sunnudagur, ágúst 22, 2004

Ég var bara bolur í gærkvöld, fyrir utan það að ég var ekki fullur. Við vorum öll 4ra manna fjölskyldan á hafnarbakkanum og hlustuðum á tónleikana. Mér fannst allar hljómsveitirnar standa sig vel, enda hef ég ekki sama vitið á músík og bókmenntum. Írafár er t.d. bara ágæt rokkhljómsveit þó að börn elski söngkonuna þá er músíkin ekki smábarnaleg. Mér finnst þau oft sýna metnað í lagasmíðum og útsetningum og með köflum klassíska rokktakta. Brimkló er einstaklega vel spilandi og syngjandi band og Egó á skemmtileg lög sem maður þekkir. Það var gaman að Egó skyldi byrja á Clash-laginu Guns of Brixton, Clash er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum. Ég nenni ekki að kommenta á flugeldasýninguna, ekki jafn hrifinn af flugeldum og margir aðrir.

Um daginn fór ég á tónleika Eivarar Pálsdóttur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Kannski sýnir það músíkplebbann í mér að eftir að hafa hlýtt á frábæran söng stúlkunnar um stund fór ég að þrá aðeins meira fjör í spilið því lögin hennar eru afskaplega róleg. Annar dagskrárliður var ljóðalestur Gyrðis Elíassonar sem var afar vel heppnaður, efnið gott og skilaði sér vel. Þó var nokkur truflun af tvennu: farsímar hringdu ótt og títt í salnum og margir töluðu í símana sína. Plebbaskapur af verstu gerð. Einnig var bagalegt að óvenjumargir voru með ungabörn og smábörn með sér sem ýmist hjöluðu hátt eða grétu. Þó að fólk hafi álit á börnunum sínum eru það samt ekki fullmiklar kröfur að ætlast til þess að þau kunni að meta ljóð Gyrðis Elíassonar um eins árs aldur?

Á föstudagskvöld fór ég á tónleika Lou Reed sem voru mjög vel heppnaður. Hljómsveitin hans er greinilega hæfileikarík og vel samæfð. Sellóleikurinn var stórkostlegur.

Í dag er sunnudagur og ég sestur við tölvuna til að glíma við grein sem ég er búinn að lofa Kistunni. Auk þess þarf ég að glugga meira í próförkina að bókinni margumræddu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home