laugardagur, október 15, 2005

Ég skrifaði þrjár blaðsíður í nótt og fór ekki að sofa fyrr en um þrjúleytið. Skrifaði við borðstofuborðið heima á vinnufartölvuna. Ég las yfir hluta af handritinu og sá margt aðfinnsluvert, töluvert um endurtekningar í mörgum köflum en það er nú lítið vandamál; aðalatriðið er að þeir virðast bráðlifandi. Ég veit hins vegar ekki hvernig sagan kemur út sem heild.

Í kvöld fer ég í Skáldaspírutengt partý þar sem ég les eitthvað úr handritinu, hlusta á lestur annarra og gítaraspil. Erla er að hugsa um að mæta í gítaraspilið.

Í nýju hægri sinnuðu þjóðmálariti Jakobs F. Ásgeirssonar (Þjóðmál) rekur Páll Vilhjálmsson mjög áþreifanleg dæmi aftur til 8. áratugarins um óbeit Davíðs Oddssonar á auðhringjum. Það er ágætis mótvægi við einhæfa umræðu um Baugsmálin.

Ég keypt nýjustu skáldsögu Pauls Austers, Brooklyn Follies. Síðustu bækur hans hafa verið einum of ruglingslegar, bygging með babúskusniði en þessi virðist ekki vera það, samkvæmt ágripi af söguþræði.

föstudagur, október 14, 2005

http://www.visir.is/?PageID=91&NewsID=57928 Ég skil ekki hvers vegna KSÍ hagar sér eins og Eyjólfur Sverrisson sé sjálfkjörinn arftaki landsliðsþjálfaranna. Menn eins og Willum Þór og Ólafur Þórðarson verðskulda stöðuna miklu frekar. En það hefur ekki einu sinni verið rætt lauslega við þá.

Skoðið forsíðufyrirsagnir Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag. Reynið síðan að halda því fram að annaðhvort blaðið sé hlutlaust. Pólaríseringin er að verða fullkomin.

Reyndar er neðri forsíðufrétt Fréttablaðsins óskiljanleg. Þar segir í fyrirsögn að prestur hafi vitað um misnotkunina í Gula húsinu en fréttin gengur út á að hann hafi ekki vitað um hana.

miðvikudagur, október 12, 2005

Nokkrar staðhæfingar úr hugskoti ÁBS, skoðanir og fordómar

Konur eru fallegri en karlar

Börnin mín hafa það gott

Ég verð langlífur

Líf mitt verður oftast tíðindalaust en samt á eitthvað ófyrirsjáanlegt eftir að gerast

Ég get ekki ímyndað mér hvernig nokkur getur haft áhuga á að horfa á heimildarmynd um kvennakór - en samt veit ég að þeir/þær eru til. Eða karlakór ef því er að skipta ...

Ég á eftir að skrifa eitthvað sem ég ætlaði ekki að skrifa en færir mér meiri viðurkenningu en það sem ég vil helst fást við í ritlist. Ég hef ekki hugmynd um hvað það verður.

Viðbjóðslegir barnaníðingar með sína kótelettuvanga og úrelt fatasnið stíga fram úr svarthvítri fortíðinni, frá þeim tíma þegar menn gátu gert það sem þeim sýndist við börn. Eru þeir tímar liðnir?

http://www.visir.is/?PageID=91&NewsID=57614 Furðuleg íþróttaúrslit, hreint stórfurðuleg.

Ég rambaði inn á OA fund í kvöld. Þar er allt með öðrum og traustari brag en þegar ég var í OA í gamla daga. Er ég þegar kominn með trúnaðarmann. Í OA á ég auðvitað heima, þar er flest eins og talað út úr mínu hjarta. En ég mun ekki mikið greina frá þessu hér enda nafnleynd í hávegum höfð í þessum samtökum.

þriðjudagur, október 11, 2005

http://www.kistan.is/efni.asp?n=4053&f=1&u=14 Ég hitti Tómas Ponzi á Mokka á morgun til að kaupa af honum þessa bók sem enginn Mokkagestur ætti að láta framhjá sér fara.

Mér líst vel á nýtt Kastljós, eldri þátturinn var of takmarkaður. Gott að hafa allt í einum pakka, það gæti ýtt undir meiri menningarumfjöllun.

Erla fékk að heyra það einu sinni enn um helgina hvað ég og hún lítum út fyrir að vera hamingjusöm hjón. Okkur bregður alltaf pínulítið við að heyra þetta en dómarnir eru alltaf afdráttarlausir. Því er ekki að neita við erum mjög hress og spaugsöm saman á mannamótum. Við vitum hins vegar ekki hvort við virðumst hamingjusamari en við erum eða hvort við erum hamingjusamari en við gerum okkur grein fyrir. Við vitum ekki hvort við eigum að svipta hulunni af blekkingunni eða baða okkur í þessari hamingju sem aðrir sjá en við steingleymum oft.

Kl. 13:10. Á meðan ég skrifa markpóst fyrir Íslandspóst hlusta ég á Talstöðina í heyrnartækjum í tölvunni. Ingvi Hrafn svolgrar í sig kaffi á meðan hann talar og maður heyrir öll búkhljóð greinilega. Hann úthúðar Jóni Snorrasyni: "Í embættishroka aumingjaháttarins". Í Ingva Hrafni fara saman hægri sinnaðar en um leið algjörlega óháðar skoðanir. En það eru dálítið mikil læti í honum.

mánudagur, október 10, 2005

Hvað eftir annað hugsa ég með mér: Ég ætti kannski að blogga um þetta. En svo nenni ég því aldrei.

Í gærkvöld fór ég niður í vinnu til að skrifa en skrifaði ekki nema eina setningu. Síðan þurrkaði ég hana út. Á föstudaginn skrifaði ég í 20 mínútur í hádeginu og svo í hálftíma heima um kvöldið. Afraksturinn var 2 síður, hátt í þúsund orð.

GSM-vasinn á nýja flauelsjakkanum er ekki nógu djúpur. Síminn hefur tvisvar dottið úr honum.

Hjólið er orðið alveg bremsulaust. Ég þarf að fara á því vestur á Nes og láta þann sem seldi mér það stilla bremsurnar. En ég treysti mér varla til þess.

Við förum aftur í Veggjatennishúsið í kvöld. Spurning hvort ég flýi ekki alveg inn í e-a stöðina. Það er skelfilegt að skokka í svona kulda.

Ég veit ekki hvenær ég á næst að skrifa grein í Blaðið. Er einhvern veginn sannfærður um að ég frétti það ekki fyrr en kvöldið áður.

www.skrudda.is Það er dáldið af nýjum bókum væntanlegt frá þeim, sumt athyglisvert. Hvað af þessu gæti selst?

http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=114134&e342DataStoreID=2213589 Myndarkelling.

Bloggfærsla sem ég myndi ekki nenna að lesa sjálfur

Ég fylgdist með æfingu hjá syninum í dag en hann hefur nýlegast flust upp í 7. flokk karla í KR.
Tveir harðfullorðnir karlmenn stjórnuðu æfingunni og eftir að hafa látið drengina iðka knattþrautir í góða stund stilltu þeir upp í tvo leiki í einu þar sem öll liðin fjögur voru aðgreind með vestum, hvert lið í sínum lit. Alla leikina út í gegn voru báðir þjálfararnir úti á völlunum og kölluðu stöðugt leiðbeiningar til strákanna.

Það er eiginlega varla hægt að gera betur í þjálfun 6 ára stráka.

sunnudagur, október 09, 2005

Ég ætlaði að óska Norðanáttinni til hamingju með væntanlega skáldsögu en þá kom í ljós að kommentakerfið hans er orðið lokað öðrum en sértækum meðlimum. Eru þetta einhver mistök eða hefur síðan hans breyst í e-a Reykjavíkurakademíu?

Ég hef verið grasekkill í dag. Fór með krökkunum og mömmu í Kolaportið. Hjálpræðisherinn lék þar og söng á kaffistofunni viðstöddum til gleði. Tveir rónar upptendruðust mjög af flutningnum. Ég keypti Yes plötu, einhvern samtíning af tónleikaupptökum og sólólögum, virkar ekkert sérstaklega góð. Ég gaf Kjartani gulan varabúning Liverpool sem þarna var til sölu á tæpan 2000 kall. Það er æfing hjá honum á morgun. Hann er að verða læs en það gerist aðallega með því að hann liggur í fótboltabókum, m.a. íslenskri knattspyrnu.

Ég skokkaði 7 kílómetra í morgun. Ég er enn að berjast við að ná mataræðinu aftur í sumarhorfið. Sífelld bakslög eiga sér stað. Ég tók megrunarbók Dr. Phil á bókasafninu í dag, aldrei að vita nema hann geti hjálpað upp á sakirnar. Í vikunni skrifaði næringarfræðingur enn eina meðalhófs- skynsemisgreinina í Moggann, þar sem kom fram að sykur væri ekki ávanabindandi en það sem gilti væri fjölbreytni í mataræði. Hverjum gagnast nú slík vísindi? Allir vita hvað þarf til að grennast og halda sér grönnum og allir vita hvað heilbrigt mataræði er. En sumir ná ekki tökum á því. Vandinn liggur í því, ekki vanþekkingu. Næringarfræðingur af hefðbundna taginu hefur ekkert fram að færa nema dæmigerð ráð sem duga ekki af því þeir sem að þeim er beint geta ekki farið eftir þeim. Öllu athyglisverðari eru þeir næringarfræðingar sem leggja til bindindi á sykur og hveiti. Þeir eru þó að leggja til atlögu við grunnorsökina - hvers vegna fólki tekst ekki að ná tökum á óhófinu.

Fleira þarf að koma til en bindindi - ef bindindið á að virka. Ég ætla að athuga hvort Dr. Phil getur hjálpað. - Í sjálfu sér er það ekki slæmt að vera 107 kg og 190 sm á hæð, 43 ára gamall, stórbeinóttur, geta skokkað án þess að mæðast og geta hlaupið 10 kílómetra á innan við klukkustund - þegar haft er í huga að viðkomandi er krónískt átvagl og hefur verið það frá sirka 12 ára aldri. En frelsið fæst aðeins með langframa lausn frá ofátinu.

Ég er aðeins búinn að þjófstarta á jólabókaflóðinu og þar kemur Súfistinn við sögu. Hef lesið drjúgan hlut af Steintré Gyrðis, sumt þar er fjandi gott, annað aðeins of kunnuglegt. - Stutt skáldsaga Jóns Atla, Í frostinu, þykir mér mjög góð. Þá hef ég verið að glugga í smásagnasafn eftir Hallberg Hallmundsson og sumar sögurnar hans eru góðar.