þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Þegar ég var mjög ungur, grannur og hálfvangefinn, starfaði ég sem "kennari" í Skagafirði, raunar aðeins með stúdentspróf. Þetta var nokkru áður en hugtakið leiðbeinandi kom til sögunnar í grunnskólakerfinu. Ég hélt til á Hofsósi, fór nokkuð oft til Siglufjarðar og stundum til Sauðárkróks. Núorðið fer ég ekki oft á þessar slóðir en því fylgir hins vegar alltaf nokkur tilhlökkun, vegna minninganna og þess hve Skagafjörðurinn er glæsilegur og heillandi með sínum dulrænu litum í fjöllum og klettaeyjum. Héraðsvötnin eru líka ákaflega falleg. Ég gleymi því hins vegar alltaf að nútíminn er líka úti á landi og ómeðvitað finnst mér ég vera að á leiðinni inn í þessa fortíð frá miðjum 9. áratugnum þegar við keyrum í gegnum Skagafjörð og endum á Pæjumótinu á Siglufirði. Á Siglufirði er t.d. urmull af kaffihúsum, nokkuð sem tæpast þekktist áður, og fólk gengur um bæinn með eðalkaffi í lokuðum pappaglösum líkt og á Laugaveginum. Raunar var Siglufjörður óvenjulega líflegur þessa helgi vegna mótsins, mörg þúsund gestir í bænum og stöðug umferð, útitónleikar og fleira. Stelpunum gekk frábærlega á mótinu en ég nenni ekki að fara úti í það, flestum leiðast frásagnir af knattspyrnuafrekum annarra barna en sinna eigin. Ég fór líka á Síldarminjasafnið sem er geysilega flott.

Ein af mínum fyrstu frambærilegu smásögum heitir Saknað og birtist í TMM árið 1987 og í fyrstu bókinni minni haustið 1988. Þar kemur fyrir sjoppa og vídeóleiga í litlu þorpi, er svona meginsviðið í sögunni. Fyrirmyndin var bensínsjoppan á Hofsósi frá 1984. Þar var helsta félagslífið, hún var sjoppa, veitingastaður (brasbúlla), vídeóleiga og fleira. Ég hlakkaði mikið til að stíga inn í hana aftur þegar við stoppuðum á Hofsósi síðasta fimmtudag. En sjoppan var lokuð og ég sá engar bensíndælur á planinu. Þegar ég spurðist fyrir komst ég að raun um að sjoppunni hafði verið lokað fyrir tíu árum. Þarna er síðan risinn fínn veitingastaður sem hefði verið óhugsandi á sínum tíma. Síðan er auðvitað fyrir löngu búið að leggja niður Kaupfélagið en þorpsverslunin er á allt öðrum stað. Ég fór þangað inn til að kaupa eitthvert smáræði og sá að afgreiðslustúlkan var frekar ung. Ég gleymdi að reikna í huganum og tók að velta því fyrir mér hvort hún væri gamall "nemandi" minn, hefði t.d. verið í 9 ára bekknum sem ég kenndi. Ég spurði hana hvenær hún væri fædd og þá kom upp úr dúrnum að hún hafði verið á öðru ári þegar ég "kenndi" í þorpinu.

Núna er verið að vinna að kápumynd að væntanlegri bók og í tengslum við kápugerðina hef ég verið að bræða með mér titil á verkið. Hef ég lent í alveg ógurlegum brösum með nafn og fjölmörgum hugmyndum verið hent á milli mín og minna nánustu í þessum efnum.

7 Comments:

Blogger Ágúst Borgþór said...

Sæl. Það væri nú mikill misskilningur ef ég móðgaði einhvern kennara eða leiðbeinanda með þessum skrifum því hér var ég eingöngu að hæðast að sjálfum mér. Á ég ekki alltaf auðvelt að horfast í augu við sjálfan mig þetta 20-22 ára gamall þó að yfirborðið hafi verið fegurra þá. Varðandi titil á bókinni, nú hefur þú lesið flestar sögurnar úr henni á Rithringnum. Hvað segirðu um þennan titil?

Tvisvar á ævinni

4:10 e.h., ágúst 10, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Mér finnst þetta segja ýmislegt um marga sögurnar. Það eru svona endurtekningar og deja vu í þeim. Sjoppa í Vesturbænum: Maðurinn fer í annað sinn á ævinni á salerni í kjallara verslunar/sjoppu - Mjólk til spillis: Maðurinn fer inn í húsið sem áður hafði verið mjólkurbúðin þegar hann var drengur - Eftir sumarhúsið: hún gengur fyrir þessari endurtekningur, það er lýst tveimur ferðum í þorpið og tveimur matarboðum hjá vinahjónunum og hann fer tvisvar að rifja upp æskuminningar í kjallara bankamannahússins - Afmælisgjöfin: Endurtekningar á flutningum Sektarskipti: Á fullorðinsárum þarf Ólafur að endurupplifa gammlar æskusyndir, peningaþjófnað, og þetta kallast á við fullorðinssyndir hans, framhjáhald. - Svona er þetta víða í bókinni - Mér finnst að titillinn þurfi að hljóma vel og hafa hæfilega mikla vísun í efni bókarinnar, ekki of miklar heldur.

5:24 e.h., ágúst 10, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Það sem ég meina aðallega er það að eitthvað endurtekur sig í lífi persónanna í sögunum, eitthvað sem hefur gerst áður í lífi þeirra gerist aftur, en í þetta seinna skipti er það samt öðruvísi. - Skýrustu dæmin eru líklega Sjoppa í Vesturbænum og Mjólk til spillis.

6:22 e.h., ágúst 10, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Þakka þér fyrir áhugann og stuðninginn.

7:11 e.h., ágúst 10, 2004  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég er ein af þeim sem fer á hverju sumri þennan rúnt milli Siglufjarðar og Hofsós. Siglufjörður má muna sinn fífil fegri, en ég hef óskaplegar taugar til staðarins. Þaðan var pabbi minn og þarna var ég ölll sumur sem barn og unglingur. Hofsós blómstara sem aldrei fyrr. Ég hef tengingu við Vesturfarasetrið og finnst þetta einn fallegasti staður á landinu. Svo var langafi Gulla prestur og bjó í Höfða á Höfðaströnd. Þar fæddist amma Gulla sem Bryndís dóttir okkar heitir í höfuðið á.
Stelpunum finnst Hofsós nafni alheimsins og fjaran þar ómótsæðileg - þær kalla hana reyndar bakgarðinn hjá vini okkar Bill Holm sem á hús alveg við sjávarsíðuna.Það er fátt skemmtilegra en að stija í Brimnesi, borða góðan mat, spjalla og drekka guðaveigar.
Þetta skrifar gamli nágranni ykkar af Fálkagötunni
Kristín Björg

6:35 e.h., ágúst 15, 2004  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Heil og sæl, fyrrv. nágrannakona og þakka tilskrifið. Ég bið að heilsa Gulla. Það er greinilegt að þið haldið eitthvað til á Hofsósi eins og fleira fínt fólk. Það gefur okkur kannski tilefni til að staldra lengur þarna við í næstu ferð. Kannski var ég óvænt svona framsýnn þegar ég setti mig niður á Hofsósi haustið 1984, en þá þótti þetta hallærislegasti staður á landinu. Náttúrufegurðin þarna hefur hins vegar aldrei svikið.

12:30 e.h., ágúst 16, 2004  
Anonymous Nafnlaus said...

Þú varst greinilega á undan "the in crowd"!!!!
Ég man þegar ég kom þarna 1991 og krossaði mig.....

12:56 e.h., ágúst 16, 2004  

Skrifa ummæli

<< Home