laugardagur, apríl 01, 2006

Ég stefni á Ölstofuna í kvöld með viðkomu hjá Benna.

Ég sé á netinu að Alice Munro verður með nýja bók í haust, The View from Castle Rock. Bækurnar hennar eru yfirleitt um 300 síður og sögurnar á bilinu 30-60 síður. Flestir sem hafa vit á eru sammála um að hún sé besti núlifandi smásagnahöfundur í heiminum og sumum finnst hún vera besti rithöfundur í heimi, ég ætla nú ekki að halda því fram þó að ég viti um engan sem mér líkar betur. Yfirleitt líða um þrjú til fjögur ár á milli bókanna hennar og því koma þessi afköst núna nokkuð á óvart, því síðasta bókin hennar kom út í fyrra og Munro er orðin 73 ára. En hvað ég er að tala um þetta við ykkur, bjánarnir ykkar, þið þekkið hana ekki og kunnið ábyggilega ekki að meta hana. Haldið bara áfram að lesa Dan Brown.

Ég var að lesa bloggið hans Gilzeneggers. Mér fannst stíllinn nokkuð lipur, slangrið skemmtilegt og húmorinn frekar viðkunnanlegur. Ég hugsaði með mér: Getur verið að ég fíli mannskrattann?
Eitthvað við þetta attitjúd, t.d. það að kæra sig kollóttan um álit annarra og síðan hitt að sökkva sér svona á bólakaf (og eflaust sumpart af fagmennsku) niður í hugðarefni sín. Svo virðist hann hafa dálæti á fólki sem er gjörólíkt honum, t.d. Davíð Þór og feita dyraverðinum og leikaranum. Auk þess ber fjölmiðlabindindið hans á þessum tímapunkti vitni um nokkuð skarpa dómgreind.

Jæja, hvað með það svo sem.

föstudagur, mars 31, 2006

Ég las fyrsta kaflann í Draumalandinu á Súfistanum í hádeginu og hló upphátt. Hann tekur þar fyrir það viðhorf að öll störf sem aðeins uppfylla gerviþarfir séu ekki í tengslum við raunveruleikann. Þegar hann er búinn að strípa burtu allan óþarfa stendur þetta eftir:

"20 feta gámur/tjald
rennandi vatn
100 kg af loðnumjöli
100 kg af hveiti
Tvær kindur
Svefnpoki
66°N kuldagalli
Þögn

Raunveruleikinn, hann er ekki stærri en þetta."

Fáránlega góður penni.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060331/FRETTIR01/60331028/1091 Annars vegar þykir mér ekki æskilegt að íþróttafélag sé að tengja sig við e-k kynlífs- eða strippiðnað.

Á hinn bóginn er enginn málflutningur eins meiðandi fyrir þessar konur og einmitt það sem hinir pólitískt rétttrúuðu hamra á. Þó að sósaíaldemókratískt kerfislið geti aldrei skilið það þá er það sem þessar stúlkur stunda alvöruvinna, kannski ekki óskastarfið en starfsemi sem nýtur töluverðrar eftisspurnar og færir þeim lífsnauðsynlegar tekjur. Stúlkurnar eru ekki jafnlánsamir og þeir sem fordæma starf þeirra, að geta haft viðurværi sitt af því sem þær hafa lært til, eða stundað það nám sem hugur þeirra stendur til; ekki gera sífellt lítið úr starfi þeirra og auðmýkja þær með því. Þeir eiga alla mína virðingu, ekkert síður en háskólamenntaðir borgarfulltrúar.

Það er partý hjá Benna um helgina. Hann er að gefa út þýðingu á öllum smásögum Tolstojs. Það er gott hjá honum og er ég búinn að festa mér eintak. Ég er alltaf til í að styrkja gott framtak. Ætli séu ekki tveir mánuðir eða meira síðan ég hef farið á krá? Við sjáumst væntanlega á Ölstofunni en slagsmálahundar eru frábeðnir.

Ég kláraði smásögu í gærkvöld en ég er ekkert spenntur fyrir henni. Þetta er take-out úr síðustu bók sem ég endurskrifaði og breytti, þurfti af einhverjum ástæðum að koma henni frá mér, en ég er ekki spenntur fyrir afrakstrinum þó að þetta sé eflaust birtingarhæft efni. Þetta er bara ekki spennandi.

Ég hef ekki litið á hina meintu skáldsögu mína í nokkrar vikur en langar mig að taka hana upp aftur (kannski er þetta bara smásaga). Þessir tveir giftu menn í öngum sínum, á nokkrum sólríkum vordögum, og kvennamál þeirra, - þetta lætur mig ekki í friði þó að verkið hafi til þessa ekki risið hátt. Er kannski kominn tími til að setja á sig boxhanskana og berja þetta í gegn?

miðvikudagur, mars 29, 2006

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1193306 Nú er vonandi loksins komið að skuldadögum hjá chileönsku þjóðinni. Gömlu morðhundarnir gátu ekki fengið verri ráðamann. Ég hefði kosið hana en seint myndi ég kjósa íslenska vinstri flokka.

þriðjudagur, mars 28, 2006

http://www.hot-maps.de/europe/germany/bavaria/munich/homede.html Hérna bjó ég í München 1985-1986. Seinni hlutann var ég búinn að kynnast Erlu og við skrifuðumst á. Ég byrjaði þokkalega, mætti í skólann og kláraði nokkur námskeið. Síðan missti ég tökin á öllu. Ég átti aldrei krónu og ef ég átti eitthvað eyddi ég því. Þetta var hálfskelfilegt en þetta var mitt líf um skeið. Á þessum tíma velti ég vöngum yfir því hvernig framtíð mín yrði. Núna er sú framtíð komin. Núna er ég sú framtíð og ég heimsæki sjálfan mig inn í fortíðina og hughreysti mig, segi: Sjáðu konuna, jakkafötin, velmegunarspikið, bækurnar - það rættist úr þessu. Og þú kannt meira að segja þýsku ennþá.

mánudagur, mars 27, 2006

Ég ætla á Zappa plays Zappa þann 9. júni. Miðasala hefst um mánaðamótin. Mágur minn fer með mér og Freyja vill líka gjarnan fara með. Ég er búinn að vara hana nokkrum sinnum við að mjög löng gítarsóló séu í uppsiglingu sem hún vill samt fara, þekkir mörg af lögum kallsins og hefur gaman af þeim.

sunnudagur, mars 26, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060326/FRETTIR02/60326026/1091
Offitu þyrfti að meðhöndla á sambærilegan hátt og alkóhólisma. Slík meðferð snerist um meðhöndlun á ofáti fremur en offitunni sjálfri. Að líta á offitu sem vandann er svipað og að líta á skorpulifur sem helsta vandamál alkóhólista. Eflaust gætu þúsund næringarfræðingar og læknar nú stigið fram og kveðið mig í kútinn. En á meðan vex offituvandamálið, alveg þar til þessi hugsunarháttur breytist.

Ég held að Sjálfstæðismenn ættu að gleðjast varlega yfir niðurstöðum skoðanakönnunar um fylgi flokka til borgarstjórnar. Það er vissulega gott að vera með meirihluta en 40% óákveðnir ætti skv. reynslunni að þýða töluverðan mínus af þessu fylgi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er samt ekki slæm staða rétt fyrir kosningabaráttuna.

Ég heyrði í dag þau rök að það væri meira lýðræði að nokkrir flokkar stjórnuðu borginni fremur en að hún kæmist aftur undir stjórn eins flokks. Vel má vera að eitthvað hafi vantað upp á lýðræðið í valdatíð DO sem borgarstjóra. Hins vegar vissu menn hvað þeir voru að gera, höfðu skýr markmið og náðu þeim. Þeir ætluðu sér að byggja ráðhús og gerðu það. Það sama gilti um Perluna. BÚR var seld og ýmsar fleiri umbætur framkvæmdar. - Það var líka kraftur í R-listanum í byrjun, sérstaklega í dagvistarmálum. En í seinni tíð óskar maður eiginlega eftir minna lýðræði og meiri stefnufestu, þ.e. ef lýðræði ef fólgið í sífelldum samkomulagsbræðingi nokkurra flokka og flokksbrota (sem hinn almenni borgari upplifir í sjálfu sér ekki sem meira lýðræði en ofurvald eins flokks). Menn sjá hryllinginn á Hringbrautinni, Hlemmi og í nýju leiðakerfi SVR. Allt dæmi um skelfilegar aðgerðir fólks sem getur ekki ákveðið í hvorn fótinn það ætlar að stíga.