laugardagur, september 25, 2004

Menn halda auðvitað að tal mitt um skort á viðurkenningu og þess háttar sé botnlaus sjálfsvorkunn biturs miðaldra manns. Þeir sem þekkja mig vita hins vegar að ég geisla af sjálfstrausti, lít ekki út fyrir að vera orðinn miðaldra (þó að það styttist í það) og hef heilsu feitlagins unglings. Ástæðan fyrir því að ég á erfitt með að þaga yfir skorti á stuðningi bókmenntastofnana við mig er sú að ég held að ég sé dálítið sérstakt fyrirbæri í íslenskum bókmenntum. Ekki það að ég sé svo rosalega merkilegur höfundur heldur það að oftast er hæfileikaríkum höfundum hjálpað með einhverjum hætti í íslenskum bókmenntaheimi, en ég er þar undantekning. Þetta segi ég án biturleika enda er mér smám saman að takast að brjótast í gegnum múrinn án þess að hafa nokkurn tíma fengið nokkurn stuðning. Mitt tilfelli er slys, undantekning, tilviljun. Flestir höfundar sem fá aldrei starfslaun og fá ekki gefið út hjá stórum forlögum eru nefnilega ekki góðir, flestir eru lélegir, sumir e.t.v. rétt slarkfærir. Og nú skal ég koma með ferskt og mjög áþreifanlegt dæmi um mína sérstöðu: Í smásagnasafninu Uppspuna eru 16 sögur teknar úr jafnmörgum smásagnasöfnum. Þrír ritdómar hafa birst um bókina. Í stuttum dómi í DV var ég ekkert sérstaklega tekinn út heldur var Þorsteini Guðmundssyni hampað. Gott og vel. Í ritdómi um bókina í útvarpinu hljómaði gagnrýnandinn hins vegar eins og ég héldi byssu að höfði hans: honum þótti mitt framlag það langbesta í bókinni, kallaði mig meistara smásögunnar og fleira í þeim dúr. Í ritdómi í Lesbókinni um síðustu helgi voru allar sögurnar teknar fyrir og mín fékk þar hvað besta dóma. - Jæja. Kíkjum á það sem kallað er bókfræði aftast í bókinni. Þar kemur í ljós að 15 af þessum 16 sögum eru úr bókum sem hafa verið gefnar af forlögum á borð við Edduforlögin, Bjart og JPV. Aðeins mín saga er úr bók gefin út af einhverju fyrirbæri sem heitir Ormstunga og er bara einhver einn maður í Vesturbænum, áður úti á Seltjarnarnesi. - Ég er eini höfundurinn á listanum sem aldrei nokkurn tíma hefur verið gefinn út af þessum forlögum. Ég er eini höfundurinn sem aldrei hefur fengið prófessjónal ritstjórn og stuðning hjá stórri útgáfu heldur hef orðið að læra allt sjálfur. Jafnframt er ég eini höfundurinn fyrir utan Þorstein Guðmundsson á listanum sem aldrei hefur fengið starfslaun rithöfunda (en bíðið bara, hann verður kominn á þann lista fljótlega). - Þrátt fyrir þetta er ég núna að koma út mínu fimmta smásagnasafni (hjá einhverju fyrirbæri sem heitir Skrudda), er að verða nokkuð þekktur og viðurkenndur í vissum hópum og eina ástæðan fyrir því að ég fæ að vera með í safnritum á borð við Uppspuna og gjafabók í Viku bókarinnar er sú að menn hreinlega geta ekki gengið framhjá mér þegar smásagan er annars vegar. - Þetta er ekki mælt af neinum biturleika enda vita þeir sem þekkja mig að ég er í fínum málum og fínu formi á nær öllum sviðum. Þetta er bara svona, krakkar mínir. Svona æxlaðist þetta bara og einhvern veginn finnst mér ég þrátt fyrir allt standa uppi miklu sterkari en ella.



Já, smásagnavélin mallar í haustrokinu. Ég sit við tölvuna með opið wordskjal. Skrapp út til að kaupa mér Moggann áðan, fletti Lesbókinu og einhverju fleiru, það var svo sem enginn glaðningur um sjálfan mig í blaðinu eins og síðast enda dugir sá skammtur í nokkrar vikur. Ég er kominn með Dave Brubeck í eyrun en það er álíka auðvelt að hlusta á hann eins og hverja aðra popptónlist, og er að garfa í sögu, eins og áður segir. Það vill reyndar svo til að ég er með tvær söguhugmyndir í smíðum núna, hvað sem verður um þær síðar: önnur er smásaga en hin getur eiginlega ekki verið annað en í það minnsta stutt skáldsaga. Þegar ég set saman smásagnasöfn sker ég stundum burtu of mikil líkindi milli persóna og atburða svo sögurnar verði ekki of líkar. Ég ætla að leyfa þessum tveimur sögum, ef ég endist við þær, að skella saman hvað snertir persónur og samskipti þeirra og þá er hugsanlegt að styttri sagan leggi fyrir mig grunninn að þeirri lengri með því að draga upp fyrir mig persónurnar.

föstudagur, september 24, 2004

Ansi var strákurinn þeirra flottur, fríður, stóískur og greindarlegur. Reyndar hefur hann ekki langt að sækja greindina, Richard Brautigan hefði orðað það svo að foreldrar hans væru svo skarpir að þeir gætu farið í lautarferð á rakvélablaði (Picnic on a razorblade), svo maður grípi til súrrealismans sem ég hef alltaf verið dálítið hrifinn af án þess að stunda hann nokkurn tíma eða eiga það nokkurn tíma eftir. Erla gekk lengi lengi með drenginn um gólf og þegar móðirin spurði hvort hún vildi nú ekki fara að losna við hann þá var það nú ekki aldeilis. Ég varð dálítið áhyggjufullur en Erla róaði mig og sagði að sín ákvörðun um væri orðin endanleg: hún myndi ekki eignast þriðja barnið. Sjúkkit.

Er að garfa í sögu hægt og rólega og er jafnframt eins og vanalega að lesa haug af smásögum. Stundum finnst mér eins og ég sé vél sem mallar hægt og örugglega án þess að hiksta, vél sem gengur fyrir lesnum smásögum og framleiðir frumsamdar smásögur, 3-5 á ári, hægt og örugglega.

fimmtudagur, september 23, 2004

Var rétt nýbúinn að klára færsluna hér að neðan þegar ég skrapp niður í eldhús í vinnunni og sá þar þennan líka fína tveggja mánaða gamla strák, brosmildan og mannalegan. Og fékk núna fiðringinn sjálfur. Eins gott að Erla sjái þennan ekki.

Vinur minn (þori ekki að nafngreina hann, þeir eru svo spéhræddir sumir þessara vina minna) er heima í dálitlu fríi frá friðargæsluverkefni sínu á Sri Lanka. Um áramótin klárar hann þetta verkefni og við tekur þriggja mánaða fæðingarorlof. Hann og frúin eignuðust semsagt fremur óvænt þriðja barnið, lítinn strák; þau áttu fyrir tvær stelpur. Ég, Erla og krakkarnir heimsækjum fjölskylduna á eftir. Þegar börn á annað borð koma í heiminn eru allir auðvitað óskaplega glaðir en ekki get ég samt sagt að ég öfundi þennan vin minn þó að hann sé hæstánægður. Ég er nefnilega afar sáttur við að eiga bara tvo stóra krakka, strák og stelpu, og þurfa ekki framar að skipta á bleyjum eða vakna á nóttunni, nema til að segja sjálfum mér að ég megi ekki fá mér að éta fyrr en um morguninn, og sofna aftur. Þetta togar hins vegar dálítið í Erlu, tilhugsunin um þriðja barnið, og ekki batnar það eftir heimsóknina í dag. Ég vona satt að segja að strákurinn grenji og öskri allan tímann, svo freistingin verði minni fyrir Erlu, en það er þó heldur ólíklegt. Mér finnst ungbarnauppeldi vera svona "thirtysomething" dæmi en fimmtugsaldurinn er fyrir öðruvísi uppeldi og unglingavandamál. Erla er hins vegar ekki nægilega viss í sinni sök til að pressa alvarlega á mig, en ef hún bæði mig í einlægni myndi ég auðvitað samþykkja þetta. Annars þarf ég bara að bíða þar til hún er orðin fertug, þ.e. í sirka 8 mánuði, og þá leggur hún ekki framar í þetta.

miðvikudagur, september 22, 2004

Ég hef haldið áfram að slá "The New Yorker: Fiction" inn á leitarvélina google.com og komast þannig yfir splunkunýjar smásögur. Hefur það gengið vel. Áhugasömum vil ég benda á að í mörgum ef ekki flestum tilvikum er þarna um að ræða toppefni, miklu betra en það sem boðið er á sérstökum smásagnavefjum. Í gær rakst ég síðan í leiðinni á athyglisverðar deilur um þessar sögubirtingar The New Yorker. Lítt þekktur höfundur kvartar þar yfir birtingu tímaritsins á nýrri sögu eftir Anne Beattie. Höfundurinn birtir þessi skrif sín á bloggsíðu sinni og þar tætir hann sögu Beattie í sig, álítur hana flatneskjulega og klisjukennda. Hann bætir jafnframt við að að erfitt sé að birta svona gagnrýni þar sem flestir telji hann þá bara vera bitran óbirtan höfund. Hann biður þá bara lesendur um að sannreyna gagnrýni sína með því að lesa söguna. Hann hefur orð á því að vissulega sé mjög erfitt að fá birtar smásögur í tímaritum á borð við The New Yorker og þess vegna sé blóðugt að sjá tímaritið eyða jafnmiklu plássi í jafnmáttlausa ritsmíð og sögu Beattie. Grein þessa manns kallar síðan á vangaveltur annars bloggara um hvort bandaríska smásagan sé á niðurleið. Það hljómar eins og vangaveltur um hvort loftið sé ekki lengur hreint á Íslandi enda hafa Bandaríkjamenn lengi talið sig réttilega langbestu smásagnahöfunda í heimi.

Það skemmtilega við þetta er að Anne Beattie sendi á sínum tíma 100 sögur til The New Yorker áður en hún fékk fyrstu söguna birta. Ef bloggarinn hefur rétt fyrir sér eru það kaldhæðnisleg örlög Beattie að vera orðinn staðnaður höfundur sem fær birt í þessu virta tímariti út á nafnið og forna frægð.

Þess má geta að Alice Munro birtir að jafnaði 3 smásögur á ári í The New Yorker. Ég býst við því að hún sé besti smásagnahöfundur í heimi síðan Raymond Carver dó.

þriðjudagur, september 21, 2004

Í ljósi þess hvað raunverulegir kynferðisglæpir eru skelfilegir og svívirðilegir þykir mér blóðugt að sjá menn tekna af lífi í fjölmiðlum fyrir minni sakir. Það er ekki smekklegt af ungum kennara að senda unglingsstelpum dónaleg sms-skilaboð en verðskuldar ekki fjölmiðlaaftöku og mannorðsmissi. Heimskulegt og ósmekklegt, kannski gert í fylleríi; eitthvað sem ber að stöðva ... á sama tíma og menn missa mannorðið fyrir þetta og fyrir að hössla graða táninga á netinu eða einfaldlega að vera ásakaðir um áreitni, stundum saklausir; þá eru raunverulegir barnaníðingar að eyðileggja líf barna sinna og stjúpbarna víðs vegar um landið, og komast upp með það. Hættum að hengja bakara fyrir smið.

mánudagur, september 20, 2004

Sumar bækur endast betur en aðrar og öfugt. Árið 1998 kom út smásagnasafnið Sérðu það sem ég sé eftir Þórarinn Eldjárn. Þegar ég las bókina á sínum tíma fannst mér sumar sögurnar góðar, aðrar sæmilegar og enn aðrar slakar. Núna er ég að lesa bókina í annað sinn og finnst sumar sögurnar frábærar, aðrar góðar og enn aðrar sæmilegar. - Á Borgarbókasafninu er nú dálítil smásagnakynning í einum rekkanum rétt hjá innganginum. Þar er fjöldi af íslenskum smásagnasöfnum frá ýmsum tímum, ólíkum af gerð og gæðum. Tvö eintök af Sumrinu 1970 eftir Sjálfhælinn hafa ratað beint í útlán úr rekkanum og nú er þriðja eintakið komið upp. Það eru reyndar samtals þrjú eintök af bókinni af aðalsafninu í útláni. Auk þess er Í síðasta sinn, eftir sama höfund, í þessum smásagnarekka auk eins og áður sagði, fjölda bóka eftir ýmsa aðra höfunda.

Skrudda er búin að taka heimasíðuna sína í gegn. Þið ættuð að tékka á henni: www.skrudda.is Það vantar kápumynd af bókinni minni enda ekki búið að ganga frá kápunni. Sú mynd ætti að birtast fljótlega eftir mánaðamótin. Fljótlega læt ég á gera link inn á bloggsíðuna mína.

sunnudagur, september 19, 2004

Margir frægir rithöfundar hafa sagt að það verði ekkert auðveldara að skrifa með árunum. Það er að sumu leyti rétt og sumu leyti ekki. Þetta er vissulega alltaf sama puðið og það er ekki hægt að stytta sér leið framhjá því. Hins vegar veit maður af reynslunni hvar maður stendur. Tökum sem dæmi þetta kvöld: Ég er með tvær söguhugmyndir í gangi og eitthvað af texta komið á blað. Ég svaf næstum því til hádegis í dag og því kjörið að skrifa í kvöld og fram á nótt. - Þrátt fyrir þetta hef ég ekki skrifað staf í kvöld. Ég hef haft bæði söguskjölin opin og vafrað á netinu, en ég hef ekkert skrifað. Og ég veit af reynslunni að ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því, hvað þá móral. Með þessum hætti hef ég nefnilega skrifað heilu bækurnar. Sögurnar finna sér farveg í fyllingu tímans, stundum gengur greiðlega, stundum hangir maður, hlustar á músík og lætur söguhugmyndina gerjast í kollinum. Þannig er það bara.