Ég las nýjustu bók Ólafs Gunnarssonar, Dimmar rósir, í síðasta mánuði. Það hefur borið frekar lítið á henni, nokkuð sem Ólafur lætur eflaust ekkert á sig fá enda hefur hann fengið margskonar viðurkenningu síðustu ár og eignast mjög stóran lesendahóp sem eflaust lætur þessa bók ekki framhjá sér fara þó að hún sé ekki mikið í umræðunni.
Dimmar rósir lýsir tveimur fjölskyldum og rúmlega það, hverra örlög fléttast saman vegna tveggja voðaverka. Sagan gerist í kringum 1970 og lýsir andrúmslofti og tíðaranda þess tíma einstaklega vel. Tónlistarbransinn kemur mikið við sögu og vænt þótti mér um að sjá The Who bregða fyrir og m.a.s. hringir Pete Townshend eitt símtal í sögunni.
Ólafur er frábær í hlutlausum og myndrænum lýsingum og persónur hans afhjúpa sig einatt með orðum sínum og athöfnum. Sögunni vindur myndrænt áfram eins og kvikmynd fyrir hugskotsjónum lesandans. Það er frekar sjaldgæft að jafnrútíneraður lesandi og ég, á mínum aldri, og þar að auki rithöfundur, verði andvaka yfir bók. Slík árátta og slíkt hrifnæmi tilheyra árunum í kringum tvítugt. Dimmar rósir varð ég hins vegar að klára því hún heldur manni stíft og því las ég hana fljótt, á lítið meira en tveimur nóttum. Bókin er þó vel yfir 400 síður.
Sagan er líkust Tröllakirkju af fyrri bókum Ólafs, ekki síst þar sem kynferðisbrot og spurningin umn blóðhefnd eru aftur orðin fyrirferðarmikið viðfangsefni rétt eins og þá. Dimmar rósir jafnast fyllilega á við Tröllakirkju en þetta eru tvær frábærar skáldsögur sem standast samanburð við það besta, jafnt erlent sem innlent.