Það er kveikja að kreppusmásögu í örfáum bloggfærslum hér frá því í sumar. Gagnrýnandi einn varaði mig við því að blogga vegna þess að hætta væri á því að ég sjálfur (þ.e. úr bloggfærslunum) færi að birtast í skáldverkunum. Það var í rauninni rétt hjá honum. Það var til dæmis ekki heppilegt að ég skyldi skrifa bloggfærslur um sjálfan mig að hengja upp þvott á árunum 2005-2006 og síðan láta persónu nokkuð ólíka mér hengja upp þvott í skáldsögunni Hliðarspor sem kom út 2007 og hugsa margt það sama og ég hef hugsað í þvottahúsinu (það vantaði bara Who í eyrun á honum)
Engu að síður gæti næsta smásaga átt sér upptök í bloggfærslum og verður svo að vera. Raunar hef ég verið að vinna að syrpu 3-4 langra smásagna undanfarið, verk sem ég hélt að væri skáldsaga og má alveg verða það ef pakkinn vill svo, en verður líklega smásögur. Ef þetta er smásagnasafn er pláss fyrir aðrar og óskyldari sögur í pakkanum.
- - - -
Það vorur ansi athyglisverðir punktar í viðtali Egils Helgasonar við Benedikt Jóhannesson í síðasta Silfri. Þetta með að afsala sér hluta af frelsi sínu. Er það endilega svo slæmt? Er það ekki sambærilegt og að ganga í hjónaband? Maður afsalar sér frelsi og fær eitthvað ómetanlegt í staðinn. Og hversu vel hefur Íslendingum vegnað við að stjórna sér sjálfir, til dæmis auðlindum sínum? Hvað mælir gegn því að við afsölum okkur jafnmiklum parti af okkar fullveldi og nágrannaþjóðir okkar gera?
Mér virðist Styrmir fyrrv. Moggaritstjóri ætla að vera einn af þeim sem leiða afturhaldsöfl í Sjálfstæðisflokknum til sameiningar um einangrun og áframhaldandin notkun á ónýtum gjaldmiðli. Það táknar annað hvort sérframboð eða Sjálfstæðisflokkurinn verður í mesta lagi 20 prósent. Og ég verð þá líklega ekki í flokknum.