laugardagur, október 01, 2005



Þetta er andlitið sem þeir sjá er telja mig húmorslausan. Þetta kvöld þurfti ég að tjalda í skítaroki á Þingvöllum. Þvílíkur viðbjóður! Þvílík tímasóun!

föstudagur, september 30, 2005

Gengur vel að skrifa. Þetta mun ganga upp. 300 eintök, 20 manna upplestrar, meistari stuttu skáldsögunnar eða eitthvað ...

fimmtudagur, september 29, 2005

Ný tilvitnun

Og svo sem ekkert um hana að segja nema það að þetta er ekki sami maðurinn og í síðustu tilvitnun þrátt fyrir tal um sviksemi.

Latibær er ágætt dæmi um að barnaefni er ekki gott efni fyrir fullorðna. Þeirri mýtu hefur lengi verið haldið á lofti að börn séu "hugsandi fólk" og það sé miklu erfiðara að skrifa fyrir börn en fullorðna. Þetta er auðvitað bara helvítis della. Latibær, sem er heimsklassa barnaefni og til algjörrar fyrirmyndar í þeirri deild, er fyrir vitibornar fullorðnar verur, að ég tali nú ekki um bókmenntafólk, alveg óþolandi heimskuleg þvæla. Börn eru nefnilega óttalegir vitleysingar ef það á að meta þau á mælikvarða fullorðinna, þau eru annars vegar áhugaverð sem manns eigin börn sem maður elskar að sjá vaxa úr grasi, og hins vegar sem viðfangsefni fyrir þá sem stunda kennslu og þjálfun af hugsjón. Auðvitað eru til barnabækur með bókmenntagildi, t.d. H.C. Andersen og Blái hnötturinn, en hafa börn nokkuð gaman að þeim bókum, ja nema e-r litlir ofvitar?

Hvað skyldu margir verða brjálaðir af að lesa þennan texta?

Hefur einhver séð fullorðinn einstakling endast við að hoppa á trampólíni í 5 klukkustundir samfellt?

Og talandi um sjónvarp þá fannst mér þátturinn hennar Sirrý í gærkvöld vera mannbætandi. Sérstaklega voru til fyrirmyndar hjónin sem höfðu eignast barn um síðir eftir að maðurinn lenti í hjólastól. Það held ég að hafi verið góð lexía fyrir fólk sem á í hjónabandserfiðleikum af e.t.v. lítilfjörlegum orsökum.

Svo ég haldi aðeins áfram með þessa Bachelor umræðu. Fyrirfram hefði maður talið að piparsveinninn sjálfur væri kannski 35 ára, hávaxinn og dökkhærður, í góðu starfi og múraður, en ekki einhver atvinnulaus plebbi rétt yfir tvítugt. Og stelpurnar eru einhverjar ómenntaðar landbyggðarjússur, ekki hávaxnar ljóskur - Auðvitað er svona fólk miklu viðkunnanlegra en liðið í útlendu þáttunum en high classinn verður auðvitað enginn á þættinum.

Verða þessir Bachelor-þættir ekki hálfhráir og plebbalegir með íslenskum ungplebbum og stelpurnar ekki einu sinni sætar? Mér virðist þetta ætla að verða þannig. Og kannski er það bara huggulegra og vinalegra.

Ég las upp á Café Rosenberg í gærkvöld og virtist fá góðar undirtektir. Áhorfendur voru sirka 30 en staðurinn er lítill svo það virkaði nokkuð vel. Þarna var mikið af ungu fólki sem fór upp og las ljóð eða rappaði eftir að mækinn var opnaður. Mike Pollock las mjög mikið og sumt af því fannst mér virkilega gott, sérstaklega sögur sem tengdust fortíð hans í rokkinu.

miðvikudagur, september 28, 2005

http://www.kistan.is/efni.asp?n=4012&f=8&u=36 Loksins er þessi bók komin út. Ætla að tékka á henni.

Ingvi Hrafn: "Það skal enginn segja mér að stjórnendur Baugs séu að nota Kára Jónasson." Og svo framvegis. Hrafnaþing er núna í gangi á Talstöðinni. Gagnrýnir Davíð harðlega.

Martin Amis segir í einni skáldsögu sinni að sumt fólk eigi sér ekki viðreisnar von, það sé allt í senn ljótt, fátækt og heimskt. Sumir geti ekki annað en bara öskrað eins og dýr þar sem þeir standa fyrir framan aðallestarstöðina.

Er hægt að tala svona? Óregla og þunglyndi valda t.d. oft slæmu útliti, sóðaskap og offitu (nú og fátækt) en hafa ekkert með greind að gera. Á hinn bóginn getur maður verið fallegur, strokinn, í góðum málum en fjarskalega einfaldur í kollinum.

Ég þarf að skrifa a.m.k. eina síðu í viðbót í kvöld til að halda áætlun mánaðarins því næstu kvöld eru bókuð. Það er bara heilmikið streð fyrir mig að skrifa heila síðu (400-500 orð) því ég skrifa ekki hvað sem er, vil ekki missa ekki þetta frá mér í eitthvað blóðhrátt. Klukkan er 23:03. Mér finnst ég ekki vera ljótur og heimskur en stundum óttast ég að sjóndeildarhringur minn sé ekki nógu víður. En þá er bara að skrifa nógu oft og vanda sig.

Hvað finnst ykkur um verkin hans Hugleiks? Ég hef verið að fletta bókinni alloft í búðum. Sumt er drepfyndið, annað bara barnalegt. Stundum er eins og hann kunni ekkert að teikna, stundum eins og hann sé bara virkilega flínkur en hafi tileinkað sér þennan stíl. Ég hef ekkert vit á teikningu. Sonur útgefandans segir hann vera snilling. Getur Hugleikur orðið umdeildur eða elska hann bara allir? Víst er að grófur húmor hneykslar fáa í dag.

þriðjudagur, september 27, 2005

http://www.visir.is/?PageID=351&EventID=10566&Cat=9 Hér er um upplesturinn. Byrjar ekki fyrr en 22. Ég sé fyrir mér einhverja drykkju.

Ást í meinum, krafa um hvítan jeppa, einkaspjæjari ...

"Hafi verið tilgangur með fréttaflutningnum sem hófst í Fréttablaðinu á laugardaga að sýna fram á að málið væri runnið undan rifjum forystu Sjálfstæðisflokksins hefur það líklega mistekist. Þetta nær ekki að vera Watergate. Það er vitað um illan hug Davíðs til Baugs en enn eru tengslin fjarska óljós. Það er ekki alveg nóg að fullyrða um Davíð eins og Karl Th. Birgisson í Blaðinu í dag: "Hans menn vissu hvað hann vildi.""

Segir Egill Helga.

Ég er víst að fara að lesa upp annað kvöld. Ég er ekkert rosalega upplagður fyrir það enda ekki með bók. En ég þáði samt boðið. Þetta er í Rosenberg við Lækjargötu kl. 10 annað kvöld.

Who/Michael Moore linkurinn

http://www.mtv.com/chooseorlose/voter101/news.jhtml?id=1489389 Einhver bað um þetta.

Freyja

Kjartan

Sjálfsánægjan holdi klædd

Þetta er Erla

mánudagur, september 26, 2005

Ný tilvitnun

Almáttugur! Hvað er maðurinn að skrifa?

http://www.heimur.is/?frettir=single&newsflokkur=Pistlar&fid=2372 Mér finnst þetta sjónarhorn á Baugsmálin valid.

Tvö óskyld mál

Rakst á skemmtilegan smáleðjuslag milli Michael Moore og Pete Townshend á netinu í gær. Moore vildi nota lagið frábæra Won´t Be Fooled Again í myndina Fahrenheit 911. Townshend leyfði það ekki, ekki síst þar sem hann var ekkert sérstaklega á móti Írak-stríðinu og einnig af því hann taldi lagið ekki passa við myndina - ráðlagði Moore að leita frekar í smiðju Neil Young. Moore telur hins vegar aðrar skýringar vera á höfnuninni: Hann hafi verið beðinn um að gera heimildarmynd um feril The Who en ekki haft tíma til þess. Þetta hafi Townshend sárnað mikið og svona kjósi hann að hefna sín - á þann hátt sem ekki sé samboðinn einum mesta rokktónlistarmanni sögunnar.

Feimni getur verið ófyrirsjáanleg og óskiljanleg. Síðsumars 1983 fór ég í bakarí, benti á einhver sætindi í borðinu og bað um tvö stykki. Afgreiðslustúlkan sagði: "Þetta eru Berlínarbollur." Ég sagði: "Ég er einmitt að fara til Berlínar." - Við þessar óumbeðnu en saklausu upplýsingar kafroðnaði stúlkan hins vegar og hana setti hljóða.

Ég vil vera hlutlaus í Baugsmálum og umfram allt fá að vita sannleikann ef það er nokkur möguleiki. Enn finnst mér aðilar sem ættu að vera ábyrgir vera of fljótir að draga ályktanir. Nú hefur það t.d. komið fram að áframsending Jóns Steinars á tölvupósti Sullenbergers til Styrmis var að beiðni Sullenbergers. Ennfremur er því ekki nægilega haldið á lofti að hið óvinsamlega andrúmsloft sem ríkti gagnvart Baugi árið 2002 var ekki síst frá stjórnarandstöðunni komið, þ.e. Samfylkingunni. Það var ekki fyrr en ári síðar sem bolludagssprengingin varð og Borgarnesræður ISG hófust. Þetta er partur af heildarmyndinni. Vafasöm afskipti ritstjóra MBL af þessum málum gera ekki sjálfkrafa allan Sjálfstæðisflokkinn að þátttakanda í samsæri, ekki síst þar sem afar persónuleg samskipti hans við ástkonu Íslands virðast eiga stóran þátt í þessum afskiptum.

Ég hlustaði á þátt af Talstöðinni um málið og sá þáttur er algjörlega einhliða, ekki er á nokkurn hátt leitast við að leiða saman andstæð sjónarmið heldur syngja Hallgrímarnir tveir og Kalli Birgis Watergate-kórsöng. Kannski hafa þeir rétt fyrir sér, kannski ekki. Sannanirnar liggja ekki á borðinu og ég vil að einhver óháður fjalli um þetta á hlutlausan hátt.

sunnudagur, september 25, 2005

Mig er farið að verkja nokkuð í hælana af skokkinu. Finn ekki fyrir eymslum í hnjám. Skórnir eru að verða ársgamlir og líklega þarf ég að endurnýja oft. Þyrfti að láta kaupa fyrir mig par erlendis, þetta er rándýrt.

Baugsmál eru að verða flókin langavitleysa þar sem sannleikurinn allur mun aldrei koma í ljós. Umfjöllun hverra á maður að treysta? Ekki Moggans og ekki 365. Það er helst að ég myndi treysta hlutleysi Blaðsins en ég efast um að það hafi burði til að fara ofan í saumana á málinu.