laugardagur, desember 27, 2008

Konur uppseld

Ég held að málfræðilega ætti ég að skrifa "konur uppseldar". En það væri skrítið. Mér skilst að bókin hafi verið prentuð í innan við 1000 eintökum. Kannski 750. Nýhil gaf út í einhverju bríaríi af ástæðum sem mér eru ekki að fullu kunnar. Bókin kom seint út og var ekkert auglýst, ekki einu sinni í Bókatíðindum. En hún fékk afdráttarlaust lof í sjónvarpinu og það dugði til að klára upplagið. Líklega hefði selst mun meira af henni ef meira hefði verið prentað. Mér gæti skjátlast en samkvæmt mínum heimildum er þetta fyrsta bók Steinar Braga sem hreyfist eitthvað. Hinar hafa líka fengið mjög góða dóma en þetta var svo afdráttarlaust og áberandi núna að það réð úrslitum. Sem segir manni að markaðssetning er alls ekki það eina sem skiptir máli í bókabransanum.

Ég var að skipta bókum áðan og ætlaði að fá Konur en hún var auðvitað ekki til. Vonandi prenta þeir meira eftir áramót.

föstudagur, desember 26, 2008

Seize The Cat

Mágkona Erlu (er hún þá svilkona mín?) var að kvarta undan því áðan hvað hún, og fólk almennt á okkar aldri, væri miklir vanaþrælar. Ungt fólk væri ófeimið við að framkvæma skyndihugdettur en við fengjum þær ekki einu sinni. Eitthvað fór hún með þetta á blautlegar brautir því dóttirin, sem er í MR, hafði gefið hjónunum einhverja hjónakynlífsbók frá Jóhanni Páli. Þetta var svona bæði í gríni og alvöru.

Þegar við komum heim sá ég ókunnugan kött fara inn um þvottahússgluggann okkar. Ég fór niður í þvottahús og þar lá kötturinn ofan á einni þvottavélinni. Ég fleygði honum út. Jafnharðan reyndi hann að smeygja sér aftur inn um gluggann uns ég lokaði glugganum.

Þetta var fallegur köttur, hreinn og strokinn. Ég hefði getað farið með hann upp og kynnt hann fyrir okkar ketti. Það hefði getað orðið skemmtileg stund fyrir mig, Erlu, krakkana og köttinn okkar.

En tækifærið rann úr greipum mér. Af því ég er svo miðaldra. Ef ég væri 25 ára værum við öll að leika okkur við nágrannaköttinn hérna inni og skottið á okkar ketti hefði þykknað um nokkra rúmsentimetra.

Jólastund milli stríða

Ég fékk þrjár bækur í jólagjöf (sem ég tel nú upp í nefnifalli hér á eftir þó að strangt til tekið ætti ég að skrifa þær í þolfalli) : Dimmar rósir eftir ÓG, sem ég átti fyrir og þarf að skila; Bjöguð enska Lúdmílu eftir DBC Pierre, sem mér líst ekki á og ætla að skila; og Segðu mömmu að mér líði vel eftir GAT, sem ég las á jólanótt og jóladagsmorgun. - Það er gaman að lesa GAT vegna stílsins, en hann er rómaður stílisti, nokkuð sem er algengt meðal rithöfunda en bara sumir þeirra fá lof fyrir það á meðan aðrir eru skammaðir fyrir efnisleysi. Sagan er samt vonbrigði en tæpast af gæðaskorti. Þannig átti ég von á nútímasögu en GAT fangar virkilega vel reykvískan sumaranda í góðærinu og ekki spillir fyrir að söguhetjan á heima á Fálkagötu og kærastan hans á Tómasarhaga. En svo kemur á daginn að mestöll sagan er endurlit um tilhugalíf og hjónaband foreldra söguhetjunnar. Bókin er 150 síður. Nóvellan getur verið vandræðaform. Bók GAT virkar á mann eins og hún endi áður en hún byrjar. Hliðarspor eftir sjálfan mig vakti mörgum lesendum áþekka tilfinningu. En það eru bara höfundar eins og ég sem eru skammaðir fyrir slíkt af gagnrýnendum á meðan aðrir eru einhvern veginn ósnertanlegir og gagnrýnendur þora aldrei að hreyta neinu í þá; slíkir höfundar verða eiginlega að sjá um að gagnrýna sig sjálfir. Sem þeir eflaust gera. Loftskeytamaðurinn eftir Knut Hamsun er 120 síður og fjallar um meintan kvennabósa. En kvennabósinn kemst ekki yfir einn einasta kvenmann í sögunni. Loftskeytamaðurinn endar áður en hún byrjar. - Í smásagnasöfnum er þetta ekki vandamál. Smásagan felur í sér knappleika og maður veit að þetta er búið þegar myndin hefur verið dregin upp. Og svo tekur næsta smásaga við og allar sögurnar geta náð að skapa sterka heildatilfinningu eða a.m.k. fullnægju. Í nóvellu er bókin búin þegar stutt sagan er búin.

Ég byrjaði á BA-ritgerðinni aftur í dag og skrifaði í sirka klukkustund. Í gærkvöld skrifaði ég sirka klukkutíma í skáldsögunni. Jólaslenið kemur í veg fyrir meiri afköst.

Ég fór hins vegar út að skokka í dag og í gær var ég bæði í boltaleikjum og skokki úti í kuldanum.
Nýju ári mætir maður fullur metnaðar enda verða miklar breytingar á mínum högum og krefjandi verkefni framundan.

Það tekur við háskólanám, skriftir halda áfram og í febrúar fer ég að kenna í Mími. Hef minna á milli handanna peningavís og miklu meira að gera.

þriðjudagur, desember 23, 2008

Hversdagshamingjan tekur völdin

Það vantaði mannskap í fótboltann í dag svo ég skipaði Kjartani út í KR-heimili ella fengi hann engin tölvuafnot fram yfir áramót. Svo heppilega vildi til að kallinn fór að hitta á markið og drengurinn fékk að sjá föðurinn svifaseina negla boltann þrisvar í markið og fagna með því að berja á bringuna með krepptum hnefa.

Í kvöld þurfti ég að beita lagni og kröftum við að rífa upp pikkfast niðurfallslok. Ég smeygði bognum vír niður um eitt gatið og upp úr öðru. Síðan var togað og rembst og hlemmurinn losnaði skyndilega af. Við blasti hryllileg drullueðja, illa þefjandi, henni var handmokað, höndin í latexhanska.

Síðan var að koma jólatrénu af svölunum, vatnsúða það, skreppa í Bónus á meðan þar þornaði, saga neðan af því, þrífa grenið af þvottahúsgólfinu, rogast upp með tréð og koma því á standinn.

Erla getur séð um að skreyta. Svoleiðis leiðindi eru eiginlega meira ógeð en niðurfallsdrulla.

Í Bónus var lagður grunnur að þýskum tilbrigðum við jólasteikina: Waldorf-salat og Sauerkraut. Hvorttveggja verður í boði sem meðlæti og það verður minn hlutur í matreiðslunni.

Í kvöld sá ég síðan frétt um að Háskólinn ætlaði að hleypa inn öllum vesalingunum rösklega 1600. Þá kættist keps og byrjaði að glugga aftur í Aristóteles.

mánudagur, desember 22, 2008

Börn

Ég hef verið svo slakur í "neimdroppinu" síðustu misseri að ég lét þess víst aldrei getið að mamma keypti íbúð af Agli Helga að Miðstræti fyrir sirka ári. Af ástæðum sem mér eru ekki að fullu kunnar kom frægasta barn íslenskra bloggheima í stutta heimsókn til mömmu í dag, þ.e. Kári Egilsson, og leitaði m.a. að gömlu leikfangi bak við miðstöðvarofn, krakaði eftir því með priki eða sleif. Mamma var að matast og Kára leist vel á matarborðið því hann sagði orðrétt: "Hér eru bara kræsingar á borðum".

Ég varð ekki vitni að þessu heldur var mér sagt þetta í afmælisveislu Freyju sem við héldum í kvöld. Hún er orðin 14 ára. Í dag skoðuðum við gamlar spólur með myndefni af börnunum, allt frá árinu 2001 til 2005. Mér finnst frekar erfitt að horfa á myndir af mér frá 2002 því þá sló ég þyngdarmet og er alveg svakalega feitur á sumum myndunum (mér finnst alveg nóg um ástandið núna eins og flestir vita). Ákveðinn söknuður fylgir því að sjá börnin yngri en þau eru núna en hann varir ekki nema í nokkar sekúndur. Það er fínt að eiga stóra krakka. Ég hlakkaði alltaf til að þau stækkuðu því lítil börn kosta vinnu og frelsisskerðingu. En ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað maður missir þau mikið frá sér. Þau verða svo sjálfstæð og vinirnir verða miklu meira spennandi en foreldrarnir. En það er líka gott.