaels Jacksons þegar hann gaf út Thriller.

6 Comments:

Blogger Ágúst Borgþór said...

Sæl, Guðmundur Björgvinsson var töluvert áberandi á tímabilinu 1980-1990. Þá gaf hann út skáldsögur sem mér finnast yfirleitt ekki góðar og málaði myndir sem mér þykja betri. Hann hélt töluvert af sýningum. Undanfarin tíu ár hefur hann mjög lítið látið á sér bera en málar samt og selur töluvert. Hann málar fígúratívar akrýl- og olíumyndir, yfirleitt nokkuð fyndnar. Í mörgum þeirra má sjá þekkta staði úr Reykjavík og undirfurðulegar fígúrur sem eru að gera eitthvað skrýtið.

12:22 e.h., ágúst 03, 2004  
Anonymous Nafnlaus said...

Hver eru eiginlega laun rithöfunda af sölu? Gefum okkur að bókin þín fái góðar viðtökur og hún seljist í tvö þúsund eintökum á þrjú þúsund krónur fyrir jólin.

9:31 e.h., ágúst 20, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Fyrir það fyrsta, þá eru meiri líkur á því að Davíð Oddsson verði forstjóri Baugs en að þessi bók mín seljist í 2-3000 eintökum. Áður en ég kynntist bókamarkaðnum þá ímyndaði ég mér líka að þetta væri dæmigerð sala á bók. Þetta eru líka þær tölur sem menn heyra um þekktustu og vinsælustu skáldsagnahöfundana auk ýmissa bóka af öðru tagi en skáldskap. En af þeim 500 titlum sem gefnir eru út fyrir jólin þá er ekki nema brot sem nær svona sölutölum. Síðan eru örfáar bækur sem fara langt yfir þetta mark og það er einmitt tilhneigingin á bókamarkaði, allir kaupa það sama en enginn kaupir restina. Ef ég og forlagið gerum ekkert betur í kynningarmálum en hingað til í mínum tilvikum mun mín bók seljast í 150-200 eintökum. Líklegra er að hún nái 300 eintökum og ef frábærlega tekst til, nær hún 400. Ég held raunar að aðeins smásagnasöfn eftir einn íslenskan höfund seljist vel, Þórarinn Eldjárn. Þegar þekktir og vinsælir höfundar taka upp á því að skrifa smásagnasöfn, t.d. Fríða Á. Sigurðardóttir, þá hrynur salan. Þetta er sá veruleiki sem blasir við flestum efnilegum höfundum og ein af ástæðunum fyrir því að höfundur eins og ég næ þrátt fyrir nánast engar tekjur af skáldskap að skapa mér smám saman nafn, komast inn í kennslubækur og þess háttar, er sú að maður heldur áfram þrátt fyrir þetta (og hefur tekjur af öðru) á meðan margir aðrir kannski gefast upp.

En svo ég svari spurningunni þá held ég að höfundarlaun séu 15-20%. Mér skilst að 1000 eintaka sala hafi í för með sér 500 þús. krónur í tekjur fyrir höfund. 1-2 milljónir ætti því að vera útkoman fyrir höfund sem nær slíkum vinsældum að bók hans fer í 2-3 þús. eintökum. Slíkir skáldsagnahöfundar eru flestir á starfslaunum, 200 þús. á mánuði, og því gengur þetta upp hjá þeim. Starflaun eru hins vegar taugatrekkjandi staða því fólk veit aldrei hvenær það er svipt þeim eða þau rýrð. Mér virðist líka að rithöfundar í fullu starfi séu sífellt að gera eitthvað sem ég hef ekki áhuga á, t.d. þýða og skrifa barnabækur og viðtalsbækur. - Það er hins vegar vel hægt að skrifa smásögur í frístundum ef maður hefur heppilega atvinnu og er iðinn, og jafnvel skáldsögur.

2:43 e.h., ágúst 22, 2004  
Anonymous Nafnlaus said...

Ef þú meinar að verk þín verðskuldi meir athygli lesenda væri kannski ágæt strategía að gera væntanlegum lesendum(kaupendum)grein fyrir þessu. Sem sagt að setja bókina sjálfa í aðalhlutverkið. Eðli bókabransans er kannski hins vegar meira "Séð&Heyrt" stíllinn. Sjálfshól, tal um sölutölur eða fræga rithöfunda sem þeir hafa hitt í Frankfurt er það sem almenningur les í viðtölum við útgefendur Fréttablaðinu.
Þú þarft líklega að suða mikið útgefandanum þínum í haust. Þá á ég við jákvætt suð. Minna hann á að tala um innihaldið í bókinni og þig við guð og hvern mann.Bókaútgefendur hafa tilhneigingu til að tala bara við gagnrýnendur á blöðunum og halda svo að allir lesi og fari eftir gagnrýninni.
Þó að bókabransinn eigi margt sameiginlegt með tónlistarbransanum, er hann ekki enn jafn góður í því að skipuleggja og sviðsetja útgáfutitlana sína. Þess vegna kemur enn fyrir að sumir höfundar slá ekki í gegn fyrr en eftir töluverðan tíma. Svo við notum Arnald sem viðmiðun, tók hann ekki alvarlegan kipp fyrr en eftir þriðju bókina.
"Kalman rifinn út" las ég á einhverri síðu um daginn. Það þýddi kannski ekki annað en að nú eru menntaskólarnir byrjaðir og að bók eftir hann var skyldulesning í einhverjum áfanga. Upplagslista bókaútgefenda er ekki hægt að treysta á. Eintakafjöldann vantar alltaf og þess vegna er þetta einskisnýt vitneskja. Ég býst við að flestir lesendur hafi séð í gegnum listana fyrir löngu.
Það er viss tilhneiging í stóru íslensku fjölmiðlunum að sniðganga minni útgáfur. "Risarnir" þrír, Edda/JPV/Bjartur, fá langmesta umfjöllun. Þetta hangir kannski saman með auglýsingakaupum, það er að segja að þær útgáfur sem auglýsa mest vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. En þessar útgáfur hafa ekki einkarétt á bómenntunum og þess vegna ætti útgefandi þinn kannski að skrifa eina eða tvær greinar í blöðin um mikilvægi breiddar íslenskri bókaútgáfu.
Bókasmekkur er ákaflega einstaklingsbundin hlutur. Hann þróast með manni gegnum árin. Þú kaupir einhverja bók af rælni og kemst að því að enginn kunningja þinna hefur lesið hana. Hefur aldrei séð hana auglýsta í fjölmiðlum heldur. Sem höfundur verður maður að gera sér grein fyrir takmörkunum þess stíls og forms sem maður hefur valið. Markhópurinn er kannski föst stærð.

8:27 e.h., ágúst 22, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Þetta eru mjög góðar athugasemdir en margt af þessu hef ég hugsað sjálfur áður. Jón Kalman hefur vanalega selst í um 200 eintökum, eftir því sem ég best veit, og ég efast um að hann fari í meiri fjölda á venjulegum jólamarkaði. Það er hins vegar sniðugt hjá útgefendum að láta eins og höfundurinn njóti velgengni. Ég býst við því að við munum halda slíkum tóni hvað mig snertir í haust og leggja áherslu á hugsunina "einn besti smásagnahöfundur þjóðarinnar." - Minn markhópur er takmarkaður og mitt framtíðarmarkmið er að eiga 500 kaupendur að hverri bók. Ég yrði mjög sáttur við það.

8:33 e.h., ágúst 22, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Þetta er held ég allt saman rétt hjá þér og ef ég leitt hugann að þessu sjálfur. En eitthvað verður maður að seljast til að geta þrifist á útgáfumarkaði, þ.e. einfaldlega fengið útgefanda. Mitt framtíðarmarkmið er 500 eintök á hverja bók. Yrði ég ánægður ef það tækist.

11:51 e.h., ágúst 22, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home