þriðjudagur, mars 21, 2006

Gestapenni

Vináttulandsleikur Þjóðverja og Bandaríkjamanna á miðvikudagskvöld verður eflaust ekki minnisstæður þó að ég hlakki mikið til að horfa á hann heima hjá vini mínum, Jóni Óskari. Hins vegar gæti þessi heimsókn orðið minnisstæð þar sem Bergdís, kona hans, nálgast það nú mjög að fæða þeirra fjórða barn. Ég sagði í tölvupósti til Jóns Óskars að mér þætti það ekki ónýtt að horfa á fótboltaleik og taka á móti barna sama kvöldið. Hann svaraði mér á þessa leið:

"Sjálfum fannst mér meira heillandi að vera staddur við Indlandshaf, langt inni á átakasvæði undir stjórn hinna herskáu Tamíla Tígra, þegar Bergdís hringdi í mig og sagði mér að Sturla væri fæddur þremur vikum fyrir tíma. Ég settist inn á lítinn veitingastað við sjávarmálið og bað einn Tamílann að færa mér bjór og sígar og horfði svo út á flóann. Fjórum mánuðum síðar þegar ég kom heim og sá drenginn orðinn stórann og flottan kom svo Tsunamí flóðbylgjan yfir þennan veitingastað og lagði hann og þorpið í rúst.

Þegar Salvör átti að fæðast, var ég fastur inni í stórskotahríð í Sarajevó. Við sluppum svo út með franskri herflugvél stutt hopp yfir á herflugvöll í Split í Króatíu. Alþjóðaflugvöllurinn í Zagreb var lokaður þannig að ég leigði mér bílaleigubíl og keyrði yfir Slóveníu til Graz í Austurríki. Þaðan náði ég flugi heim í gegnum Köben og Salvör fæddist daginn eftir. Tveimur dögum síðar fór ég til Kína með Utanríkisráðherra meðan Bergdís var enn á fæðingardeildinni. Í þeirri ferð fór ég meðal annars og skoðaði vopnahléslínuna milli Suður- og Norður-Kóreu, sem var mjög eftirminnilegt. "

Jón Óskar hefur alltaf verið maður stórtíðindanna og ég maður litlu blæbrigðanna í hversdagsleikanum.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Og hann er á Íslandi núna? Skyldi þá brjótast út styrjöld hérna rétt fyrir fæðinguna?

3:14 e.h., mars 21, 2006  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já en núna fengi hann líklega ekki að fara.

3:20 e.h., mars 21, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég á við hérna heima... Fyrst hann er hérna...

3:46 e.h., mars 21, 2006  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já, hér. Verður það þá ekki bara verðstríð eða eitthvað svoleiðis?

3:49 e.h., mars 21, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Kannski gerist það sem ég hef spáð lengi, að hnakkarnir og treflarnir fari loksins að drepa hverja aðra.

11:08 e.h., mars 22, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég bið mikið að heilsa þeim hjónum - hef ekki séð yngsta barnið en þær tvær eldri komu ásamt foreldrum sínum í garðinn til okkar Gulla og dætra einn góðan sumardag fyrir mörgum, mörgum árum. Jón Óskar barst einmitt í tal hjá okkur hjónum í gær þegar við rifjuðum það upp að þegar við bjuggum á Öldugötunni þá pikkuðum við upp oft upp þrjá samstarfsmenn okkar hjá RÚV - þar á meðal JÓS - - og öll fimm reyktum við í bílnum..
Kristín Björg

1:19 e.h., mars 23, 2006  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já, hann heitir Sturla, strákurinn, og er greindarlegur og fríður. Hann mænir eiginlega á mig allan tímann þegar ég er í heimsóknum þarna og Jón Óskar segir að hann sé ekki vanur að sjá svona skrýtna menn. Varðandi reykingarnar þá hefur kappinn ekki reykt frá áramótum.

2:22 e.h., mars 23, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home