miðvikudagur, september 10, 2008

Samtal við tvo í vinnunni

Hvað ertu eiginlega búinn að fara oft til Þýskalands á árinu?
Þetta verður þriðja skiptið.
En fóruð þið ekki líka með mömmu þinni þarna?
Já, en það var eiginlega í fyrra.
Og hvað ferðu þá oft til Þýskalands á ári?
Svona sirka þrisvar.
Þú ert klikkaður.

þriðjudagur, september 09, 2008

Umræðuefni - hugðarefni

Á næsta borði eru tvær stelpur um þrítugt eða aðeins yngri og þær tala ekki um neitt annað en kynlíf. Þær eru ekkert að reyna að lækka róminn eða leyna tali sínu. 3some, 4some, framhjáhald og ekki framhjáhald, að vera með konu og vera með karli e.t.c. Skammt frá sitja tveir ungir menn og röfla um menningu og listir. "Menning er ... öhhh ... þegar tiltekinn hópur ..." Aðeins lengra burtu er maður á aldur við mig niðursokkinn í erlent viðskiptablað. Fyrir aftan hann bindur ung stúlka sítt, ljóst hár sitt í tagl og strýkur síðan á sér rasskinnarnar hægt og langdregið. Ég les yfir nýju smásöguna mína.

Í dag er kynlífið fyrir konurnar en ekki karlana. Þær mega útmála sínar píkusögur á torgum en karla skulu þegja um allt slíkt ef þeir eiga ekki að fá á sig perrastimpilinn. Þeir halda líka gjarnan löngunum sínum út af fyrir sig núorðið og reyna að bæla þær. Því annars gætu þeir orðið eins og helvítis öfuguggarnir og kynferðisglæpamennirnir sem alltaf er verið að skrifa um í blöðunum.

Hvað er menning? Hvað er birting?

Ég var að klára smásögu. Var að setja inn leiðréttingar. Hún mun birtast í mjög gamaldags tímariti og ég fæ borgað fyrir birtinguna. Ef ég myndi skella henni inn hér (og eyðileggja birtinguna í tímaritinu) myndu miklu fleiri lesa hana en þeir sem lesa tímaritið. Í því fælist hins vegar engin viðurkenning, hvaða auli sem er getur sett upp svona bloggsíðu og birt hvað sem er það. - Í tilfelli birtingar þar sem eru fáir lesendur er fólgin virðing og peningar (að vísu ekki miklir). Í tilfelli birtingar þar sem fást margir lesendur er engin virðing og engir peningar.

Eftir söguna veltir andans maður því fyrir sér hvað hann eigi næst að gera. Á hann að lesa einhverja smásögu á newyorker.com/fiction? Er kannski einhver góð bók í töskunni? Nei. Hann fer inn á mengella.blogspot.com og lesa haug af pistlum sem Óli Sindri er búinn að drita inn þar undanfarið. Er mengella menning? Hún er vel skrifuð. Þar er Óli Sindri í essinu sínu. Þar er hann einstakur. Í Bakþönkum Fréttablaðsins er hann bara eins og hver annar tilgerðarlegur og herptur auli að þykjast vera frumlegur og gáfaður.

Listin leynist víða og ruslið er víða þar sem ætti að vera list.

mánudagur, september 08, 2008

Ofmetnar bækur

Þegar írski rithöfundurinn Anne Enright fékk Man Booker verðlaunin fyrir skáldsöguna The Gathering varð ég ánægður og forvitinn. Hún er fædd sama ár og ég og hafði fram að þessu aldrei selt meira en 3000 eintök af bók. Hún er auk þess skemmtilega kjaftfor, hnyttin og með töluverðar stílgáfur. En The Gathering olli mér miklum vonbrigðum. Sagan byrjar einhvern veginn aldrei. Það eru fínir sprettir en þegar upp er staðið ná hvorki sagan né persónurnar að snerta hið minnsta við manni. Eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis við vinnslu bókarinnar og dómgreindin hefur yfirgefið dómnefndarmenn. Kannski fannst fólki í kreðsunum tími til kominn að verðlauna vinkonu sem var óþekkt utan þeirra.

Tomorrow eftir Graham Swift er einstaklega leiðinleg og misheppnuð skáldsaga. Samt er Graham Swift frábær höfundur. En Tomorrow er langdregin, ómarkviss og væmin. Mér finnst í rauninni alveg furðulegt að Swift hafi sent hana til útgáfu og mér finnst ennþá skrýtnara að hún sé komin í kilju.

Fyrir næstu jól koma örugglega út margar íslenskar skáldsögur sem eru miklu betri en tvö ofannefnd verk. Í sjálfu sér eru það engin tíðindi þó að góðum penna mistakist. Athyglisvert er hins vegar hvað mistökin fá að ganga langt í bókmenntaheiminum áður en nokkur bendir á þau. Og enginn leiðréttir þau. Bókmenntaheimurinn er líka svo saklaus, a.m.k. miðað við pólitíkina og viðskiptalífið. Það deyr enginn og enginn slasast.

Eins og sést hér er ég engan veginn einn um að vera óánægður með verðlaunabók Anne Enright.
http://www.amazon.co.uk/Gathering-Anne-Enright/dp/0224078739

sunnudagur, september 07, 2008

Tíðindi af "meistaranum"

Ég held ég sé að klára nýja smásögu. Stutta. Hún er líka partur af skáldsögunni sem ég er að skrifa. Þetta er bæði kunnugleg og spennandi tilfinning. Ég er nokkurn veginn viss en þetta staðfestist endanlega þegar ég verð búinn að slá inn aðra umferð í kvöld.

Birtingin liggur líka nokkurn veginn fyrir. Betur segir frá henni síðar.

Við þessa glímu undanfarna daga (sem ætlar að verða styttri en ég átti von á) hef ég upplifað afar sterkt muninn á skáldsagna- og smásagnagerð. Við skáldsöguskrif heldur maður áfram að skrifa en við smásagnagerð rembist maður við að raða saman réttu pörtunum og leggja til hliðar það sem ekki á að vera með. Að skrifa smásögu er dálítið eins og reyna að raða farangri í yfirfullan bíl en að skrifa skáldsögu er eins og að hlaða lest í skipi.

Berlín

Ég fer með Erlu til Berlínar á næstunni. Þangað hef ég ekki komið síðan 1984 en á þeim tíma bjó ég við þriðja mann í Vestur-Berlín. Þetta verður eflaust mögnuð upplifun svo maður sneiði hjá frumlegu orðalagi. Þegar ég skoða kort kannast ég við sum götuheiti sem ég hefði ekki getað rifjað upp fyrirfram. Ákveðin svæði eru kunnugleg, önnur algjörlega framandi. Ég steig að vísu einhvern tíma á Alexanderplatz sem þá var undir kommúnistastjórn og var ansi dauflegt, en ég man ekkert hvernig það leit út. Hin ógnarlanga Kürfürstendamm gerir það auðveldara að átta sig á vesturhlutanum. Það einfaldar málið að ein gata sé svo fyrirferðarmikil í miðbænum. Ég hlakka mikið til að skoða DDR-safnið og Stasi-safnið enda geyma þau heimildir um atburði sem voru að gerast þegar ég bjó þarna.