mánudagur, júní 28, 2004

Ég veit ekki hvort þið munið eftir því en í nokkur ár voru til stór dagblöð á Íslandi sem voru nánast algjörlega hlutlaus. Auglýsingaherferð DV árið 1997 skartaði m.a. fallexi og orðunum ... "og hlífir engum." - Og staðreyndin er sú að auglýsingin var sönn. DV hlífði engum hér áður fyrr og hallaði sér ekki að neinum. Á sama tímabili sneri Morgunblaðið baki við Sjálfstæðisflokknum og rak óháða ritstjórnarstefnu sem oft fór t.d. í taugarnar á Davíð Oddssyni sem þá var á sínu fyrsta kjörtímabili sem forsætisráðherra.

Tími flokksblaðanna var liðinn og menn héldu að þetta væri framtíðin: hlutlaus dagblöð.

Annað hefur komið á daginn. Morgunblaðið hefur aftur hallað sér að Sjálfstæðisflokknum og Fréttablaðið hefur alla tíð frá endurreisn sinni verið í harðri stjórnarandstöðu. Þegar þetta er borið upp á blaðamenn Fréttablaðsins verða þeir ævareiðir. Margir þeirra eru kunningjar mínir og ég man sérstaklega eftir reiðikasti eins þeirra þegar við ræddum um bolludagsbombuna í fyrra. Málið er ekki svo einfalt að blaðamenn Fréttablaðsins mæti til vinnu með það í huga að grafa undan ríkisstjórninni. Í fyrsta lagi ráða blaðamennirnir ekki ritstjórnarstefnunni og það getur enginn velkst í vafa um hvar afdráttarlausar skoðanir ritstjórans liggja. Fréttamatið litast af þessu og auk þess hefur ritstjórinn skrifað ótal leiðara gegn ríkisstjórninni og forsætisráðherra en ekki einn einasta hliðhollan þessum aðilum. Sárafáar ef nokkrar fréttir, hvað þá leiðaraskrif, hafa birst í blaðinu þar sem ráðist er að stjórnarandstöðunni. - Þá bætir örugglega ekki úr skák að forsætisráðherra hefur veist harkalega að blaðinu og þar með má ímynda sér að "við-þeir" andrúmsloftið sé nokkuð ráðandi meðal blaðamannanna án þess að þeir geri sér fulla grein fyrir því.

Ekki réttir það af myndina að sjálfstæðismenn eru tregir til viðtala við Fréttablaðið og skrifa aldrei greinar í það. Sú undarlega staða er því uppi að þó að viðhorfsgreinar eftir marga og ólíka aðila um margvísleg efni birtist í Fréttablaðinu þá verða þar aldrei ritdeilur og engu er líkara en allt þetta fólk sé í sama stjórnmálaflokknum. Sem betur fer er þó litrófið eðlilegra í viðhorfsgreinum í Morgunblaðinu.

Eigendur Fréttablaðsins eru orðnir svo gríðarlega umsvifamiklir í þjóðfélaginu að óhjákvæmilegt er að líta á þá sem umdeilt afl í samfélaignu, rétt eins og ráðamenn og stjórnmálaflokka. En það liggur í hlutarins eðli að neikvæð skrif um þessa viðskiptasamsteypu hafa aldrei og munu ekki að óbreyttu birtast í Fréttablaðinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home