Við Erla kusum ekki sama flokkinn í dag en við kusum væntanlega nýjan meirihluta.
Ég er að reyna að ná takti við skriftir eftir ferðina en engin aðlögun var í boði í vinnunni í gær því þar er allt vitlaust að gera. Prófarkalestur, útvarpsauglýsingar og TV-voice over hafa verið helstu verkefnin.
München var ennþá fallegri og skemmtilegri en mig minnti enda nýtur maður sín líklega betur þar á góðu hótelherbergi en í þeim vistarverum sem ég lét mér duga á sínum tíma. Auk þess er skemmtilegra að vera ekki búinn að drekka frá sér peningana sína og þurfa ekki fara með lestunum án þess að borga. München er mjög falleg og vinaleg, fólkið er afslappað og ánægt með sig á jákvæðan hátt. Það endurspeglast í hlýlegu viðmóti og góðri þjónustu. Ég held að Bæjarar séu almennt í senn meiri þjóðernissinnar (þá er ég ekki að tala um rasisma eins og tröllríður Licthenberg-hverfinu í Berlín) og bjartsýnni en margir aðrir Þjóðverjar. Þetta er landbúnaðarhérað sem kemur fram í því að miðað við stærð þykir München dálítið sveitaleg.
Enski garðurinn var nánast óbreyttur frá því ég sá hann síðast og gaman sjá að hann er að mestu látinn í friði fyrir skipulagi og sölumennsku. Merkilegt að þetta flæmi fái að vera í friði fyrir gróðursetningu, auglýsingaskiltum og endalausum leiktækjum - það er einhvern veginn eins og Mið-Evrópu sé meira gamaladags og ekki eins gegnsýrð kapitalisma og t.d. Bandaríkin og Ísland.
Skemmtilegustu hverfin eru miðbærinn þar sem Marienplatz er miðpunkturinn, háskólahverfið þar sem m.a. eru Ludwigsstrasse, Shellingstrasse og Türkenstrasse, hverfið í kringum aðallestarstöðina (hæfilega vafasamt en þó merkilega hreinlegt) og svo þykir mér auðvitað vænt um gamla hverfið mitt, Sendling, sem stendur rétt fyrir utan miðbæjarsvæðið.
Ég mæli með borgarferð til München að vori eða sumri, t.d. langa helgarferð fyrir hjón. Hún gefur öðrum vinsælum borgum ekkert eftir, s.s. Kaupmannahöfn, Prag eða London. Ég ætla ekki að nefna New York, það er dálítið ankannalegt að nefna New York og München í sömu andránni.
Ég held að Frjálslyndir nái tveimur mönnum í nótt og Sjálfstæðisflokkurinn verði með 7. Samfylking fær 4, Vinstri-græn 2 og Framsókn engan.