Í Lesbókinni er fróðleg og skemmtileg grein um Lolitu eftir Nakobov, þar sem fram kemur að söguþráður hennar sé nánast sá sami og í samnefndri, óþekktri smásögu þýsks höfundar sem kom út árið 1916.
Ég er þeirrar skoðunar að söguhugmyndir einar og sér séu lítils virði og í mínum huga er ritstuldur óhugsandi án þess að notast sé beinlínis við texta fyrirmyndarinnar. Skáldskapur verður til í byggingu, stíl, andrúmslofti. Hugmynd verður ekki góð fyrr en hún er látin virka í texta og textinn er vinnan, sköpunin, afrekið. Söguhugmyndin í Lolitu hefði í höndum einhvers annars getað orðið gjörsamlega banal, misheppnuð og öllum gleymd. Ég efast jafnframt um að það sé auðveldara að endursemja verk með þessum hætti en semja alveg nýja sögu.
Árið 2003 kom út hér á landi skáldsagan Ferðbúin eftir Baldur Gunnarsson en sú saga er augljóslega meðvituð endurskrift á Seize the Day eftir Saul Bellow. Ferðbúin er mjög harmræn saga og vel skrifuð, er í raun bæði sjálfstætt verk og endurgerð sögu Bellows. Aðalpersónur sögunnar eru mæðgur í stað feðga hjá Bellow. Svikahrappur sem afvegaleiðir aðalpersónuna og nýtir sér veikleika hennar er jafnframt kvenkyns hjá Baldri en karlmaður hjá Bellow. Aðalpersóna Seize the Day er hálffimmtugur fráskilinn karlmaður sem fær ekki að hitta börnin sín og er að verða gjaldþrota, m.a. vegna fjárkrafna eiginkonunnar fyrrverandi en þó umfram allt vegna eigin óráðsíu. Fráskilda konan í sögu Baldurs er hins vegar með börnin hjá sér en á erfitt með að sjá þeim farborða og eiginmaðurinn hótar leynt og ljóst að ná börnunum af henni. - Samband aðalpersóna beggja bókanna við móður/föður er keimlíkt. New York sjötta áratugarins er lifandi og áþreifanlegt sögusvið í sögu Bellows og það sama má segja um Reykjavík nútímans hjá Baldri Gunnarssyni. Fróðlegt væri að bera sögurnar betur saman og greina meira frá efni þeirra en ég nenni því ekki og hef annað að gera.