laugardagur, október 02, 2004

Kistan bað mig um að skrifa ritdóm um nýútkomna bók. Eftirfarandi pistill birtist þar á næstunni. Sjálfsagt að birta hann hér líka (eins og greinina um Carver í sumarlok) enda má finna í honum einhverjar hugmyndir mínar um smásagnagerð og frásagnarlist.



Maðurinn var alltaf einn


Nú á tímum, þegar frásagnarlistin hefur gengið í gegnum svo marga tískustrauma og formbyltingar og horfið reglulega aftur til eldri hefða, þá er erfitt að segja lengur til um hvað telst nýstárlegt og frumlegt og hvað ekki; jafnframt er sú spurning áleitin hvort það skipti nokkru máli. Hinu er ekki að neita að smásagnasafn Pjeturs Hafstein Lárussonar, Nóttin og alveran, vekur lesanda óhjákvæmilega hugleiðingar af þessu tagi. Hún virkar nefnilega eins og bók sem hefði getað verið gefin út fyrir meira en hálfri öld. Reyndar telst það ekki löstur á verki lengur á tímum algjörrar óreiðu í liststefnum. Sumar sögur bókarinnar minna á raunsæisverk frá fyrri hluta síðustu aldar með hinu algenga smælingja- eða utangarðsminni. Aðrar kalla fram í minninguna módernísk verk með skírskotun til guðlausa extistensíalismans, frá miðri síðustu öld. Í þeim sögum er maðurinn nefnilega aftur orðinn einn, líkt og í fyrsta prósaverki Thors Vilhjálmssonar frá 1951, sem bar titilinn Maðurinn er alltaf einn; titill sem kallast á við ritgerðir existensíalista á borð við Jean-Paul Sartre og Albert Camus. Enn aðrar sögur bókarinnar minna á hrollvekjur og tvífaraminni úr frægum verkum frá þar síðustu aldamótum.

Afbragðsgóðar myndskreytingar Einars Hákonarsonar við bókina auka síðan enn á fortíðartilfinninguna og kalla fram í hugann nokkur myndskreytt íslensk smásagnasöfn frá sjötta, fimmta og enn eldri áratugum síðustu aldar.

Það slæma við fortíðarstemningu bókarinnar er að margt í sögunum virkar klisjukennt. Vitundarspursmálin í módernísku sögunum hreyfa lítið við lesandanum og persónurnar í raunsæisverkunum eru of gamalkunnugar til að lifna á síðunum. Sterk persónusköpun er hins vegar ekki skilyrði í smásagnagerð enda fjalla stuttar smásögur fremur um atvik en persónur. Til lengdar verður smásagnagerð hins vegar ekki spennandi viðfangsefni án þess að höfundur leggi áherslu á persónusköpun. Í þeim skilningi verður góður smásagnahöfundur fyrr eða síðar skáldsagnahöfundur, hvort sem hann skrifar skáldsögur eða heldur sig við smásagnaformið! Smásagan sem náinn ættingi ljóðsins heldur sjaldan velli í löngu höfundarverki enda er hún umfram allt einn þáttur í margbreytileika skáldsagnaformsins. Prósaljóð, vignjettur og örsögur eru síðan annað mál; eru ekki smásögur.

En þrátt fyrir að persónur þessara sagna öðlist ekki skýra mynd í huga lesandans virka margar sögurnar vel og hafa til að bera stemningu og lifandi andrúmsloft, jafnvel þegar skortur á frumleika virðist algjör. Þessu veldur m.a. ágætur stíll höfundar, sem þrátt fyrir að vera háfleygur með köflum einkennist oftast af smekkvísi, góðri málkennd og einfaldleika.

Það sem ræður hins vegar úrslitum um að Nóttin og alveran er þegar upp er staðið fremur ánægjuleg lesning er færni höfundar í sögubyggingu og frásagnartækni. Niðurröðun atvika leikur í höndum hans og gaman er að sjá hvernig hann sneiðir hjá eiginlegu risi í raunsæissögunum sem oftast lýkur með því að dregin hefur verið upp fullnægjandi mynd af aðstæðum og látlaus endirinn er fyllilega við hæfi. Í yfirskilvitlegum sögum, sem oft eru óþægilega kunnuglegar framan af (einmana listamenn í kjallaraherbergjum við miðbæinn, óskýranleg tónlist og önnur undarleg atvik í kirkjugörðum, yfirnáttúruleg myrkvun, lík sem sogar í sig æskuþokka örhrörnandi sögupersónu og fleira af þessu tagi), er endirinn nær alltaf ófyrirsjáanlegur.

Þar með er augljóst að Pjetur Hafstein Lárusson hefur náð tökum á því mikilvægasta og viðkvæmasta í smásagnagerð: frásagnartækninni; hann beitir hófsemi í yfirlýsingum og takmarkar vitneskju þegar við á. Forvitnilegt væri að sjá hann takast á við persónusköpun af fullum krafti og vinna úr söguhugmyndum sem ekki eru jafn þrautreyndar og þær sem hér er að finna.




0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home