Þegar írski rithöfundurinn Anne Enright fékk Man Booker verðlaunin fyrir skáldsöguna The Gathering varð ég ánægður og forvitinn. Hún er fædd sama ár og ég og hafði fram að þessu aldrei selt meira en 3000 eintök af bók. Hún er auk þess skemmtilega kjaftfor, hnyttin og með töluverðar stílgáfur. En The Gathering olli mér miklum vonbrigðum. Sagan byrjar einhvern veginn aldrei. Það eru fínir sprettir en þegar upp er staðið ná hvorki sagan né persónurnar að snerta hið minnsta við manni. Eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis við vinnslu bókarinnar og dómgreindin hefur yfirgefið dómnefndarmenn. Kannski fannst fólki í kreðsunum tími til kominn að verðlauna vinkonu sem var óþekkt utan þeirra.
Tomorrow eftir Graham Swift er einstaklega leiðinleg og misheppnuð skáldsaga. Samt er Graham Swift frábær höfundur. En Tomorrow er langdregin, ómarkviss og væmin. Mér finnst í rauninni alveg furðulegt að Swift hafi sent hana til útgáfu og mér finnst ennþá skrýtnara að hún sé komin í kilju.
Fyrir næstu jól koma örugglega út margar íslenskar skáldsögur sem eru miklu betri en tvö ofannefnd verk. Í sjálfu sér eru það engin tíðindi þó að góðum penna mistakist. Athyglisvert er hins vegar hvað mistökin fá að ganga langt í bókmenntaheiminum áður en nokkur bendir á þau. Og enginn leiðréttir þau. Bókmenntaheimurinn er líka svo saklaus, a.m.k. miðað við pólitíkina og viðskiptalífið. Það deyr enginn og enginn slasast.
Eins og sést hér er ég engan veginn einn um að vera óánægður með verðlaunabók Anne Enright.
http://www.amazon.co.uk/Gathering-Anne-Enright/dp/0224078739