miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Að búa í úthverfi hefur fengið aðra merkingu í huga mínum eftir matarboðið hjá Rúnari Helga og Guðrúnu í kvöld. Útsýnið úr íbúðinni þeirra er nefnilega stórkostlegt og nær yfir stóran hluta af borginni.

Við Rúnar Helgi vorum nokkurn veginn sammála um að ritlistinni væri að blæða út og ef menn eins og ég og hann ætluðum að sinna bókagerð í framtíðinni myndi það snúast um að þýða reyfara, því varla færum við að frumsemja þá. Hann myndi hugsanlega kenna fagurbókmenntir á fámennum námskeiðum fyrir sérvitringa.

Það var semsagt mjög létt stemning í þessu matarboði þar sem Erla lýsti því t.d. yfir að henni fyndist oft óþægilegt að lesa bloggið mitt, bæði væru e-r skíthælar að ráðast á mig þar í kommentakerfinu, ég virtist vera að daðra við eitthvert kvenfólk og svo væri ég að skrifa um hana að henni forspurðri. Guðrún spurði mig: Hvernig fyndist þér að hún bloggaði svona?

Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá var glatt á hjalla í þessu ágæta samkvæmi.

Maturinn reyndist vera alveg hveitilaus, ég hefði ekki getað verið heppnari: fékk ljúffengan ofnbakaðan kjúkling með grænmeti. Aðspurður sagðist ég vera hættur að borða sykur og hveiti (ég afþakkaði eftirréttinn), ég hefði misst við það sjö kíló, en væri hættur að grennast þar sem fíknin leitaði útrásar í ostáti. Við töluðum einnig um trimm og ég sagði töluverðar líkur á því að ég yrði síðastur í mark í mínum aldurshópi í Reykjavíkurmaraþoninu.

Ég játaði fyrir þeim öllum þremur að ég væri dauðhræddur við kvenfólk og í rauninni liði mér illa nálægt öllum konum nema Erlu. Í návist karla væri ég miklu afslappaðri, þá gæti maður leyft sér að sleppa sér í grófum húmor og auk þess hefði ég aldrei áhyggjur af því að gera mig að fífli nálægt körlum vegna þess að ég hefði hvort eð er svo takmarkað álit á þeim. - Í návist kvenna væri maður hins vegar alltaf fyrir dómi og undir eftirliti enda vorum við öll sammála um að konur eru miklu krítískari en karlar. Ég væri ýmist hræddur við að gera mig að fífli nálægt konum eða móðga þær með því að segja eitthvað óviðeigandi.

Eins og ég er alltaf að segja þá var ég mjög kátur í þessu samkvæmi.

Ég vildi meina að skemmtilegar bækur væru ekki endilega góðar og leiðinlegar bækur væru hins vegar oft mjög góðar. Sögurnar mínar væru t.d. leiðinlegar en þær væru margar góðar. Rúnar Helgi lýsti því margoft yfir að honum fyndist Hverfa út í heiminn vera frábær saga og að Eftir sumarhúsið væri mjög skemmtileg. Ég sagðist vera ánægður með hana og að hún væri góð en auðvitað væri hún hundleiðinleg, hún fjallaði beinlínis um leiðindi. Okkur tveimur þætti hún skemmtileg af því við værum fagmenn, rithöfundar. Rithöfundar lesa sögur öðruvísi en almenningur rétt eins og Guðjón Þórðarson horfir öðruvísi á fótbolta en ég. Hann tekur sér jafnvel stöðu fyrir aftan annað markið og horfir á leikinn eins og töflu á töflufundi.

En merkileg er þessi siðvenja: Rúnar kyssti Erlu við komu og brottför og ég kyssti Guðrúnu en hef þó varla séð hana oftar en þrisvar sinnum áður. En aldrei gæti ég hugsað mér að kyssa Rúnar Helga.

Síðast en ekki síst: Ég var leystur út með tveimur skáldsögum sem eru svo splunkunýjar að þær eru ekki komnar út. Önnur er þýðing sem hefur verið prentuð en er ekki komin í dreifingu og hin er ný skáldsaga eftir Rúnar Helga sem ég fékk í handriti en hún kemur út fyrir jólin.

15 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ástæðan fyrir því hversu gott þetta blogg er og hversu margir lesa það er að þú skrifar í fyllstu einlægni. Þú skrifar vel og ert kaldhæðinn, fyndinn og meinfýsinn á milli en undirliggjandi þráðurinn er einlægni.

Naflausi fjöldinn kann að meta þetta en öfundarmenn sem starfa í sama geira kunna varla að meta þetta framtak - skapar hættulegt fordæmi sjáðu til.

Haltu þessu áfram.

1:39 f.h., ágúst 10, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Ég þakka. Þetta er að vissu leyti rétt hjá þér: Til að einlægni virki vel í texta þá þarf maður að kunna að skrifa. Maður þarf kannski ekki að vera neinn ritsnillingur (og ég er það ekki) en maður þarf að kunna eitthvað, annars getur einlægnin orðið banal.

1:45 f.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Það er munur á einlægni og barnaskap og þess vegna getur einlægni ekki orðið banal.

Hafðu engar áhyggjur af því.

1:57 f.h., ágúst 10, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Góður punktur.

1:58 f.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Nei, þú ert ekki ritsnillingur, heldur meistari.
Varðandi kolvetnakúrinn kannast ég við þetta með að yfirfæra átið á sykurlaust skyr, rjóma, smjör og majónes.
Ég lenti einmitt í því þegar ég prófaði kúr af þessu tagi. Dýrið gekk enn laust, en bara á feitara bensíni.
-hk

1:59 f.h., ágúst 10, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já, þetta er umhugsunarvert, HK, en ég lít hins vegar ekki á þetta sem kúr. Ég hef prófað Atkins-kúrinn og þetta er ekki hann. Ég hætti að borða hvítan sykur og hvítt hveiti í vor vegna þess að ég tel að ég eigi enga möguleika til lengdar á að hafa hemil á matgræðginni ef ég neyti þessara fæðutegunda. Maður er hins vegar áfram matarfíkill og vandinn hverfur ekki við þetta þó að hann verði auðveldari viðfangs. Ég tel mig t.d. þrátt fyrir allt eiga ágæta möguleika á að snúa aftur við blaðinu núna en væri ég ennþá að narta í sætindi, borðandi brauð og pasta reglulega og þess háttar, þá ætti ég enga möguleika.

2:10 f.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

samt ekkert feiminn við að kyssa konur útí bæ ...?

2:28 f.h., ágúst 10, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Já, ef þær eru í Garðabænum.

2:30 f.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Heill og sæll félagi

Þar sem þú talar um hvernig baráttan gegn kílóunum hafi staðnað verð ég að hvetja þig til að fara að lyfta (sýnist á skrifum þínum að þú gerir það ekki). Ég byrjaði að lyfta fyrir fimm eða sex mánuðum og hef lést um fjórtán til fimmtán kíló (reyndar hef ég dregið aðeins úr sælgætisáti líka og skipt úr Coke í Coke Light). Hlaup eru ágæt til síns brúks en duga ekki ein til að ná árangri. Matarkúrar eru svo stórhættulegir þar sem það fyrsta sem lætur undan eru vöðvarnir sem eru nauðsynlegir til að vinna á fitunni.

Sjáumst kannski á vellinum í síðustu umferðinni. Það skyldi þó aldrei fara svo að mínir menn sendu þína niður! (Nei, ég segi bara svona.)

3:43 f.h., ágúst 10, 2005  
Blogger Ágúst Borgþór said...

Heill og sæll. Já, ég veit að stærri vöðvar auka brennslu. Mínir hafa nú samt örugglega ekki rýrnað enda borða ég mikið prótein. Það gæti vel hugsast að þið senduð okkur niður en ég ætla að leyfa mér að spá því að mínir menn klóri sig úr mestu vandræðunum í næstu leikjum.

3:52 f.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér þykir leitt hvernig þið talið um ritlistina og hef ólíkt öðrum minni áhyggjur af aukakílóunum á yðar ágæta búk. Þið Rúnar Helgi segið að ritlistinni sé að blæða út og að það sem eftir stendur sé að keyra tað á völl og þýða reyfara. Ég hef meiri trú á mannkyninu en svo. Og mér finnst það leiðinlegar tiktúrur hjá nútímafólki að segja allt vera dautt eða við það að deyja, og sérstaklega ef það býr þannig að það stundar sjálft sportið. Sá sem segir að bókin sé að gefa upp andann á annaðhvort að hætta að skrifa eða grípa sprettinn og sigra til sín mátt. Það þýðir ekkert að gefast upp, og satt að segja býst ég ekki við að þú sért á þeim buxunum að leggja niður lummurnar. Nei, þetta dauðatal samfara bókatali er orðið úldið bein að naga, og höfundar verða að fara að rísa upp og draga af sér slyðruna. Lesendur eru oftast til ef bókin er góð, en ef bókin er léleg þá eru aðeins vinsamlegir lesendur. Og mundu að sumar bækur tóra lengi áður en þeim er áskapað líf á meðal lesanda. Það gerist ekki allt í samtímanum þó samtíminn haldi að hann búi við óskorað vald og sé óvinnandi borg. Framtíðin tekur aðeins vitið með sér úr samtíma okkar, og það er því hollast að halda áfram að skrifa semallrabestar bækur – og útleggja svo aðeins reyfara ef þeir eru góðir.

1:11 e.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hélt að verkaskiptingin milli rithöfunda og lesenda væri þannig að rithöfundarnir skrifuðu bækurnar og lesendurnar dæmdu síðan hvernig hefði tekist til. Ef rithöfundar eiga sjálfir að ákveða hvað séu góðar bækur og vondar eru lesendur orðnir óþarfir.
Skemmtilegar bækur eru ekki alltaf góðar og leiðinlegar bækur eru ekki alltaf vondar. En það eru meiri líkur á því að skemmtileg bók sé góð heldur en leiðinleg bók.
Það finnst mér alla vega.

8:11 e.h., ágúst 10, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég gef nú ekki mikið fyrir þessar umkvartanir Erlu, það verður að segjast eins og er. Eftir því sem þú hefur verið að lýsa henni á blogginu er konan a) góð við börnin, b) spretthörð, c) forsjál í fjármálum. Af þessari lýsingu að dæma er Erla næstum því 'too good to be true'. Nánast eins og óskaeiginkonan.

En talandi um kossa.

Fyrir tveim, þrem árum sá ég í sjónvarpinu þegar var verið að veita verðlaun fyrir íþróttamann ársins eða knattspyrnumann ársins eða hvað það nú var.

Verðlaunahafinn, ungur maður, sté upp á sviðið alveg afskaplega ánægður og hrærður, sem skiljanlegt er, til að taka á móti verðlaununum. Og í gleði sinni kyssti einhvern kall sem var að presentera verðlaunin, einhvern forkólf úr íþróttahreyfingunni.

Þá hugsaði ég með mér: þessi ungi maður hlýtur að vera einhversstaðar utan af landi.

Fyrir það einmitt að kyssa annan karlmann eins og ekkert væri.

Þessi gamli og fallegi íslenski siður að kyssast er nefnilega á algjöru undanhaldi, það er að segja þegar um tvo karlmenn er að ræða.

Ég ólst upp við það, í minni fjölskyldu, að fólk kysstist bæði þegar það var að heilsast og kveðja. Pabbi minn hafði það fyrir venju að kyssa bæði mig og bróður minn og kyssa barnabörnin sín, hvort sem þau voru börn eða uppkomið fólk, og gerði nákvæmlega engan greinarmun á kynjum.

Þannig var þetta bara í hans uppeldi. Fólk kysstist.

Eins og ég segi, þetta er gamall og fallegur íslenskur siður og mjög leiðinlegt að hann skuli vera að deyja út vegna t.d. einhverrar hómófóbíu.

- Sólbráð

4:03 f.h., ágúst 12, 2005  
Blogger oakleyses said...

red bottom shoes, michael kors outlet online, true religion, tiffany and co jewelry, nike air max, oakley sunglasses, ray ban outlet, tory burch outlet online, tiffany jewelry, michael kors outlet, louis vuitton, nike outlet, oakley vault, kate spade outlet online, prada handbags, nike free, longchamp outlet, ray ban sunglasses, nike air max, coach outlet store online, burberry outlet online, christian louboutin, coach outlet, christian louboutin shoes, christian louboutin outlet, louis vuitton handbags, michael kors outlet store, michael kors outlet online, polo ralph lauren, cheap oakley sunglasses, chanel handbags, coach purses, coach outlet, prada outlet, kate spade outlet, polo ralph lauren outlet, burberry outlet online, longchamp handbags, true religion outlet, louis vuitton outlet online, gucci handbags, jordan shoes, longchamp outlet online, michael kors handbags, louis vuitton outlet, michael kors outlet online, louis vuitton outlet

2:48 f.h., nóvember 29, 2014  
Blogger oakleyses said...

birkin bag, ferragamo shoes, ugg, reebok shoes, asics shoes, insanity workout, hollister, giuseppe zanotti, chi flat iron, soccer jerseys, herve leger, jimmy choo shoes, uggs outlet, new balance outlet, replica watches, lululemon outlet, nike huarache, north face jackets, ugg boots, p90x workout, longchamp, canada goose outlet, uggs on sale, abercrombie and fitch, beats headphones, wedding dresses, vans outlet, valentino shoes, mac cosmetics, canada goose outlet, canada goose, uggs outlet, celine handbags, soccer shoes, nike roshe, mcm handbags, marc jacobs outlet, bottega veneta, mont blanc pens, ugg outlet, canada goose outlet, nfl jerseys, ugg soldes, babyliss pro, ghd, nike trainers, north face outlet, ugg boots, instyler ionic styler

3:02 f.h., nóvember 29, 2014  

Skrifa ummæli

<< Home