Fer til Prag á morgun og kem aftur síðdegis á mánudaginn. Ekkert bloggað á meðan. Góðar stundir.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
miðvikudagur, apríl 06, 2005
þriðjudagur, apríl 05, 2005
Skruddan er byrjuð í kiljuútgáfu. www.skrudda.is J.D. Salinger og Ian Rainkin ríða á vaðið. Frekar ósveitt. Mér líst vel á nýju kápuna á Bjargvættinum. Tékkið á þessu.
mánudagur, apríl 04, 2005
Talandi um óð til H.C. Andersen þá er vert að minna á ljóðabókina Tindátar háloftanna eftir Óskar Árna Óskarsson sem kom út um 1990.
Uppáhaldskaffihúsin mín þessa dagana eru Hressó, staðurinn á Lækjartorgi (man ekki enn hvað hann heitir), Kaffi Roma við Rauðarárstíg, Tíu dropar við Laugaveg og Kaffisetrið við Laugaveg. Mismunandi ástæður eru fyrir dálætinu á hverjum stað og því er þetta enginn almennur gæðastimpill. Kaffihúsin við Hlemm græða t.d. heilmikið á því að vera einfaldlega á Hlemmi en fyrir marga aðra væri það mínus.
Hressó er mér efst í huga af þessum stöðum núna. Segja má að þar hafi tekist að uppfæra klassíska stemningu. Enn sem fyrr sækja rithöfundar Hressó stíft en nú á dögum eru rithöfundarnir orðnir svo fjölbreyttir: flestir eru með fartölvur með sér og sumir eru að blogga, uppfæra heimsíður eða skrifa handrit að stuttmyndum. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá Baldur Óskarsson sitja þarna yfir bjórglasi á sunnudaginn og horfa út í loftið. Ég hafði á tilfinningunni að hann væri búinn að leggja drög að næstu ljóðabók þegar hann kvaddi. Ekki spillir fyrir að bæði veitingar og þjónusta á Hressó eru til fyrirmyndar þannig að frekir miðaldra menn eins og ég eiga ágæta samleið þarna með unga liðinu. Það á að vera kaffihús á þessum stað, ekki McDonalds og því síður hvítþvegnir gluggar, en geysilega langt er síðan staðurinn hefur verið svona vel rekinn.
Þessa dagana er fagnað 200 ára afmæli eins frægasta smásagnahöfundar sögunnar: H. C. Andersen. Horfði á hluta af sjónvarpsdagskránni í gærkvöld og var hrifinn af mörgu. Til er nýleg íslensk smásaga sem ég tel ver óð til ævintýra Andersens en það er sagan um fermingardrenginn (man ekki titilinn nákvæmlega) í Sérðu það sem ég sé eftir Þórarinn Eldjárn, en sú bók kom út 96 eða 97. Afbragðsgóð saga.
sunnudagur, apríl 03, 2005
Nýja tilvitnunin hér að ofan er úr sögunni Sjoppa í Vesturbænum sem birtist í nýjustu bókinni, Tvisvar á ævinni. Svona setningar eru mér að skapi og þessi er ágætur fulltrúi þess sem ég vil standa fyrir í listinni.
Síðasta vika hlýtur að teljast Kormákar og Skjaldar vikan í lífi mínu því ég fór aftur þangað á föstudagskvöldið með Jóni Óskari Sólnes. Þar hitti ég m.a. rithöfund sem ekki vill láta minnast á sig hérna og upp úr miðnætti troðfylltist staðurinn af sigri hrósandi fréttamönnum RÚV. Að auki hitti ég einn af mínum dyggustu lesendum, Lárus Blöndal. Þrisvar var mér óbeðið færður drykkur af sessunautum og spjallfélögum, fallegar konur settust til skiptis á lausa stóla við borðin okkar, Jón Óskar gaf mér brenndan geisladisk með völdum lögum, Songs for the Mature Man, en á honum er ljósmynd af mér sem hann tók í skírnarveislu á Miklubrautinni á annan í páskum; myndin tekin úti á svölum. Í þessu dásamlega andrúmslofti gat ég samt ekki sleppt mér lausum því ég hafði allan hugann við að lenda ekki í þynnku á laugardeginum - alltaf er maður að berjast við að finna tíma og næði til að skrifa og ég hafði plön fyrir laugardaginn eins og alla aðra daga. Ég fór því heim eftir nokkra kaffibolla og þrjá koníak en hefði kannski betur slegið öllu upp í kæruleysi því ég var þunnur á laugardeginum og gat ekkert skrifað. Reykingar, beinar og óbeinar hljóta að eiga sinn þátt í þessu. Ég skokkaði að vísu og hefði varla gert það eftir alvöru fyllerí. En skrifað gat ég ekki - Erla var í æfingabúðum hjá kvennakórnum og Freyja í gistingu og við skemmtanahald með vinkonum sínum (þær eru farnar að kalla það Gistiklúbbinn, gista þrjá til skiptis á hverri annarri með tilheyrandi pizzuveislum, bíóferðum, Kringluferðum o.fl.) og ég var því einn heima með Kjartani. Við horfðum á handbolta og fótbolta í sjónvarpinu og lékum þessar íþróttagreinar með svamp- og gúmmíboltum á ganginum. Í sjónvarpinu tók hann kvennaleik í handbolta fram yfir Chelsea-leikinn en handboltinn er númer eitt hjá honum. Stefnir á Gróttu-KR um leið og hann hefur aldur til.
Fyrri partinn í dag fór Erla aftur í kórbúðir. Hún hringdi upp úr kl. 2 og sagðist ætla til Ingu systur sinnar að ná í bók um Prag. Þá var mér nóg boðið því í Fréttablaðinu stóð að Þráinn Bertelsson sæti við skriftir í Prag. Fyrir örstuttu upplýsti Vigdís Grímsdóttir að hún væri að fara til Parísar að einbeita sér að næstu bók. Ég tilkynnti því Erlu að ég væri á leiðinni niður í miðbæ Reykjavíkur að gera það einn dagspart sem þetta fólk gerir árið um kring í heimsborgum Evrópu. Hún tók því ljúflega og sótti Kjartan.
Ég var að koma af Hressó, hálfri síðu ríkari og hef allt kvöldið framundan og fram á nótt. Ég fer til Prag á fimmtudaginn og óvíst að ég nái öðrum söguspretti fram að því. Svona hefur þetta gengið árum saman og svona verður þetta áfram. Eftir einhver misseri kemur næsta bók út eftir ótal geðvonskuköst og fréttir af öðrum höfundum skrifandi úti í heimi.