mánudagur, ágúst 23, 2004

Raymond Carver var minimalisti – en hvað felst í því?

Sum hugtök í bókmennta- og listfræðum vekja ekki góð hughrif, hljóma jafnvel eins og skammaryrði. Það getur stafað af því að mörg illa heppnuð verk hafi komið óorði á tiltekna stefnu eða að hugtökin nái yfir of ólík verk og misjafnlega góð. Hugtakið sósíalrealismi lætur t.d. ekki vel í eyrum og hefur ekki gert það lengi. Sósíalrealismi vekur t.d. upp minningar um nánast lögboðinn myndlistarstíl í gömlu ráðstjórnarríkjunum eða andlaust eldhúsmelluraunsæi á Norðurlöndum á 8. áratugnum. En þá vill gleymast að öndvegishöfundar á borð við Doris Lessing og Arthur Miller teljast til sósíalrealista. Bæði Lessing og Miller sýna vissulega persónur sínar í ljósi þjóðfélagaðstæðna og þjóðfélagsgerðar, en það sem ræður úrslitum er að þessir höfundar skapa jafnframt persónur sem eru einstakar og bráðlifandi.

Minimalismi eða naumhyggja er annað hugtak sem vekur kannski ekki óbragð heldur bragðleysi. Menn sjá fyrir sér andleysi, blindgötu dauðhreinsunar, nísku og hugmyndaleysi. En orðið segir í raun lítið um verkin, vandamálið er kannski bara það að orðin minimalismi og naumhyggja eru ekki nógu falleg. Naumhyggja í ritstíl snýst m.a. um að forðast skraut í orðfæri. En nú er það svo að skrautmikill og flúraður texti vekur oft lítil hughrif, skilar ekki því sem hann á að skila. Raymond Carver skrifaði einfaldar og fábreytilegar setningar. Eftirfarandi er dæmigerð byrjun á sögu eftir hann, upphaf sögunnar Vitamins: „I had a job and Patti didn´t. I worked a few hours a night for the hospital. It was a nothing job. I did some work, signed the card for eight hours, went drinking with the nurses.“ – Málfarið er óbrotið og hversdagslegt, stundum talmálslegt. Samt er þetta frábærlega skrifað eins og flest af því sem Carver skilur eftir sig. Textar Carvers eru meira lifandi og vekja sterkari hughrif en tilkomu- og íburðarmeiri skrifum er gjarnan ætlað að gera. Persónur Carvers verða ljóslifandi í hugskoti lesandans enda er í sögunum lýst hversdagslegu umhverfi, hversdagslegu fólki, raunum og áhyggjum. Carver lýsti fagurfræði sinni svo í ritgerð: „Það er mögulegt í sögu eða ljóði að skrifa um hversdagsleg atvik og hversdagslega hluti og nota til þess hversdagslegt en nákvæmt orðalag, og glæða þessa hluti – stól, gluggatjöld, gaffal, eyrnalokk – gríðarlegum áhrifamætti. Orðalagið getur verið svo nákvæmt að það virðist flatneskjulegt, en orðin virka engu að síður; ef þau eru rétt notuð hafa þau nákvæmlega tilætluð áhrif.“
Þessi afstaða og stílaðferð endurspeglast í uppáhaldssetningu Raymonds Carver. Hún er úr sögu eftir Anton Chekhov og hljómar svo á ensku: „Suddenly everything became clear to him.“ Carver sagði að þessi orð væru hlaðin undursamlegum möguleikum og vektu forvitni og eftirvæntingu. Ljóst er hins vegar að áhrifamáttur þessarar setningar ræðst algjörlega af samhenginu, ein og sér er hún einkar látlaus. En um það snýst málið: Chekhov og Carver skrifuðu einfaldar og beinskeyttar setningar, þrungnar merkingu, þar sem hvert orð skipti máli. Og í texta höfundar þar sem orðin eru spöruð þá getur setning af þessu tagi verið áhrifamikil. Fyrir utan það að vera látlaus þá er hún fullyrðing sem verður aðeins sterk sem slík hafi höfundurinn fram að þessum orðum sparað fullyrðingar og stóryrði.

Ein af ástæðunum fyrir áhrifamætti hins einfalda stíls Carvers er sú að viðfangsefnin eru kunnugleg og efnistökin trúverðug, hér er höfundur að iðka list sína í samræmi við skáldskaparfræði Aristótelesar, að skáldskapur líki eftir lífinu. Atvik í sögum Carvers eru gjarnan afar kunnugleg en jafnframt óvænt og frumleg. Þegar fólk án stílgáfu lýsir hversdagslegum atvikum, í blaðagreinum, bloggi eða einfaldlega samtölum, þá geta slíkar frásagnir orðið klisjukenndar og stundum er engu líkara en líf okkar sé allt á valdi hins dæmigerða og margendurtekna. Hins vegar eru myndirnar sem Carver dregur upp af hversdagsfólki um margt líkar lífi flestra lesenda, en með þeim hætti að okkur hefði sjálfum ekki getað dottið þær í hug; samt eru þær jafn kunnuglegar og frasarnir, jafn kunnuglegar og lífið sjálft. Carver kemur auga á hið óvænta í tilverunni og lýsir því sem er ekki óvænt frá óvæntu sjónarhorni.

Raymond Carver (hann lést árið 1988) sendi frá sér alls fimm smásagnasöfn ef litið er framhjá ýmsum ritum þar sem sögur hans eru endurprentaðar. Af þessum fimm söfnum er það fyrsta fremur viðvaningslegt, höfundurinn hafði ekki fundið sinn tón og var undir áberandi miklum áhrifum af William Faulkner. Hin fjögur söfnin eru allt bókmenntaviðburðir, þó að eflaust hafi samanlagt sjaldnar verið haft orð á þeim í gegnum tíðina en minnst er daglega nú í heiminum á Da Vinci lykilinn eða var gert daglega fyrir tæpum 20 árum um Nafn rósarinnar, svo tekin séu dæmi um fágaða reyfara sem segja okkur ekkert um líf okkar. Frá einni bók til annarrar má greina töluverða þróun í sagnagerð Carvers, sögur hans lengjast og mýkjast frá hörku og vonleysi fyrstu góðu bókarinnar (Will you please be quiet, please?). Í vor kom út hjá Bjarti síðasta bók Carvers, Sendiferð, í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar. Í íslensku þýðingunni heitir bókin eftir sögunni Errand, sem lýsir síðustu dögum og dauða Antons Chekhovs, líklega með töluverðu skáldaleyfi. Frumútgáfa bókarinnar ber hins vegar heitið Elephant, eftir annarri sögu í bókinni, kostulegri lýsingu á meðvirkum miðaldra manni sem heldur uppi fjárhagslega nánast öllum ættingjum sínum. Í bókinni eru sjö sögur, þær síðustu sem Carver skrifaði. Og rétt eins og í fyrri bókum Carvers eru nýmæli í stílbrigðum þessara síðustu sagna hans, m.a. þau að stíllinn er orðinn svo fábrotinn að stundum er hann í sjálfu sér nánast flatneskjulegur. Þetta er sérstaklega áberandi í sögunum Kassar, Sá sem var í þessu rúmi, Náin kynni og Menudo. Þráhyggjukenndar hugsanir og samtöl persónanna birtast þar í stíl sem á yfirborðinu er staglkenndur og flatur, í samræmið við efnið; og þetta snarvirkar.

Það er sérkennilegt að handfjatla þessa litlu bók eftir að hafa lesið hana nokkrum sinnum og hugsa til þess að líklega er hún á meðal helstu meistaraverka í bókmenntasögu 20. aldar. Hér á nefnilega við eins og stundum áður að snilld og mikilfengleiki þurfa ekki að fara saman. Þetta er 130 blaðsíðna bók með sjö fremur sviptingalitlum sögum sem fjalla um vandamál afar hversdagslegs fólks, en gera það af fádæma dýpt.

1 Comments:

Blogger Ágúst Borgþór said...

Þakka góðan pistil. Það er gaman ef bókmenntaumfjöllun á þessari síðu tekur á sig þá mynd að lesendur skrifa fróðlega pistla. Þér mislíkar að ég skuli tala um Da Vinci lykilinn og Nafn rósarinnar sem sambærilegt efni. Ég var hins vegar ekki að gæðameta þessar bækur, einungis að benda á að ég teldi þær ekki segja okkur neitt um líf okkar, ólíkt góðum raunsæisskálskap sem ég tel að verðskuldi a.m.k. brot af þeirri umræðu sem þessi verk hafa hlotið. The Elephant Vanishes las ég fyrir nokkuð mörgum árum mér til töluverðrar ánægju. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um vísun titilsins í Carver. Gaman að það skyldi koma fram hér.

12:47 e.h., ágúst 26, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home