þriðjudagur, september 07, 2004

Ég hef hvað eftir annað hikað við að skrifa færslur undanfarið. Ástæðan er sú að líf mitt er mjög leiðinlegt þessa dagana, þ.e. skemmtilegt fyrir mig en leiðinlegt fyrir lesendur. Hver hefur áhuga á því að ég hafi farið í tvö matarboð um helgina, skokkað með konunnni og mér hafi liðið vel? Boring. Því miður, ég er ekki nógu óhamingjusamur til að líf mitt geti orðið áhugavert. Lesið frekar sögurnar mínar. Þær eru á bókasafninu og ein kemur í bókabúðir fyrir lok október.

Eitt smáatriði stendur þó upp úr og er þess virði að skýra frá. Við höldum húsfund í kvöld vegna steypuviðgerða. Um helgina dreifði ég miðum með fundarboðum í nágrannalúgurnar. Kjallarabúinn á lítinn bolabít, meinlausan en fjörmikinn og kom geltandi á móti mér þegar ég birtist fyrir framan dyrnar. Ég smeygði blaðinu inn um lúguna en hundurinn hremmdi það með kjaftinum og tuggði það. Ég lét mig hverfa og vissi ekki hvort hann hefði gleypt blaðið. Núna megið þið teikna og lita mynd af hundinum að borða fundarboðið frá mér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home