föstudagur, desember 15, 2006

Mér virðast eigendur Blaðsins vera að ráða fremur litlausan ritstjóra í stað SME. Ekki vil ég kasta rýrð á nýja ritstjórann sem er eflaust bæði greindur og vandaður, en þarf ekki aðsópsmeiri karaktera til að halda dampi á svona blaði? Jafnvel meingallaða. Svona ólíkir menn eins og Mikki Torfa, Reynir Traustason, Jónas Kristjánsson, SME og bróðir hans eru umdeildir menn sem láta að sér kveða, sem láta til sín taka. Mér líst satt að segja ekki á þetta. - Andrés Magnússon er líklega of hægri sinnaður til að stýra blaði af þessu tagi en ég trúi því ekki fyrr en það gerist að Blaðið sjái á eftir honum. Hann hlýtur að geta fengið að vinna þarna eins lengi og hann vill eftir að SME er farinn.

Hvað á það annars að þýða hjá fjölmiðlum nú til dags að staðsetja sig úti í rassgati? Ekki gæti ég ratað þarna uppeftir.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Þætti það ekki dáldið skrýtið ef valinn væri karlmaður ársins? Ekkert þykir sjálfsagðara en tímarit velji ár eftir ár konu ársins. - Ennþá viðgengst sá hugsunarháttur að það þurfi að púkka sérstaklega undir kvenkynið vegna þess að það sé minnimáttar eins og þroskaheftir eða geðsjúkir.

Konur hafa vissulega minni völd en karlar í stjórnkerfi og viðskiptalífi þjóðfélagsins en þau völd eru í höndum tiltölulega fárra karla. Langflestir karlmenn fara varhluta af völdum og ofurlaunum. Og þegar kemur að venjulegu fólki er erfitt að sjá hvers vegna konur þurfa að styrkja sérstaklega sjálfsmyndina fremur en karlar.

Hvers vegna þær þurfa t.d. bækur sem segja þeim að setja upp rauða húfu um fimmtugt og halda áfram að njóta lífsins - leggjast ekki í kör. Þarf virkilega að segja fólki slíkt og skrifa um það metsölubækur?

þriðjudagur, desember 12, 2006

Hann var á leiðinni út og því í jakkanum. Það var enginn hanki á salerninu og því hafði hann hengt jakkann á lykil sem stóð út úr þurrkuboxi áföstu veggnum. Þegar hann var búinn að ljúka sér af, þvo sér um hendurnar og þurrka, tók hann jakkann en þá féll lykillinn úr skránni. Fyrir neðan þurrkuboxið var plastkarfa hálffull af krumpuðum þurrkum. Hann fann ekki lykilinn á gólfinu í kringum körfuna og byrjaði því að róta ófús í henni. Karfan hafði greinilega ekki verið tæmd nokkuð lengi því varla gat notkunin verið mikil. Hann fann ekki lykilinn og fékk sig ekki til að leita af sér allan grun í þessum hroða.
Þessi mynd leitaði þráfaldlega á hugann á meðan Daníel sagði sína sögu. Árna fannst hann þurfa að finna einhverja merkingu í þessu, einhverja samlíkingu við játningar Daníels. En í raunveruleikanum var þetta eflaust merkingarlaust. Rithöfundar bjuggu til merkingu og samlíkingar. Var skáldskapurinn kannski afneitun á raunveruleikanum, þessum innantóma og merkingarlausa raunveruleika sem sífellt blasti við?

Það er hálfpartinn verið að biðja mig úr ýmsum áttum að skrifa fleiri ritdóma fyrir jólin. En það hentar mér ákaflega illa. Það er mikið að gera. Ég er daglaunamaður, ég er fjölskyldufaðir og ég er rithöfundur og það eru að koma jól. Ég kláraði Sendiherrann fyrir þónokkru síðan en smellti aldrei neinu á blað um hana. Það væri töluvert átak að gera það núna en mér þótti hún frábær. Algjörlega óumbeðinn er ég að glugga í Eitur fyrir byrjendur. Ég fór upp að síðu 40 áðan. Það var nánast nautn. Flottur stíll, draumkennt andrúmsloft, ófyrirsjáanleiki. Þrælgóður texti.

Fyrir utan þetta er ég staddur á síðu 24 í Brekkunni eftir Carl Frode Tiller sem Guttesen þýddi. Þessar fyrstu síður eru frábærar en þær voru lesnar fyrir örugglega hátt í tveimur vikum. Líklega er ég rúmlega hálfnaður með Óvini ríkisins. Eitthvað var ég líka byrjaður á Á eigin vegum, svona kaffihúsalestur, en sú bók virðist hins vegar krefjast töluverðrar einbeitingar. Ég á örugglega eftir að klára hana við tækifæri. - Ég bíð líklega með að panta mér nýju Munro-bókina, The View from Castle Hill, þar til milli jóla og nýárs en ég myndi helst vilja taka hana með mér til Heidelberg í janúar. Það verður af nógu að taka í bóklestri þangað til.

Heidelberg

Ég er búinn að ganga frá bæði flugfari og hótelgistingu. Ég verð í Heidelberg frá 11. til 21. janúar.
Ég hef tvisvar stoppað þar áður. Í fyrra skiptið labbaði ég upp í gamla miðbæinn sem teygir sig upp í fjallshlíðar. Þar voru fáir á ferli en fallegt um að lítast. Í seinna skiptið fór ég út um annan inngang á lestarstöðinni sem leiddi mig inn í nýja miðbæinn. Þar er alltof mikil bílaumferð. Ég átti huggulega stund þar á kaffihúsi og skrifaði eitthvað sem ég er búinn að fleygja núna. Ég held að aðalpersónan þá hafi verið með Parkinsonsveiki. Drottinn minn dýri. Ef maður myndi nú birta allt það drasl sem maður hefur párað á leiðinni að boðlegu efni.

Heidelberg er niðri í dal og umkringd skógivöxnum fjallahring. Andrúmsloft lítilla háskólaborga hentar mér vel í þessum janúardvölum. Þessi verður sú árangursríkasta síðan ég kláraði "Mjólk til spillis" og byrjaði á "Fyrsti dagur fjórðu viku" í Hildesheim í mars 2003. Þetta verður dáldið stressandi en gaman.

Ég er alltaf að gera það sama ár eftir ár. Who-söngurinn á jólahlaðborðinu fellur líklega inn í rútínuna. Næsta ár ætlum við að taka "I Can´t Explain". - Nokkrum vikum síðar fer ég enn og aftur til Þýskalands. Og svo aftur. Skáldsögur og smásagnasöfn á 2-3 ára fresti. Who-söngur í desember, Þýskaland í janúar.

Ég er leiðinlegur en öfundsverður.

sunnudagur, desember 10, 2006

Fyrir sirka viku síðan gjammaði ég eitthvað um það hér í vinnunni að í vor gæti orðið fyrsta stjórnarkreppan hér á landi í áratugi. Ég ætlaði að blogga um þetta en nennti því af einhverjum ástæðum ekki. Egill Helgason orðaði síðan þessar hugsanir mínar allnákvæmlega í þættinum sínum í dag. Sem er auðvitað besta mál því hann kemst yfirleitt betur að orði um pólitík en ég. Aðalspursmálið er samt það hvort fylgi Frjálslyndra helst. Ef það gerir það ekki fer það að miklu leyti til Sjálfstæðisflokksins. Sterkur Frjálslyndi flokkurinn með margumræddar áherslur í innflytjendamálum gæti hins vegar virkað illa í stjórnarmyndunarviðræðum við Vinstri græna og Samfylkinguna. Það hvarflar samt að mér að vinstri grænir verði erfiðastir - harðastir á prinsippunum. Ég hjó eftir því þegar ISG var í sama þætti fyrir viku að fjalla um hvernig samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins enda sem fylgislausar druslur - að hún eiginlega sagði hreint út að það sama myndi ekki gilda um Samfylkinguna vegna þess að hún væri svo miklu stærri og sterkari flokkur en þeir sem hafa farið illa út úr þessu samstarfi, þ.e. Framsókn og Alþýðuflokkurinn. Það var erfitt að sjá hún teldi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ólíklegt. - Ég held að Samfylkingin hafi líka neyðst í kaffibandalagið til að lúkka ekki illa hjá vinstri sinnaðri kjósendum sínum, en Vinstri grænir höfðu allt frumkvæðið að því í raun og veru.

Mér litist prýðilega á samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Bara spurning hvort þingmeirihlutinn væri ekki einum of sterkur.

Ætli ég skrifi ekki bara stutta framhaldsgagnrýni um Eitur fyrir byrjendur. Varla gagnrýni. Lestrarupplifun án ábyrgðar. Ég les hana á bókakaffihúsum. Núna er ég búinn með 20 blaðsíður (sem er ekki mjög lítið því hún er 131 síða) og jú, þetta er gaman og þetta er mjög vel skrifað. Atriðið þegar sambýlingarnir fá fiðring hvort til annars en sjá að sér er t.d. afbragðsgott. Það er geðþekkur nútímablær yfir textanum en uppbyggingin virðist þægilega hefðbundin. Fyrir aftan mig er netmynstrað skraut sem varpar skuggum á blaðsíðurnar þannig að það er dálítið eins og ég sé að lesa undir laufskrúði í sólskini. Þetta er í bókakaffinu í Eymundsson.

Síðan er bara að vona að EÖN hafi haldið dampi. Ég er hræddastur við að það komi enginn háski eða alvara í þetta, eða það verði ekki nógu sannfærandi þegar þar að kemur. - Það er þarna fólk að finna sig í lífinu, það hefur dáið barn einhvern tíma, þau eru ekki par en samt er einhver fiðringur; efnið er spennandi og krefst þess að maður finni eitthvað til þegar á líður. Þetta plöntutal má líka ekki bara vera eitthvað blaður og flipp. Það verður að vera vel hugsuð líking við eða metafóra um eitthvað áþreifanlegt sem manni finnst skipta máli. Við sjáum til. Maðurinn getur skrifað. Ég fórna líklega korteri af hádegismatnum mínum á morgun í þetta.

Þá er það komið á daginn: Ég get sungið. Ekki hafði ég hugmynd um það. Líklega er ég með rödd og getu til að syngja mig í gegnum a.m.k. eina audition í Idol.

Svokölluð hæfileikakeppni var haldin í jólasamkvæmi Íslensku auglýsingstofunnar. Eftir nokkra hvatningu lét ég til leiðast og sögn My Generation við vélrænan undirleik og með bakraddaaðstoð nokkurra vinnufélaga. Ég kann ekkert í tónlist, ekki nokkurn skapaðan hlut en vissi svo sem fyrir að ég hef sterka rödd, auk þess er ég alltaf að raula Who-lögin og hef svo sem haft á tilfinningunni að ég gæti haldið lagi. Þetta virkaði hins vegar mun betur en nokkurn gat órað fyrir og erfitt var að sjá hvorir voru meira undrandi yfir árangrinum, ég eða vinnufélagarnir. Hamingjuóskirnar voru vægast sagt þrálátar.

Aðspurð sagði Erla að hún hefði ekki heyrt einn einasta falska tón í flutningnum.

Auk þess braut ég kassagítar á sviðinu. Það var eðlilegur partur af atriðinu.

Ekki það, að ég hef ekki mikið að gera við þessa takmörkuðu hæfileika. Þeir eru nokkurn veginn gagnslausir en samt er gaman að þessu.