Mitt alræmda sjálfsálit kom sér vel í gærkvöld, ég efast um að höfundur með lítið sjálfstraust hefði komist í gegnum upplesturinn. Og ekki spillti raddstyrkur minn fyrir. Í salnum voru 70 manns, hárgreiðslufólk og vandamenn. Af þeim voru 60 blaðrandi allan tímann á meðan ég las. En útundan mér sá ég á stangli samtals um tíu manns sem hlustuðu af ákefð. Þannig að ég brýndi raustina og las söguna fyrir þessi tíu manns. Sum þeirra komu til mín á eftir og spurðu mig áhugasöm út í bókina.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, nóvember 19, 2004
Dálítið slys gæti verið í uppsiglingu, þ.e. hálftómur salur á smásagnakvöldi á Súfistanum í kvöld. Ekkert birtist um þetta í Fréttablaðinu og Mogginn birtir bara klausu í þessum leiðindadálki sínum, Stað og stund. Ég þarf að reyna að smala vinum og ættingjum því þetta lítur ekki vel út. Mætið öll sem getið og viljið kl. 20.30 á Súfistann.
Er annars 42 ára í dag. Það er nú ekkert sérstakur aldur en gæti verið verri. Helsti munurinn að það er miklu verra að grenna sig en áður. Finn annars enga breytingu, t.d. á þoli og öðru. Ég fékk kveðju frá vini mínum sem starfar í Sri Lanka. Hann átti afmæli í september og átti frekar dauflegan afmælisdag, þurfti að mæta í vinnuna og fjölskyldan fjarri. Dóttir hans, sem hefur mikinn orðaforða en er aðeins tíu ára, sendi honum hins vegar ljóð og hafði það m.a.s. á ensku:
Daddy in Shrilanka
hope he's having a good time
mom and little brother sleep at the same time
me and my little sister
hope he is ok
we wissh him happy birthday
and if little brother knew it - he would too.
fimmtudagur, nóvember 18, 2004
Pistillinn minn í fyrradag um Rafaugað var kjánalegur og ómaklegur. Þessi færsla skoðast sem afsökunarbeiðni. Ég er hins vegar á móti þeirri ritskoðun að fjarlægja vanhugsað efni af netinu og því stendur færslan sem heimild um slæma daga hjá meistaranum.
Fékk þennan líka svakafína dóm hjá Páli Baldvin í DV í dag. Skoðun rithöfunda á gagnrýnendum er afskaplega einföld og gegnsæ: við hötum þá sem skrifa illa um okkur og elskum þá sem skrifa vel um okkur.
Ég les upp fyrir hárgreiðslufólk í kvöld og gat ekki varist því að snyrta mig örlítið betur en vanalega í morgun.
miðvikudagur, nóvember 17, 2004
Það bætist við upplestra: Annað kvöld les ég upp fyrir fríðan hóp hárgreiðslufólks á Kaffi Reykjavík.
Mæti í Bókaþing á morgun á Rás 1 og les 8 mín. kafla úr bókinni. Gunnar Stefánsson hringdi í mig áðan. Ég hugsa að ég lesi kafla úr sögunni Sektarskipti. Þarf að finna mér stund í kvöld til að lesa og tímamæla. Ég veit ekki hvenær þessu er útvarpað.
Á föstudagskvöldið er síðan smásagnaupplestur á Súfistanum. Segi betur frá því á morgun.
Rafaugað svarar mér í dag og gerir það vel. En ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta er sú að hann kemur með athyglisverðan punkt: segir að væntanleg skáldsaga Eiríks Arnar Nordahl verði unglingabók ársins. Nú veit ég lítið um þá sögu, veit bara það um höfundinn að hann hefur bókmenntalegan metnað og hefur gefið út ljóðabækur sem þykja athyglisverðar. Á síðustu áratugum voru svokallaðar unglingabækur mjög fyrirferðamiklar í jólabókaflóðinu, þetta voru niðursoðnir ástarrómanar fyrir unglinga, gjörsneyddir vitsmunum og bókmenntatilburðum. Þessi bókmenntagrein virðist nánast útdauð núna. Millistig voru bók Beturokk og Dís, líka afleit verk. Á hinn bóginn hefur einn höfunda Dísar gefið út skáldsöguna Klisjukenndir sem mér finnst forvitnileg og ætla að lesa með opnum huga. Svo ég komi mér að kjarna málsins: Í þessu jólabókaflóði býðst m.a. hrollvekja eftir kornungan höfund, Jökul Valsson, og nú hefur Rafaugað lýst því yfir að skáldaga Norhahlsins höfði til unglinga. Og þetta er punkturinn: Auðvitað eiga skáldsögur fyrir unglinga að vera skrifaðar af bókmenntalegum metnaði en ekki ganga út frá því að lesendur séu slefandi hálfvitar. Ég las Ofvitann 14 ára og flestir vinir mínir lágu í Laxness löngu fyrir tvítugt.
þriðjudagur, nóvember 16, 2004
Rembingslegur bókmenntabloggari, Rafaugað, eflaust af yngri kynslóðinni, fjallar um 9 þjófalykla Hermanns Stefánssonar, og hrósar henni réttilega. En fyrir því er hefð í íslenskri bókmenntaumræðu að hrósa ekki neinu án þess að hnýta í eitthvað annað í leiðinni:
"Höfundurinn leikur sér semsagt að bókinni sjálfri sem grip, hún er nánast persóna í sér sjálfri. Sem gæti þótt dálítið póstmódernískt, en mér skilst að svona leikir hafi nú tíðkast öldum saman. Ég hef að minnsta kosti mjög gaman af slíku. Það höfðar meira til mín heldur en ljúfsár minningarbrot eða stælingar á Raymond Carver eða Tsjekóv."
Enginn íslenskur höfundur stælir Carver eða Tsjekóv. Aðeins einn höfundur hefur lýst Carver sem áhrifavald sinn og hann er jafnframt sá eini sem líkt hefur verið við Carver í ritdómi. Jafnframt er þessi höfundur einn örfárra íslenskra smásagnahöfunda sem eitthvað kveður að. En í mínum sögum örlar ekki á stælingu á Carver, því síður Chekhov, enda vandséð hvernig hægt er að stæla jafngamlan texta og Chekhovs. Ég er ekki jafngóður stíllisti og Carver, en umframt allt hef ég öðruvísi stíl, og þrátt fyrir áhrifin frá honum fer ég allt aðrar leiðir í sögubyggingu, geri miklu flóknari söguþráð og hnýti saman fleiri þræði. Það er hins vegar kaldhæðnislegt að vera í hálfkæringi sagður stæla höfund, af penna sem augljóslega hefur ekki náð að þroska með sér frumlega og persónulega hugsun, hvað þá stíl, og er allur á valdi stælinga þó að erfiðara sé að kenna þær við einhvern einn höfund, miklu fremur tískuhugsun og tískuorðfæri. Og umfram allt rembing.
mánudagur, nóvember 15, 2004
Sjaldan hefur verið samankomið jafnmikið magn af snilld í einu í móttöku Íslensku auglýsingastofunnar og um 4-leytið í dag og hefur þó margt hæfileikafólkið dvalist innan veggja þessarar stærstu auglýsingastofu landsins. En þegar meistari smásögunnar og sjéníið Bragi Ólafsson skiptu á bókum var skalinn sprengdur. Og þegar við bættist Guðmundur Stefán Maríusson, fjármálastjóri stofunnar og annars konar snillingur en hinir tveir, þá roðnuðu veggirnir af lítillæti. - Við áritun varð dálítill ruglingur, Bragi var næstum óvart búinn að árita mitt eintak og ég hans, en við sáum að okkur í tíma. Snillingar geta einmitt verið svo utan við sig! Og báðir hlakka gríðarlega til lestrarins.
Áðurnefndur Guðmundur Maríus er víðfrægur og árangursríkur fulltrúi aðhalds og sparnaðar í auglýsingaheiminum. Hann á mörg fleyg ummæli sem að þessu lúta, m.a. þessi tvö: "Hjarta hvers fyrirtækis slær í takt við bókhaldið." Og: "Lúðrar borga ekki reikninga." - Til skýringar: Lúðrar eru árleg verðlaun í auglýsingaheiminum.
Gluggaði í bókina hans Braga Ólafssonar á Súfistanum áðan, Samkvæmisleikir. Þar er í samtali nokkurra persóna minnst á mann sem svipar til Björgvins Halldórssonar. Rætt er um að þessi náungi kaupi sér alltaf dýrustu hljómflutningstækin sem völ er á en vilji síðan ekki borga fyrir þau. Einhvern tíma hringir örvæntingarfullur kaupmaður í hann og segist vera í gríðarlegum vandræðum, hann verði að fá borgað, hann sé í "algerri steik". Og náunginn svarar: "Steik? Kartöflur. Sósa. Grænmeti."
Bragi ætlar að býtta við mig á eftir. Ég skipti líka við Þórarinn Eldjárn í vikunni (Baróninn). Mig langar líka í ferðasögubókina hans Einars Kárasonar en ég kann varla við að stinga upp á býttum við hann, þar sem við þekkjumst ekki neitt og ég hef ekki hugmynd um hvort hann hefur áhuga á að lesa bókina mína. Þannig að það gæti orðið vandræðalegt. Ætli ég láti þessi býtti ekki duga í bili. Er reyndar líka búinn að fá bókina hans Guttesens með þessum hætti. Hún er þokkaleg, ef ekki góð. Greinilegt að Guttesen er að þróast út í prósa. Spái því að hann skrifi skáldsögu næst.
Hvað er verið að bögga mann í DV út af titlinum á bókinni? "Tvisvar á ævinni... Hljómar óskaplega eins og einhver frasi sem er þýddur beint úr ensku."
Það versta er að það er sannleikskorn í þessu. Ég lenti í miklum vandræðum með titilinn því aldrei þessu vant var ég ekki með sögu heiti sem passaði sem titill á bókina. Hún hét allan fjandann á meðan hún var í próförk:
Gamlir búðargluggar
Mjólk til spillis
Sjoppa í Vesturbænum
Eftir sumarhúsið
Endurtekningar
Og ótal margt annað sem ég er búinn að gleyma. En auðvitað var ég bara glaður að sjá kommentið. Gaman að fá að vera með í súpunni. Skemmtileg opnugrein í Helgar-DV. Er líka sammála því að Klisjukenndir og Svartur á leik eru mjög flottir titlar.
sunnudagur, nóvember 14, 2004
Það var gaman í Silfri Egils í dag, spjallið var afslappað og skrekkurinn var fljótur að hverfa. Ég hef sjaldan talaði í sjónvarp og því var mér nokkuð í mun að undirbúa mig vel fyrir þáttinn og gera mig ekki að fífli. Fjögurra manna spjall sem er laust við deilur er síðan einkar afslappandi og því held ég að þetta hafi komið býsna vel út.
Ég er að skrifa í dag og kvöld, nokkuð sem ég átti ekki von á fyrir stuttu. Ég brá mér nefnilega á þann stað í Reykjavík sem feykir öllu jólabókaflóði og raunar hvers kyns jólastússi úr kollinum: Kaffisetrið við Hlemm. Þar er hver dagur öðrum líkur.