föstudagur, október 24, 2008

Bestu fréttirnar ...

... í tíðindum dagsins eru þær að samningar við Breta eru ekki skilyrði fyrir aðstoð IMF. Þetta staðfestu talsmenn sjóðsins sjálfs á blaðamannafundi. Þar með geta menn staðið gegn kröfum Breta sem sjálfir eru byrjaðir að selja eignir úr frystum Landsbanka á Bretlandi. Það lítur út fyrir að stjórnvöld verði að taka slaginn við Breta en hann getur ekki unnist nema með betri almannatengslum.

Þetta er mjög þreytandi ástand. Mér hefur ekki tekist að skrifa stafkrók í viku. Er staddur með sögupersónur í miðju góðærinu og veit ekki hvernig nýliðnir atburðir eiga að skila sér inn í bakgrunn og atburði sögunnar. Erfitt að halda einbeitingu. Er búinn að eyða allt of miklum tíma í að fylgjast með fréttum og vefskrifum.

Fast land undir fótum er mikilvægt, eins og ISG sagði. Það er hægt í djúpri kreppu með hugarró ef tilveran er ekki gegnsýrð óvissu. Það er hægt að draga saman seglin og breyta um lífsstíl. En það er ekkert hægt að skapa ef maður veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það gildir um öll svið.

Þjóðnýting

Pétur Tyrfingsson segir á bloggi sínu að lausnin á Icesave-málinu sé að þjóðnýta Actavis.

Hingað til hefur ríkið bara þjóðnýtt fyrirtæki sem eru að fara á hausinn - með svakalegum tilkostnaði.

Er kominn tími á önnur neyðarlög til að þjóðnýta fyrirtæki sem eru arðbær?

Er það gerlegt?

Þetta snýst um að bjarga framtíð okkar. Menn verða að hafa kjark, þor og röggsemi til að gera það sem gera þarf.

1992

Ég fékk viðtal uppi í Háskóla í dag. Þar tóku yndislegar konur á móti mér og útskýrðu fyrir mér hvað gera þyrfti til að ég gæti gerst háskólastúdent á gamals aldri. Planið er að klára heimspekina og taka síðan þýsku sem aukafag. Ef ég fengi að hefja nám á næsta vormisseri myndi ég væntanlega vera kominn með BA-próf vorið 2010. Það kallar þó á miklu minni launavinnu og erfitt er að sjá hvað yrði um skriftirnar á meðan.

Og svo væri kennslufræðin eftir.

Engu að síður er þetta líklegt. Stundum vill maður bara gera sumt. Skrifa bók. Fara í háskóla. Giftast stúlku frá Vopnafirði. Og maður gerir það.

Hvað um það. Ég fékk útprentun af 50 einingunum mínum frá því forðum. Þær voru jafnar og nokkuð góðar. Auk þess var normaldreifing á útskriftinni og þá kom í ljós að ég hafði orðið efstur í hópnum í einhverju námskeiði sem kallaðist þekkingarfræði. Ætli við höfum þá lesið Faidon? Ég man ekkert eftir þessu. Minnislaus dúx í þekkingarfræði.

Þetta var sérkennileg upplifun.

Þegar ég var að raða í uppþvottavélina í kvöld missti ég eldgamlan disk í gólfið og hann brotnaði. Erla spurði innan úr stofu hvað ég hefði verið að brjóta. Ég sagði: "Æi einn af gulu diskunum sem pabbi gaf okkur og konan hans þá. Hvað hét hún eiginlega? Ég er búinn að steingleyma því. " - Erla: "Fransiska".

Og það var einmitt á þessum árum, háskólaárunum sem ég kláraði aldrei. Pabbi bjó með einhverri Fransisku á Grettisgötu.

Þegar ég var að labba burtu mætti ég Óla Sindra strompreykjandi í rokinu. Þá þyrmdi yfir mig. Drottinn minn dýri. Ætla ég að deila kjörum og vinnusvæði með þessum manni sem gæti verið barnabarn mitt? Vonandi er hann hvorki í heimspeki né þýsku.

sunnudagur, október 19, 2008

Steinum kastað úr rándýru glerhúsi

http://eyjan.is/blog/2008/10/19/forsetafruin-thjodfelagid-peningadrifnara-arfleifdin-gleymist/

Milljarðamæringur úr þotuliði heimsins gagnrýnir íslensku þjóðina fyrir efnishyggju, á sama tíma og almenningur er að missa eignir sínar og atvinnu, vegna fjármálahruns sem á sér orsakir í fyrirhyggjulausri fjármálaútrás sem eiginmaður gagnýnandans, forseti Íslands, lofsöng manna hæst með sykurhúðuðum og velgjulegum frösum.

Hvað á svona taktleysi að þýða?

Er Morgunblaðið orðið algjörlega veruleikafirrt? Á það enga samleið með þjóðinni lengur?

Annars mæli ég með Hnakkusi. Hann skrifar betur um þetta en ég: http://hnakkus.blogspot.com/