http://www.skrudda.is/default.asp?p=1&id=118 Ég er spenntur fyrir þessari bók. Las Umbúðaþjóðfélagið eftir sama höfund fyrir líklega um 17 árum. Það var mjög áhugaverð lesning.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
laugardagur, mars 10, 2007
Það er víða hægt að fá gott kaffi í bænum í seinni tíð, svo víða að ég er smám saman hættur að geta drukkið mjög vont kaffi. Þessi smekkbreyting hefur verið hröð. Eitt finnst mér standa upp úr eftir allan samanburðinn og jafnvel einhvern samanburð við útlönd: langbesti Café latté sem ég fæ er á Kaffitári. Áberandi er líka hvað drykkirnir eru jafngóðir, það er tiltölulega lítill daga- og staðarmunur. Stundum þegar ég er seinn fyrir á morgnana er ég að gæla við tilhugsunina um að skjótast upp í Kaffitár því ekkert kaffi er betra en fyrsti bolli dagsins. Af þessu hefur hins vegar ekki orðið.
Mér bragðast sami drykkur á Súfistanum næstbest og ég held að Mokka sé í þriðja sæti. Víða er þetta reyndar fínt eins og áður sagði.
föstudagur, mars 09, 2007
http://www.visir.is/article/20070309/FRETTIR01/70309031 Útlitið er vægast sagt ískyggilegt og ljóst að Vinstri grænir tapa engu á ofstæki sínu og ritskoðunartilhneigingum enda er stór hluti þjóðarinnar sama sinnis. Líklegt er að Vinstri grænir fái stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningar. Það eru vondir tímar framundan. Um efnahagsmálin fær maður engu ráðið, reynir bara að taka skynsamlegar ákvarðanir í kreppunni sem af þessu hlýst; við, þessi stóri hópur, sem annt er um málfrelsi og hefur m.a. látið mikið í sér heyra í bloggheimum - við þurfum að búa okkur undir að bindast samtökum eftir kosningar og berjast fyrir tjáningarfrelsinu.
Ég vil líka lýsa mig sammála andriki.is um kolrangar áherslur Sjálfstæðisflokksins hingað til í kosningabaráttunni.
fimmtudagur, mars 08, 2007
Ég skil ekki hvers vegna málsmetandi menn eru að bera blak af Steingrími J. fyrir netlögguhugmyndina. Segja að snúið hafi verið út úr orðum hans og leggja þau síðan á allra besta veg. En í Silfrinu nefndi Steingrímur það helst sem hlutverk netlöggu að koma í veg fyrir klámdreifingu á netinu. Þá erum við komnir út í ritskoðun og það er ljóst að kynjafræðiklíkan í Vinstri grænum er að hvísla í eyra hans.
Ritskoðunartilhneigingar eru mjög sterkar í flestum flokkum, kannski öllum nema Sjálfstæðisflokknum. Birtast þær í andúð á klámi en líka fordæmingu á antí - pc-talsmáta.
Frank Zappa eyddi dýrmætum tíma og orku í að berjast gegn ritskoðun í Bandaríkjunum á 9. áratugnum. Það er vanþakklátt hlutverk. Í Bandaríkjunum eru það yfirleitt hægri sinnaðir heittrúarmenn sem standa fyrir ritskoðun en á Íslandi og eflaust víðar í Evrópu stafar málfrelsinu miklu meiri hætta af vinstri sinnum og þá sérstaklega feministum.
miðvikudagur, mars 07, 2007
Ég veit ekki hvort það telst til nýmæla en það er töluvert mikið um tölvupósta í bókinni minni væntanlegu. Þ.e. tölvupóstskrif sem eru algjör skáldskapur en ég bý líka til bréfhausana með netföngum og subjectum. - Alls fimm persónur tjá sig misjafnlega mikið í tölvupósti og mér finnst ég ná mjög skemmtilega ólíkum "röddum" þeirra. Skemmtilegast þótti mér að láta þær skrifa stafsetningarvillur og málvillur en það er bráðnauðsynlegt því það er ekki allt fólk gott í réttritun og almennt skrifar fólk verr í tölvupóstum en við önnur tækifæri. Auk þess hafði ég mjög gaman af að láta það sleppa greinarmerkjum. Tveir nokkuð langir kaflar rekja sig áfram í tölvupóstum eingöngu eins og bréfasögur.
Á meðan tölvupóstarnir eru helber skáldskapur eins og nákvæmlega hvert einasta orð í bókinni, þá er þarna að finna litla klausu sem er ekki eftir sjálfan mig heldur Hjörvar Pétursson, en hann skrifaði fyrir mig tilvitnun í blaðagrein sem sonur Daníels á að hafa skrifað. Klausan er alltsvo líka skáldskapur; bara ekki minn skáldskapur.
Ein persóna er búin að breyta um nafn. Hún hét Beta og vinnur í bókabúð en yfirlesurum fannst þetta minna of mikið á nokkuð þekktan samborgara og væri barnaskapur og truflandi við lesturinn. Hún heitir hér eftir Elín. Önnur nöfn eru Daníel, Árni, Valgerður og Tinna. Auk þess eru nokkrar nafnlausar aukapersónur. Náungi sem hét Frímann var veigamikil persóna árið 2005 en er núna nánast horfinn úr handritinu en dúkkar þó upp sem önnur persóna, mjög lítilvæg reyndar. Árni á sér fyrirmynd sem er drengur úr nokkrum smásögum mínum sem gerast á 8. áratugnum. Í þessari sögu er Árni orðinn fullorðinn. Daníel og Valgerður fengu nöfn sín af ástæðum sem mér eru gleymdar frá því þegar handritið leit allt öðruvísi út.
Tinna er fallegt nafn og frekar algengt, mér finnst þó algengara að yngri konur beri það; Tinnan í þessari bók er hins vegar komin vel yfir fertugt. Hún skrifar skemmtilega og skynsamlega tölvupósta en kemur reyndar ekki ýkja mikið við sögu að öðru leyti. Þá kemur þarna fyrir almannatengill sem heitir Óttar Sigmundsson en hann skrifar bara tölvupósta, kemur að öðru leyti ekki við sögu. - Aðalpersónurnar eru Daníel, Árni og Elín (Beta). Lýsingin á Valgerði held ég reyndar að sé nokkuð eftirminnileg svo langt sem hún nær.
Mig langar ógurlega mikið til að fara að klára þetta helvíti. Sagan verður varla lengri en 150 síður en maður skrifar hægt eftir erilsaman dag á auglýsingastofu og þannig er þetta búið að paufast áfram undanfarin misseri. Ægilega hægt. Afköstin í Heildelberg á 9 dögum voru nánast eins og hálfs árs afköst við venjulegar aðstæður, jafnvel meira. En þar spilaði inn í hvert ég var kominn í ferlinu, þetta var mjög góður tímapunktur til að ná upp afköstum. - Svo er þetta margskrifað þvers og kruss og ýmsu sleppt sem jafnvel er vel stílað út af fyrir sig.
Þegar þessu er lokið langar mig til að skrifa 10 blaðsíðna smásögu sem byggir örlítið á nýlegri reynslu minni á rakarastofu. Önnur framtíðarverkefni er skáldsaga sem ég fékk hugmynd að á Vopnafirði um páskana í fyrra en gerist líklega í Reykjavík. Sú hugmynd er nokkuð mótuð og verður líklega næsta bók mín.
Auk þess stefni ég að því að koma út úrvali af smásögunum mínum vorið 2008. Skrudda hefur tekið vel í þá hugmynd en þetta yrði kilja. Ekki er ólíklegt að sú bók komi stuttu síðar út í Manchester en það er þó engan veginn frágengið.
Ólíkt yfirlýsingum mínum þegar ég var mjög ungur og bloggið var ekki til, þá eru allar líkur á því að þessi verkefni verði öll að veruleika.
Ég hitti Eyvind Karlsson á Hressó í dag og það virðist ljóst að honum munu engin bönd halda á rithöfundarbrautinni. Hann er þegar búinn með aðra skáldsögu og langt kominn með ýmsar hugmyndir sínar.
Townshend lét hins vegar ekki sjá sig. Ég ætlaði að kvarta yfir því við hann hvað Daltrey hefði hrakað hrikalega mikið sem söngvara. Hann hefði kannski bara orðið reiður enda Daltrey búinn að reynast honum svo vel að hann hefur eyðilagt röddina í sér eftir að hafa öskrað lögin hans í gegnum árin. En helst vildi ég sjá Who framtíðarinnar með Eddie Vedder úr Pearl Jam sem aðalsöngvara og Daltrey bara í bakröddum og á munnhörpu.
sunnudagur, mars 04, 2007
Aftur mæti ég sjálfum mér á förnum vegi; og öðru fólki líka
Ekki vil ég bregðast hugsanlegum eða ímynduðum bloggvæntingum og læt því þess getið að þegar við Erla skokkuðum á Ægisíðustígnum um hádegisbilið í dag mættum við Páli Ásgeiri og frú við sömu iðju. En drottinn minn, ekki vildi ég vera skokkfélagi Páls Ásgeirs, nægilega er erfitt að glíma við Erlu. Ég hef verið heldur duglegri en hún að skokka í vetur sem olli því að í dag komum við samsíða í mark. Þegar herðir á æfingum með vorinu mun hún smám saman og raunar fljótt fara á eitthvert annað plan en ég. Sjálfur stefni ég að því að fara 10 kílómetrana á sirka 55 mínútum, það er mjög verðugt markmið. Hún gæti hins vegar hæglega komist vegalengdina á undir 50 mínútum. En hún gæti líka valið þann kostinn að fara í hálft maraþon. Ég mun aldrei hlaupa hálft maraþon aftur því ég veit ég kæmist það ekki á undir tveimur tímum og slíka niðurlægingu get ég ekki kallað yfir mig. Hins vegar er freistandi fyrir mig að æfa með henni ef hún stefnir á þetta því það væri feykilega æskilegt að skokka hægt langar vegalengdir, t.d. 10-15 kílómetra.
En þetta var ekki aðalerindið. Í gær gengum við framhjá Hótel Sögu og þar var maður sem talaði óskaplega hátt í farsíma, svo glumdi um allt Hagatorgið. Erla sagði réttilega: "Svona ert þú, svona talar þú hátt." - Þetta var óþægileg en raunar margendurtekin uppgötvun. Mér varð litið á manninn: þetta var sirka sjötugur bóndi (væntanlega) í ljósbláum jakkafötum. Burtséð frá því að ég er ekki bóndi eða bændahöfðingi og mun aldrei fara á bændasamkomu þá sá ég í þessum manni sjálfan mig eftir sirka 25 ár. Og þrátt fyrir þann hvimleiða ávana að tala svo hátt að allir í 100 metra radíus heyra hvert orð sem ég læt út úr mér, ef ég geri mér ekki far um og beiti til þess viljastyrknum að halda raddstyrknum í skefjum, þá þótti mér þetta ekki ófýsileg framtíðarsýn: því maðurinn var grannur og virtist geysilega vel á sig kominn, fyrir utan það að ljóma af sjálfstrausti og ákveðni.