Ég gerði hádegishléið endasleppt í Iðu. Það er undarlegur og tómlegur staður. Bókaúrvalið auðvitað í samræmi við nútímann og framtíðina: í anda flugstöðvanna. Aðeins það vinsælasta á boðstólum. Hræddur er ég um að Wannabe, Sveittur og meintir meistarar vissra bókmenntaforma eigi lítið skjól í þessari víðáttumiklu verslun sem virðist ekki vita hvað hún á að vera. Ég ákvað engu að síður að fá mér hádegisverð þarna, umfram allt út af staðsetningunni og útsýninu. Þarna sat maður í Nýja bíó á 8. áratugnum, bíóhúsi sem hafði allt of mörg sæti og svo íburðarmikil að þau virtust tímaskekkja þá. Ég horfði yfir að Stjórnarráðinu og ímyndaði mér Sænska frystihúsið við hliðina. En þarna á efstu hæðinni er afskaplega stílhrein, óaðfinnanleg og sálarlaus kaffistofa. Í hinum endanum eru einhvers konar sælkeraskyndibitar og þar er borðunum raðað í eina röð eins og í einkasamkvæmi. Ekki sat hræða þarna og nánast enginn heldur á kaffistofunni, fyrir utan tvær konur á mínum aldri sem settust út í horn og kærðu sig kollóttar um útsýnið.
Mitt á milli veitingastofanna tveggja er mikið af einhverju leirdóti og blómavösum til sölu í anda Blómavals og Ríkeyjar. Þar var heldur enginn að versla að þessu sinni.
Þegar ég hafði klárað matinn af minni alþekktu græðgi átti ég eftir 40 mínútur af hléinu og hugsaði mér gott til glóðarinnar með smásögur Williams Trevor í töskunni. En um leið og ég opnaði bókina kvað við skerandi hávaði: diskur með Margréti Eir hafði verið settur í græjurnar og skrúfað nálægt botni, og söngkonan tók að æpa erlenda slagara með íslenskum texta svo glumdi í veggjunum og ómaði um alla Lækjargötuna. Ég forðaði mér.
Hinu er ekki að neita að efsta hæðin í þessu húsi er kjörin fyrir upplestra í haust, gott pláss, nóg af stólum og staðsetningin frábær.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home