laugardagur, apríl 05, 2008

Með gjallarhornið á Café Roma

Ókei, þið vitið nokkurn veginn hvernig þetta gengur fyrir sig á laugardögum.

Reyndar byrjaði þetta með körfubolta með Kjartani. Við notumst við körfu sem fest er á bílskúr nágrannans. Fimm ára stelpa í kjól fylgdist með okkur og afþakkaði fyrst að vera með. En eftir að hafa horft á okkur um stund kom í hana fiðringur og hún þáði að fá að skjóta í körfuna. Þegar henni loks tókst að koma boltanum í körfuna var gaman hjá okkur öllum - ein af þessum pínulitlu töfrastundum í tilverunni.

Í skokkinu á eftir mætti ég tveimur konum á aldur við mig sem voru að tala um sparnaðarleiðir. "Hvaða vextir eru aftur á peningabréfum?" spurði önnur. Ég gat ekki annað en velt fyrir mér hvort þetta væri tímanna tákn, mómentið þegar þjóðin snýr við blaðinu, úr eyðslu í sparnað.

Erla var á skíðum og Freyja farin í sund með einhverri annarri stífmálaðri stelpu. Málningin lekur af þeim í lauginni og svo þurfa þær að mála sig aftur, kannski í hálftíma, áður en labbað er um hverfið.

En Kjartan var heima með vini sínum. Ég rak þá úr tölvunni og sagði þeim að fara út að leika sér. Þá sagði vinurinn: "Stop whining." Mig rak í rogastans því þetta er einn af þeim mörgu frösum sem ég bauna á fólk dagsdaglega. "Hef ég einhvern tíma sagt þetta við þig?" spurði ég strákinn. Svo var ekki. Kjartan hafði gert það. Frasarnir mínir rata til hans og frá honum til vinanna.

Síðan var ætlunin að leggja af stað á hjólinu upp á Hlemm, á Café Roma, Rauðarárstíg, tæknilega á Laugavegi, en þá var hringt úr vinnunni og ég varð að leysa eitt verkefni í símanum í rúman hálftíma. Í gærkvöld þurfti ég að taka heim með mér aukaverkefni úr vinnunni og kláraði það í nótt. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér undanfarið en auðvitað kann það að breytast, auk þess sem ég er ekki endilega mælikvarðinn á verkefnaflæðið í vinnunni, tilviljanir geta ráðið því hvort mikið er að gera hjá mér eða ekki. En þetta er engu að síður dálítið skrýtin staða í krepputalinu öllu.

Punkturinn sem ég vil síðan skilja eftir hér núna er nokkuð sem hefur verið rætt töluvert annars staðar. Má nefna nýjustu greinina á andriki.is og umræður í kommentakerfinu hjá Agli Helga fyrir stuttu. En það er sú fyrirætlan að íslenska ríkið taki erlend lán til að koma bönkunum til hjálpar. Andríki þykir þetta ótækt - að íslenskir skattgreiðendur séu að taka stór og afar óhagstæð lán til bjarga þessum risafyrirtækjum frá vanda sem þau að miklu leyti bera sök á sjálf. Aðrir segja: Þessi stuðningur þarf að vera skilyrtur með eignarhlutum - þannig að útkoman er þjóðnýting að hluta. Gallinn er sá að tilhugsunin um ríkisbanka vekur ekki endilega upp góðar minningar. Fólk vill að bankakerfið sé í einkaeign en það vill kannski líka að stærð bankanna sé ekki alveg út úr korti við stærð þessa hagkerfis. Hvað á þjóðin að gera? Við sitjum uppi með þessa banka þó að við eigum þá ekki, hrun þeirra hefði geigvænlegar afleiðingar fyrir hag okkar allra. En það er óþolandi staða að þurfa að blæða fyrir mistök þeirra.

Einhver getur líka sagt: Ríkið getur alveg lánað bönkunum og bankarnir borga til baka í ríkiskassann. En hér er um að ræða upphæðir sem meirihluti fólks getur engan veginn gert sér í hugarlund. Og hversu hagstæð eða óhagstæð yrðu þau lánakjör? Þjóðfélagið allt hlýtur að tapa á þessum gerningi en hugsanlega er hann óhjákvæmilegur. Það er óþolandi.


Góða helgi.

föstudagur, apríl 04, 2008

Meiðyrðamál á Englandi

Sumt er aldrei rætt í botn vegna þess að fólk spyr ekki af ótta við að virðast vitlaust.

Og þannig er um einn mikilvægan þátt Hannesar Hólmsteins mála.

Ég hef aldrei skilið hvernig einn Íslendingur getur dregið annan Íslending fyrir rétt í Englandi.

Kannski hef ég ekki lesið skýringarnar á því nógu vel - en ég skil þetta ekki.

Skil ekki hvers vegna Hannes getur ekki bara gefið enskum dómstólum fokkmerki og minnt þá á að hann sé íslenskur ríkisborgari og enskir dómstólar hafi enga lögsögu yfir honum.

Finnst engum öðrum það undarlegt, burtséð frá Hæstaréttardómnum í Laxnessmálinu og algjörlega burtséð frá því hvort fólk fílar Hannes Hólmstein eða þolir hann ekki?

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Hvíldarblogg

Bloggsvæðin hafa hvert sitt svipmót. Á blogspot leið mér dálítið eins og ég væri úti í móa með einhverju krúttliði með lopahúfur á hausnum. Átti ekki alveg heima þar en eignaðist þó einmitt nokkra unga vini, t.d. Eyvind Karlsson og Kristjón Kormák (eða er hann óvinur? man það ekki). Vísisbloggið, þegar ég kvaddi það fyrir stuttu, var mestanpart orðið að risastórri ruslakistu, hlaðinni óskrifandi vitleysingum, rangt stafsetjandi fimmaurabrandaramaskínum og furðufuglum.

Hér á Eyjunni líður mér eins og ég þurfi að rausa um einkaþotuflug og trukkamótmæli í dag þegar mig langar ekkert til þess og hef engan áhuga á því.

En auðvitað hugsa ég um kreppuna. Hitti ungan lögfræðing í hádeginu og lagði mín spil á borðið fyrir hann, atvinnumál, eignastöðu og skuldastöðu. Hann sagði að ég þyrfti engu að kvíða, kreppan myndi varla hafa nein áhrif á líf mitt. Þegar við kvöddumst sagði hann með þungri áherslu: "Þið flytjið aldrei úr Vesturbænum!"

Er staddur á Segafredo eins og svo oft áður þegar fer að vora. Á borðinu er litla skáldsagan sem ég var að hnoða saman allt frá vorinu 2005, þá gjarnan staddur á Segafredo eða Hressó, og bloggandi um allt saman.

Ég er enn að vinna á þessari auglýsingastofu og átti ansi strembinn vinnudag sem stóð fram til hálfníu - lítið kreppuhljóð þar enn sem komið er.

Í tölvunni er enn ein smásagan og ég kom hingað til að láta daginn líða úr mér með einum Remy Martin sem er seldur svo ódýrt hér. Hér eru menntaskólastelpur að hlusta á Spegilinn í tölvu og ein þeirra segir að hann sé (orðrétt) "Spegill samfélagsins." Og þá man ég að ég var einu sinni pistlahöfundur á Speglinum. Voðalega líður tíminn hratt . Ég skrifaði tvo af þessum pistlum í brasbúllunni í Varmahlíð í Skagafirði sumarið 2005.

En svo dettur mér í hug að Remy Martin dugi ekki til að láta þennan vinnudag líða úr mér - en það þarf að gerast svo ég geti einbeitt mér að smásögunni sem ég ætla að skila innan tveggja vikna - og þá vaknar sú spurning hvort hægt sé að hvíla sig með því að blogga.

Og það er ég að gera núna.

Með þessu samhengislitla blaðri.

Á meðan þið hugsið um kreppuna, trukkamótmælin og það að Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún hafi flogið með einkaþotu en ekki í almenningsflugi. Einhvern tíma mjög fljótlega verður það allt gleymt en þá stendur þessi ómerkilega færsla eftir sem enn ein heimildin um líf mitt og mannlífið í þessari borg.

Ég er allur að endurnærast og nú tek ég til við smásöguna.

Góðar stundir.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

IKEA gefur tóninn

Hvet alla til að lesa viðtal við framkvæmdastjóra IKEA í Mogganum í dag. Ekki nóg með að IKEA lofi verðstöðvun heldur gerir málflutningur framkvæmdastjórans verðhækkanir ýmissa annarra fyrirtækja undanfarið mjög tortryggilegar. Með sannfærandi hætti leiðir hann í ljós að það sé út úr korti að stórhækka verð á vörum í sömu vikunni og krónan fellur. Ennfremur bendir hann á að fyrirtækið hafi notið sterkrar krónu á síðustu misserum í meiri framlegð en gert var ráð fyrir - þar með sé fyrirtækið í stakk búið til að taka á sig ágjöf af lækkuðu gengi.

Vonandi græðir IKEA á þessu útspili þegar upp er staðið - það væri mjög verðskuldað.

Er staddur á Segafredo og þar stærir vertinn sig líka af verðstöðvun. Hann býður mér Remy Martin á 500 kall. Ég segi honum að Pete Townshend hafi drukkið flösku af Remy Martin á dag áður en hann hætti að drekka. Hann veit ekki hver Pete Townshend er. Hann veit heldur ekki hvaða hljómsveit The Who er en þegar ég nefni rokkóperuna Tommy kviknar ljós á perunni.

sunnudagur, mars 30, 2008

Fermingar




Ég fór í fermingarveislu í dag og aðra um páskana. Aldrei hef ég notið þess jafninnilega að vera gestur í slíkum veislum og núna. Ástæðan er sú að ég fermdi sjálfur þann 15. mars og eftir það er einstaklega ljúft að þurfa ekki að hafa áhyggjur af öðru en að kýla vömbina við slík tilefni. Ekki misskilja samt, þetta var í alla staði ánægjulegt, en samt auðvitað amstur.




Ég viðhafði ýmiskonar trúleysisþus um fermingar þegar ég var yngri, sérstaklega eftir að hafa setið undir tvöfaldri slíkri kirkjuathöfn þegar frænka mín var fermd árið 1996. En núna var ég ekkert að setja þetta fyrir mig. Það sem kemur mér mest á óvart er að börnin taka þetta frekar alvarlega. Ég þekki allnokkur dæmi um börn sem nýlega hafa neitað því að láta ferma sig einmitt af því þau geta ekki gengist við heitinu - og svo önnur sem meðtaka trúar- og siðferðisboðskapinn af einlægni.




Allra mest kom mér á óvart hvað Freyja var lítið að spá í gjafirnar. Það þýðir ekki að hún hafi verið með guðsorð á vörunum alla daga í kringum tímamótin heldur var hún af einhverjum ástæðum með allan hugann við matinn. Hún er sælkeri og hefur áhuga á veitingamennsku og veisluhöldum.




Ég barði saman slædsmyndasýningu (með hjálp vinnufélaga) fyrir veisluna og læt hér fylgja eina af elstu og eina af nýjustu myndunum af dótturinni.