TMM og Þjóðmál
Kápumyndin á nýjasta TMM er hispurslaus sjálfsmyndaröð af Gylfa heitnum Gíslasyni myndlistarmanni. Hann lítur býsna vel út á myndunum. Í heftinu er birt bréf hans til föður síns. Tvær ólíkar en fínar smásögur eru í heftinu, önnur eftir nýgræðinginn Magnús Sigurðsson, Afskriftir. Magnús verður með smásagnasafn hjá Uppheimum í haust. Hin er eftir Ragnheiði Gestsdóttur og heitir Endurfundir. Ritdómarnar í tímaritinu eru vandaðir eins og vanalega og margt fleira efni finnst mér forvitnilegt þarna en á eftir að lesa, hef þó þegar lesið skemmtilega grein sem túlkar þættina Næturvaktina út frá sálgreiningarkennindum Freuds. Mikið er af ólíkum ljóðum í heftinu eftir höfunda sem í rauninni eru orðnir þekktir innan þessa geira, t.d. Hauk Má Helgason, Ófeig Sigurðsson og Sölva Björn Sigurðsson, að ógleymdum sjálfum EÖN sem birtir býsna skemmtilegt myndljóð og spurning hvort fáfróðum manni á borð við mig gæti hætt til að flokka það undir myndlist; og svo ljóð eftir höfunda sem voru orðnir þekktir áður, Linda Vilhjálmsdóttir og Baldur Óskarsson. Svo má jafnvel halda því fram að enginn þessara höfunda sé í raun þekktur, þ.e. ef miðað er við e-n Flugstöðvar- og Smáralindarmælikvarða.
Þetta mun vera næstsíðasta hefti Silju Aðalsteinsdóttur en síðan tekur Haukur Ingvarsson við.
Þjóðmál er mjög frísklegt eins og vanalega. Óli Björn Kárason skrifar harðorða grein um Sjálfstæðisflokkinn og er ósáttur við samstarfið við Samfylkinguna og vandræðaganginn í borgarstjórn. Vilhjálmur Eyþórsson er lipur penni og mjög hægrisinnaður. Hann skrifar langa grein um það sem hann kallar flathyggju en gengur oftast undir heitinu pólitísk rétthugsun. Vilhjálmur vill meina að flathyggja sé ekki bara skoðanakúgun heldur staðreyndakúgun á borð við þá sem Galileo og fleiri máttu þola af hendi Rannsóknarréttarins á miðöldum. Flathyggjan treður sannleikann í svaðið af því hann er ekki nógu fallegur og skemmtilegur, og smíðar hálærðar kenningar sem hvíla á kolröngum forsendum.
Björn Bjarnason skrifar lofsamlega um nýja 68-bók Einars Más Jónssonar (sem þekktastur er fyrir Bréf til Maríu) en annað efni blaðsins á ég enn að mestu leyti ólesið.
Enginn verður ríkur af að gefa út blöð eins og TMM og Þjóðmál en mikið er gaman að þau skulu vera til. Og kannski er tapið á þeim ekkert meira en af glanstímaritunum (sem ekki hvarflar að mér að lasta), bara minni velta.
P.s. Ónefndur er síðan Innlit-útlitsþáttur eftir Finn Þór Vilhjálmsson í TMM, þetta er leikþáttur upp á nokkrar blaðsíður. Þessi texti er farinn að vekja töluverða athygli en ég á eftir að lesa hann. Sigurbjörg Þrastardóttir vakti athygli mína á honum rétt í þessu (á Súfistanum, Iðu).