laugardagur, júní 06, 2009

Keep up the good work, nafni

http://www.visir.is/article/20090606/FRETTIR01/506510562

Skólameistari Bifrastar vill sameina hana HR og Listaháskólanum og byggja upp skóla sem hvílir á þremur grunnstoðum: 1) Listir og heimspeki 2) Viðskipti og lögfræði 3) Tækni- og verkfræði

Ég kláraði BA-ritgerðina mína í apríl. Hún er listtengd enda fjallar hún um viðhorf Platóns og Aristótelesr til skáldskapar. Ég fékk 8,5 fyrir hana.

Jafnframt kenndi ég ritlist meira og minna allt þetta misseri og bý yfir góðu glærusafni.

Um áramótin byrja ég í mastersnáminu en ég lýk því varla fyrr en sirka 2011 - 2012.

Meðfram því mun ég áfram sinna skáldskap og þróa áfram ritlistarnámskeið mín.

Heimspekinám mitt mun ég áfram tengja listum og skáldskap eins og kostur er.

Í lok kreppunnar sæki ég um stundakennslu hjá nafna mínum. Ég hvet hann til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Síðar munum við eiga gott samstarf.

miðvikudagur, júní 03, 2009

Hér er nýjasti Pressupistillinn

http://pressan.is/Pressupennar/Lesagrein/lygilega-stikkfri-samfylking/

Sérhæfingin, hagsmunirnir, skoðanirnar

Pistill sem birtist áður á pressan.is


Það nennir enginn að rökræða um smásögur. Ég bíð þess albúinn alla daga að kjafta hvern þann í kaf sem ekki er sammála mér um hverjir séu bestu smásagnahöfundar heimsins og hver séu lykilatriðin í velheppnaðri smásagnagerð.

Nei, fólk er ekki mikið fyrir að rífast við mig um þetta. En það les oft af áhuga smásögur sem ég bendi því á og sumir skrá sig meira að segja á smásagnanámskeið sem ég held. Þannig að ég kvarta ekki.

En þið skuluð bara reyna að vera ósammála mér. Ég mun kjafta ykkur rænulaus!

Það kemur fyrir að ég viðra stóryrtur á bloggi ýmsar skoðanir á þjóðmálum. Þá getur það gerst (ég tek fram að það er sjaldgæft) að einhver sérhæfður á viðkomandi sviði hafi samband við mig og vill leiða mig af villigötum á braut sannleikans. Sérþekking viðkomandi á málaflokknum gerir mér erfitt um varnir en sé hann að auki hagsmunatengdur þá er viðnám mitt vonlaust, því ástríðuþrunginn málflutningur vopnaður sérþekkingu er ósigrandi.

Í vetur var ég svo heppinn að fá þriggja mánaða starfslaun úr Launasjóði rithöfunda. Ég hafði áður ekki leitt mikið hugann að réttmæti listamannalauna, hafði þó aldrei talað beinlínis gegn þeim svo fyllstu sanngirni gagnvart sjálfum mér sé gætt. En það má undrun sæta hvað hugur minn fylltist af góðum rökum fyrir réttmæti þeirra um leið og ég hafði lesið svarbréfið góða frá launasjóðnum. Hvað það væri mikil vitleysa að skera þau niður jafnvel núna í kreppunni. Ruðningsáhrifin af starfi rithöfunda til dæmis. Ótal önnur rök sem ég útlista ekki hér. Ég efast um að margir hefðu roð við mér í rökræðum um listamannalaun í dag en fyrir nokkrum mánuðum hefði ég getað farið halloka í slíkri rökræðu.

En það er til fólk sem talar óháð hagsmunum. Eða kannski er það bara konan mín. Um daginn sagðist hún ekki skilja hvers vegna sparifjáreigendur voru tryggðir í bak og fyrir eftir bankahrunið en skuldarar rukkaðir upp í topp. Nú vill svo til að við eigum dálítinn sparnað, engar stórupphæðir en okkur munar um hann, og lítið sem ekkert af honum glataðist í hruninu. Og konan mín er viðskiptafræðingur þannig að auk hagsmunanna hefur hún líka eitthvert vit á málaflokknum.

Annars vegar hef ég ekki áhuga á því að borga niður skuldir annarra og mér finnst sorglegt til þess að hugsa hvernig vel gefið og vel menntað fólk gat týnt sér í græðgi og skuldasöfnun vegna þess að það sá leiðina til að styrkja sjálfsmynd sína liggja að of stóru húsi (með kuldalegum, stílhreinum og rándýrum innréttingum) og forljótum risajeppum. Á hinn bóginn er fráleitt að þeir sem selja afnot að peningum eigi einir að sleppa við að blæða nokkuð fyrir kreppuna. Allir hljóta að fórna einhverju. Það hlýtur að vera til millivegur.

Og sérfræðingar. Ekki hringja í mig út af þessum pistli! Ég er upptekinn.