föstudagur, janúar 26, 2007


Það sem vantar upp á að Íslendingar geti orðið heimsmeistarar í handbolta er meiri breidd. Nú sígur á seinni hluta mótsins og lykilmenn orðnir þreyttir og meiddir. Það gerist t.d. ekkert í sóknarleiknum nema Óli Stef sé inná. Ef opnast fyrir færi í horninu er það út af sendingu frá Óla. Ef boltinn ratar inn á línuna er það frá Óla. Ef hraðaupphlaup heppnast kemur sendingin frá Óla. Síðan skorar hann 4-8 mörk í leik. Ég vona að við kreistum út sigur á Slóvenum á morgun en ég býst við tapi gegn Þjóðverjum á sunnudag. Svo er spurning hvað gerist í 8-liða úrslitum. Það er dálítið leiðinlegt að enda aftast þar en allt frá og með 6. sætinu væri frábært.

Starfslaunin

Það er ánægjulegt að sjá Bjarna Bjarnason á listanum. Hins vegar þykir mér afar ómaklegt að EÖN hafi ekki fengið starfslaun og tel hann mun verðugri þeirra en Þórdís Björnsdóttir með fullri virðingu fyrir henni. Í rauninni er þetta nánast sláandi ef afköst þessara höfunda eru borin saman. Þetta er nú bara sagt í nafni réttlætisins því ég er ekki einn af nokkur þúsund vinum EÖN í blogg- og bókmenntaheimum heldur er það fremur að við séum að lenda í einhverju karpi ef við á annað borð eigum einhver samskipti. Ég verð líka að segja eins og er að EÖN á mun frekar skilið sex mánuði en Margrét Lóa og má þá eflaust nefna fleiri til sögunnar, t.d. Birgittu Jónsdóttur. - Ég segi þetta bæði með afköst og gæði í huga.

Að öðru leyti finnst mér nokkuð vel að verki staðið þarna.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item142053/ Þurfa ekki einhverjir að segja af sér núna?

Las í Lífsloganum eftir Björn Þorláksson í hádeginu. Þetta virðist vera frekar skemmtileg saga.
Ég keypti síðan Argóarflísina á útsölu, tæpar þúsund krónur.

Í Leikbæ keypti ég riddarasverð og Ninjasverð handa Kjartani.

Ég veit ekki hvað ég á að gera við sjálfan mig. Ég sofna snemma á kvöldin og vakna snemma á morgnana. Það er undarleg tilfinning að vera ekki með verk í smíðum. Auðvitað er þetta tækifæri, að hafa nú frjálst val um hvað ég skrifa. En ég veit ekki hvenær ég á að byrja.

miðvikudagur, janúar 24, 2007


Ljósmyndir segja ekki neitt - nema að það er drasl á borðinu og jakkinn er dökkblár.

Botnar einhver í ritdeilu Guttesens og EÖN? Sagði EÖN að öll íslensk ljóðlist væri léleg eða sagði hann það ekki? Sagði Guttesen að hann hefði sagt það eða sagði hann það ekki? Sagði EÖN að Guttesen hefði sagt ranglega að EÖN hefði sagt þetta um íslenska ljóðlist eða sagði hann það ekki? Sagði Guttesen að EÖN hefði sagt að hann (Guttesen) hefði sagt að EÖN hefði sagt þetta um íslenska ljóðlist? Eða er Guttesen að kreista út virðingu EÖN sem hann virðist ekki eiga en telur sig verðskulda?

Hverjir fengu starfslaun? Ég sótti ekki um. Ég er svo sjálfstæður og með botnlaust vinnuþrek.
Er einhver með link á úthlutunina? Fengu einhverjar fyllibyttur sem eru hættar að skrifa? Var snobbað? Eru menn úti í kuldanum fyrir að rífa kjaft? Eða er fólk bara að reyna að gera sitt besta með takmarkað fjármagn?

Hvers vegna eru bankarnir ekki fengnir til að sponsora stækkun á launasjóðnum? Þeir dæla peningum út og suður.

Ég var á Hressó í hádeginu að pikka inn leiðréttingar á handritinu. Þar var nokkuð skáldvænt, bæði Birgitta Jónsdóttir og Tryggvi Líndal.

Ég held að þetta sé alveg rétt hjá henni Tinnu, www.kirasu.blogspot.com


"mín skoðun á þessu er eftirfarandi: vitanlega er þetta rangt allt saman og hið alvarlegasta mál, svona á ekki að eiga sér stað en þannig er því nú því miður háttað með svo óskaplega margt í veröldinni, ógeðis-hlutir eiga sér stað undir nefinu á okkur á hverjum degi. en ég skal hundur heita ef það á að kenna þessum guðmundi um allt fjandans ruglið... fyrir það fyrsta vita allar konur og menn að enginn brundur hefur lækningamátt og enn síður þegar honum er kyngt og það skal enginn segja mér að fólk sé virkilega orðið það illa haldið en hefur samt vit á að fara í meðferð að það láti ljúga að sér svona vitleysisgangi... sé platað í einhverjar BDSM orgíur og segi bara já og amen af því að það á svo agalega bágt og sé svo voðalega skemmt af eiturlyfjaneyslu að það viti ekki muninn á réttu og röngu þegar kemur að neðanbeltismálum.... "

Þegar ég var unglingur keypti mamma matvöruverslun og sjoppu og rak þetta árum saman, eflaust ekki mjög vel, enda stal ég þarna og át sjálfur eins og stjórnlaust dýr, en engu að síður segir þetta nokkuð um breytta tíma: Hver sem var gat rekið matvöruverslun. - Fyrir stuttu dó Vídeóljónið á Dunhaga en fyrir minna en tíu árum var þetta blómlegt og vinsælt fyrirtæki. Núna er komin 10-11 búð hjá Stúdentagörðunum og síðan er önnur slík á Hjarðarhaga sem er opin allan sólarhringinn. Eina smáfyrirtækið í hverfinu er Melabúðin en hún er mjög unique. Almennt hefur gömlu góðu sjoppunum fækkað gífurlega í bænum og flestar bera þær merki Bónusvídeós. Vilji maður kaupa dýra matvöru eða fá sér tóbak eða sælgæti seint á kvöldin þá er 10-11 kosturinn. Ódýrasti maturinn er í Bónus en þar eru ávextirnir oft skemmdir. Í Hagkaup er hins vegar dýrlegt úrval af alls kyns ávöxtum og grænmeti í fyrsta klassa, en verðlagið mjög hátt. Þannig er allt til staðar í göngufæri, dýrt-ódýr, mikið úrval-lítið úrval, opið allan sólarhringinn-opið á daginn; en það er allt meira og minna á sömu hendinni. Á bak við nánast allt standa örfá lógó og ennþá færri eigendur.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Það hafa aukist líkur á að sagan hafi heppnast eftir yfirlestur gærkvöldsins. Erla hefur aldrei hrósað mér mikið fyrir verk mín hingað til en hún las þriðjunginn af handritinu og hló mikið. Hún sagði þetta mun léttari og skemmtilegri lesningu en smásögurnar. Þar með hafa commercial möguleikar aukist eitthvað líka.




Já og til hamingju, strákar.

mánudagur, janúar 22, 2007

Og ef ég væri ríkur myndi ég auðvitað fá The Who til að spila í afmælinu mínu. En kannski hef ég efni á cover-bandi þegar ég verð fimmtugur.

Það reyndi enginn við mig í Heidelberg en ef það hefði gerst hefði ég örugglega tekið allt upp á myndband og síðan kært viðkomandi fyrir kynferðisbrot. Og þetta væruð þið að skoða núna, skyrtulaus aukakílóin og allt.

Ég var lentur á undan áætlun um klukkan 16 og náði því mestöllum leiknum við Úkraínu. Hann var auðvitað mikil vonbrigði en íþróttaheimurinn er grimmur, einn slæmur dagur getur breytt draumi í martröð. Af því tilefni er við hæfi að minna á þetta ágæta framtak hér og hvet ég fólk til að skoða vefinn og skrá sig http://www.ibliduogstridu.is/

Ég er í dálitlu limbói út af sögunni og þori lítið að segja fyrr en yfirlesararnir mínir hafa gefið álit. Er búinn að prenta út þrjú eintök. Það er erfitt að leggja dóm á verk eftir sjálfan sig sem maður man næstum því orðrétt.

sunnudagur, janúar 21, 2007

Dagbók frá ferðinni

11. – 12. janúar

Kom vansvefta til Frankfurt í gær og tók lestina þaðan til Heidelberg. Ferðin gekk snurðulaust en ég var þreyttur enda hafði ég þurft að vakna kl. 4 um nóttina. Ég sofnaði klukkan 8 á hótelherberginu og svaf með hléum til klukkan 9 í morgun, samanlagt áreiðanlega yfir 10 klukkustundir.

Þó að hótelið heiti Hotel Central og sé rétthjá aðallestarstöðinni þá er hinn eiginlegi miðbær með miðaldabyggingum upp í skógivaxnar hlíðar og frægum kastala í töluverðri fjarlægð og hef ég ekki enn komið í verk að fara þangað. Þetta er undarlegt því ég minnist þess að hafa gengið upp í þessar hlíðar árið 2001 þegar ég var hér einn eftirmiðdag, líklega hefur það verið mjög langur göngutúr. Svæðið hér í kring er ekkert allt of líflegt en bílaumferð gríðarleg. Þó er eitthvað af góðum kaffihúsum. Mér hefur gefist betur að skrifa á kaffihúsum og í hótellobbíinu í dag en á herberginu því þegar ég reyndi að setjast þar til verks í eftirmiðdaginn hvolfdist þreytan yfir mig þrátt fyrir nætursvefninn langa. Það lítur hins vegar vel út með kvöldið og ég er með vænan skammt í vasabókinni sem þarf að slá inn á fartölvuna og betrumbæta í leiðinni. Ég geri mér vonir um að klára handritið til enda um helgina og geta síðan byrjað að endurskrifa það í næstu viku.

Eins og vanalega í Þýskalandi er fólkið kurteist og þurrt á manninn. Örfáar athugasemdir eða stutt samtöl lífga hins vegar upp á andann í einverunni. Í kvöld mun ég líklega skrifa töluvert mikið og í fyrramálið bregð ég mér í miðbæinn. Kaupi kannski föt, vonandi eitthvað fallegt handa Erlu. Ég nenni samt ekki í kastalann strax, ætla að vera búinn að skrifa miklu meira þegar ég læt það eftir mér.

Ég er að lesa smásögur eftir Tékkann Ivan Klíma, bók sem ég keypti í Máli og menningu og heitir Lovers for a Day. Hún er mjög góð. Einnig keypti ég þýska verðlaunaskáldsögu á flugvellinum í Frankfurt, eftir konu að nafni Katharina Hacker, Die Habenichtse. Hún er flókin og dálítið erfið aflestrar. Ég kíki í blöð og tímarit og skil mismikið, helst að ég staldri við stuttar glæpafréttir en ég á yfirleitt erfitt með að fá botn í þýsku pólitíkina, a.m.k. ef ég les um hana á þýsku. Þeir eru líka eitthvað að skrifa um HM í handbolta sem hefst hér eftir nokkra daga en fjalla bara um þýska landsliðið sem er hrjáð af meiðslum.

Veðrið er gott, hitinn um 10 stig en dálítil gola.

Þetta lítur annars vel út og byrjunin lofar góðu.


13. janúar

Gamli miðbærinn í Heidelberg er áreiðanlega fallegasta borgarsvæði sem ég hef séð í Þýskalandi og jafnast á við staði eins og Prag eða París. Verslunargatan Hauptstrasse liggur í gegnum allt svæðið en fallegar, þröngar hliðargötur liggja út frá henni. Hellulögð stræti, gullfalleg steinhús í miðaldastíl, fljótið Neckar rennur í gegnum bæinn og byggðin nær upp í skógivaxnar fjallshlíðar þar sem kastalinn eða höllin, Heilderberger Schloss, gnæfir yfir. Glæpasagnahöfundur sæti örugglega þar við skriftir en grámuggulegur raunsæishöfundur eins og ég heldur til í grennd við aðallestarstöðina, í um 10 mínútna göngufæri frá þessu heillandi svæði. Auk verslana er mikið af flottum kaffihúsum þarna.
Ég keypti mér dökkblá flauelsjakkaföt í C&A. Það þarf einfeldning eins og mig til að viðurkenna á góðæristímum að hann hafi keypt sér föt í C&A en verðið er svo fáránlega lágt þarna að ég varð að taka eitthvað með mér úr búðinni. Ég keypt síðan eitthvað á Erlu í lítilli tískubúð í nágrenninu.

Mér gekk vel að skrifa í gærkvöld og í dag og er á áætlun.

Hitinn síðdegis í dag var 14-15 stig.


14. janúar

Svipaður labbitúr í dag og miklar skriftir. Það er sunnudagur og búðir eru lokaðar. Það er eini munurinn sem ég skynja á sunnudegi og öðrum dögum hér. Maður missir tímaskynið.

12 stiga hiti og sól.

Þetta er auðvitað einmanalegt líf, maður finnur það strax eftir örfáa daga og óneitanlega hugsa ég um allt sem gaman væri að gera hérna með Erlu og jafnvel krökkunum líka. Litlu skiptir þó að fólkið hér verði sífellt vingjarnlegra, þetta fólk kemur mér ekki við. Það eina sem gildir eru árangursríkar skriftir og allt stefnir í það.

Aðeins rúmlega 12 prósent Þjóðverja vita að HM í handbolta verður haldin í Þýskalandi. Handbolti er fyrir Íslendinga og fólk í Gummersbach.


15. janúar

Þetta stefnir í árangursríku Þýskalandsferðina til þessa. Aðstæðurnar eru ekki ástæðan, þær eru alltaf hinar sömu. Það sem ræður mestu er staðan á verkinu þegar ég kom hingað.

Annars dragnast ég um haltur því ég kom hingað í of nýjum skóm og er með blóðug sár fyrir ofan hælana á báðum fótum.

Ég er þreyttur og einmana en segi við sjálfan mig: Var það ekki þetta sem þig dreymdi um? Rithöfundur á erlendri grundu að klára skáldsöguna sína og með öruggan útgefanda í þokkabót.

Mylsna frá Heidelberg

...og það reyndist vera J.R. sem skyndilega stóð gleiðbrosandi í dyrunum með hvítan kúrekahatt á höfðinu. Hún skellti hurðinni í fésið á honum en vaknaði við skellinn því hann var raunverulegur: hún hafði fleygt bókinni hans Árna í gólfið. Hafði vaknað um miðja nótt, náð í bókina og farið að lesa hana rétt eina ferðina en sofnað með hana í höndunum. Loftljósið logaði ennþá og lýsti upp rökkrið sem þykk gluggatjöldin kölluðu fram því fyrir morguninn fyrir utan var albjartur. Hún ýtti bókinni undir rúmið. Þar var líka bleikur penni og usb-minnislykill, hún hafði séð það þegar hún leit undir rúmið í gærkvöld og líka að það var aftur komið mikið ryk þó að hún hefði þrifið fyrir stuttu. Á minnislyklinum var m.a. uppkast að ritgerð sem hún hafði skilað í byrjun mánaðarins. Svona safnaði líf manns allt ryki um leið og stundin var liðin hjá.

Ég virðist hafa verið kominn miklu nær því að klára bókina en ég hélt. Ég frumskrifaði síðasta hlutann hér úti, en hann er aðeins rúmlega 5000 orð, og gekk það mjög vel; heilmikið kikk. Síðan byrjaði ég að endurskrifa í dag. Fyrsti hlutinn er miklu nær því að vera fullkláraður en ég hélt, það liggur við að mér hundleiðist að endurskrifa hann, meira og minna pússaður texti. – Við sjáum á morgunn hvernig miðhlutinn hefur gengið.


16. janúar

Það er Netcafé á lestarstöðinni og hef ég farið þangað nær daglega. Helstu fréttir dagsins eru þær að í Byrginu virðist hafa verið rekin hálfgerð glæpastarfsemi árum saman og tugum milljóna stolið. Töluverðar umræður um væntanlega “viðreisn”, mér líst ágætlega á það stjórnarmynstur. Bloggúrvalið heima hefur aukist mikið síðustu misserin. Hérna í Þýskalandi hef ég alltaf tékkað á sömu síðunum: Egill Helga, Guðmundur Magnússon, EÖN, Steingrímur Sævarr, Pétur Gunnarsson, Páll Vilhjálmsson. Síðan smá Björn Bjarna, Andríki, Rassabora (hún er nú bara gamall ávani). Ég er ekkert viss um að ég læsi sjálfan mig ef ég væri einhver annar maður í útlöndum.

Kláraði að endurskrifa fyrsta hlutann í gær og var það frekar auðvelt. Annar hluti er lengri og ég tek mér a.m.k. tvo daga í hann. Þriðji hlutinn er stystur og eins og fyrr sagði þá samdi ég hann að mestu leyti hér. Líklega kemst ég í hann áður en ég fer heim. Ef allt gengur upp tekur við dálítið hlé frá skriftum þegar heim kemur og handritið fer í hendur lesara. Vel má vera að ég láti Skruddumenn bara fá það strax til að heyra þeirra álit. Ef þetta er ekki nógu gott þá er a.m.k. nægur tími til að lagfæra. En ef þetta er búið, ja því þá ekki að taka bara langt skriftarhlé og verða skemmtilegri eiginmaður? Það væri hægt að gera ýmislegt við tímann sem fer í skriftir. Ætli ég byrji síðan ekki bara að skrifa smásögur í sumar.

Það hefur aðeins kólnað hérna, hitinn var um 7 stig í dag.


17. janúar

Mér líður óskaplega vel í Heidelberg í dag, allur einmanaleiki og drungi horfinn úr mér. Fyrir þessu kunna að vera nokkrar ástæður: Mér gekk fantavel að skrifa í morgun, Erla hefur verið dugleg að hringja, veðrið er dálítið Reykjavíkurlegt núna, súld og 10 stiga hiti; ég er farinn að venjast borginni, skórnir meiða mig ekki eins mikið.

Ég mæli með Café Rossi við Bismarck Platz. Á eftir er hægt að ganga upp Hauptstrasse inn í gamla miðbæinn, skoða sig um eða versla. Eða gera þetta í öfugri röð. Eitt af því góða við Þýskaland er hvað veitingastaðirnir eru hreinir og þjónustan góð. Enginn þarf að kvíða því að fara á klósettið hérna.

Gott gengi við handritið opnar ýmsa möguleika því ég næ markmiðum mínum auðveldlega áður en ég fer heim. Á ég að skreppa til Mannheim eða Karlsruhe? Annars er Mannheim óttalega þunglyndislegur staður (en samt vinalegur) og Erla spyr mig hvað í ósköpunum ég hafi að gera þangað. En mig langar ekkert upp í þessa höll hérna í hlíðinni. Ég myndi fara með Erlu. En núna er ég enginn túristi. Annars verður HM í handbolta m.a. spiluð í Mannheim og það er meira skrifað um mótið í héraðsblaðinu Rhein-Neckar Zeitung en stórblöðunum. Spila Íslendingar annars ekki í Austur-Þýskalandi?


18. janúar

Óveður hefur gengið yfir Þýskaland í dag en hér er bara smáblástur, svona dæmigert Reykjavíkurveður nema eitthvað hlýrra.
Ég keypti eitthvað af fötum í dag.

Það þarf að laga lokahlutann af sögunni dálítið mikið. Hef ekki unnið mikið í dag.



19. janúar

Lítið varð ég var við óveðrið í gær en bæði flugsamgöngur og lestarsamgöngur lágu meira og minna niðri, tré rifnuðu upp með rótum og einhver dauðsföll urðu.

Klukkan er að nálgast 14 að staðartíma og ég er búinn að endurskrifa lokahlutann. Núna líst mér aftur vel á þetta allt saman.

Er á bar nálægt lestarstöðinni. Það eru 57% eftir af tölvubatteríinu. Í sjónvarpinu er verið að sýna Heiner Brand, þjálfara Þjóðverja, í eldgömlum landsleik, líklega frá 8. áratugnum. Hann er með samskonar yfirskegg og núna.

Ég er í nýrri peysu og mér er of heitt í henni.

Er bókinni lokið núna? Ég veit það ekki. Henni er a.m.k. lokið í bili.

Forvinna að henni hófst í Mannheim í janúar 2005. Það voru mjög mislukkuð skrif.

Formlega vinna við hana hófst á Eyrarbakka í apríl 2005 hélt áfram í Reykjavík út árið, einnig á Krít um sumarið, tók stökk í Darmstadt í janúar 2006. Síðan var öllu fleygt og byrjað upp á nýtt á Vopnafirði í apríl 2006. Núna virðist þessu öllu lokið í Heidelberg í janúar 2007. Auðvitað hef ég á þessu tímabili varið langmestum tíma í Reykjavík en ég gæti samt trúað því að samanlagt hafi stór hluti af sögunni, jafnvel allt að helmingur, verið unninn í þessum fríum utan Reykjavíkur. Heimar er maður að baksa saman hálfri til einni og hálfri síðu þegar vel gengur, ekki neinu þegar illa gengur, en hér eru þetta margar blaðsíður á dag.

Ég næ fyrsta tapleik Íslendinga á HM, gegn Frökkum á mánudagskvöldið. Þá verða okkar
menn búnir að vinna bæði Ástrala og Úkraínu.


20. janúar

Helsta fréttaefnið hér hefur verið óveðrið. Vonandi kemur ekki annar stormur í fyrramálið og gerir mig að strandaglópi.

Þjóðverjar spiluðu illa gegn Brasilíu í opnunarleik HM í handbolta. Ég held að þeir séu frekar slappir núna og Ísland gæti vel unnið þá í milliriðli.

Heima mun meiri þungi komast í umræðuna á næstunni þegar nær dregur kosningum. Eins og margir tippa ég á stjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili. Vonandi fer fylgið að reitast af Frjálslyndum og lendir þar sem það á heima, hjá Sjálfstæðisflokknum.

Ég sé fram á að hætta að skrifa um stundarsakir á meðan handritið er í lestri og salti. Ég veit ekki ennþá hvort þetta er góð saga, veit bara að ég geri ekkert í þessu á næstunni. Ætla að reyna að verða mínum nánustu að gagni í þeim aukna frítíma hrekkur til við þetta.

Myndi helst vilja fara að stunda meiri og fjölbreyttari íþróttaiðkun með Erlu. Sjáum hvað leggst til.

Ég hlakka ekki beint til kuldans heima. Hérna komst hitinn upp í 16 stig í gær.