laugardagur, október 23, 2004

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir hjá Fréttablaðinu hlýtur að vera einn besti blaðamaður landsins á sínu sviði. Í sumar skrifaði hún tvær athyglisverðar útttektir á makaskiptum og hópsextilhneigingum landans eða vonandi lítils hluta landans, eina jákvæða og eina neikvæða. Sjálf var hún hlutlaus í þeim báðum en greinarnar birtu okkur báðar hliðar þessa lífsstíls, annars vegar unaðinn, leikinn og spennuna, hins vegar skipbrot hjónabandsins og kvöl afbrýðiseminnar. - Í Fréttablaðinu í dag birtir Þórdís Lilja síðan afar athyglisvert viðtal við íslenska vændiskonu, þrítuga kennslukonu sem á sér geðuga gifta viðskiptavini á fimmtudagsaldri í því skyni að bæta fjárhag sinn, vonandi tímabundið. - Hinn á ensku kallaði "human interest" hluti blaðamennsku virkar oft yfirborðskenndur og á lægra plani en svokallaðar alvöru- eða harðar -fréttir. Endalaus umfjöllun um megranir, nýaldarbull og síendurtekin sparihliðarviðtöl við frægðarmenni og hálffrægðarmenni eru enda oft einkenni þessarar blaðamennsku. Þórdís Lilja kafar hins vegar undir yfirborðið og þrátt fyrir að fjalla um minnihlutahegðun taka greinar hennar á málefnum sem snerta okkur flest. Viðtalið við vændiskonuna í dag er í senn upplýsandi og sorglegt. Hún er tímanna tákn um það að nú til dags getur allt gengið kaupum og sölu, jafnvel í huga "venjulegra" borgara. Hún sýnir hvað meðalfólk er til í að ganga langt til að geta haldið uppi háum lífsgæðastaðli. Jafnframt sýnir hún að þegar giftir karlar standa frammi fyrir kynlífssvelti í hjónabandi sínu þá eru þeir glettilega margir tilbúnir að kaupa lausnina utan heimilisins í einum pakka. Sofna síðan vært við hlið eiginkonunnar og hætta að bögga hana án þess að horfast í augu við að það sé sjálfstætt vandamál og í sjálfu sér niðurlægjandi og óviðunandi að þær vilji ekki lengur þýðast þá.

Fyrir utan að vera lipur penni og blaðamaður sem virðist gera sér far um að leita sannleikans þá er Þórdís Lilja greinilega hugrökk. Hún fjallar af hreinskilni um málefni sem skipta fólk máli en ekki er alltaf viðurkennt að þau geri það. Efni sem tengjast kynhvötinni, svo sem algengir kynlífsdraumar, klámnotkun, framhjáhald og kynsvelti í hjónabandi, eru viðkvæm efni sem koma við kvikuna í okkur, geta reynt á blygðunarkenndina en skipta okkur öll miklu máli. Arfleið gamallar menningar segir okkur hvað eftir annað að þessi efni séu lágkúruleg. Í skáldskap taka höfundar þá áhættu að virka annaðhvort banal eða klámhundar ef þeir snerta á þessum viðfangsefnum. Þó er til lengdar enn vandræðalegra að sjá skortinn á þessari umfjöllun hjá heilu skáldakynslóðunum. Smásagan Dropinn á glerinu eftir Rúnar Helga Vignisson (birtist síðast í smásagnasafninu Uppspuna sem Bjartur gaf út á þessu ári) er skemmtileg undantekning, hún fjallar á afar trúverðugan hátt um kynsvelti í hjónabandi og hvernig kynsveltur ekkill tekst á við sorgina.

Viðtalsgrein Þórdísar Lilju er alvarleg áminning til fólks um að rækta hjónabandið og hlúa þar að kynlífinu. Jafnframt gerir hún opinbera vændisumræðu afar hjákátlega. Sá málflutningur allur er meingallaður vegna þess að hann steypir allt fólk í fyrirframgefin mót. Hann gerir allar vændiskonur að fórnarlömbum og alla viðskiptavini þeirra að níðingum. Þessi málflutningur miðar að því að gera kaup á kynlífi refsigerð í afar óljósri baráttu við í sjálfu sér eðlisólíkan verknað og glæp, sem er mansal, og hefur t.d. ekkert að gera með sögu vændiskonunnar í Fréttablaðinu í dag. Þó að þau viðskipti séu ekki æskileg sem þarna er lýst, þá kalla þau hvorki á þjóðfélagslegar né réttarfarslegar umbætur. Fremur að þessi saga ætti að vera hvatning til fólks um að líta í eigin barm og rækta líf sitt.

föstudagur, október 22, 2004

Bókin er komin, bókin er komin. Ekki vantar svo sem bölið í heiminum, stríð, handrukkarar, kynjamisrétti - en svo koma hátíðarstundir eins og jólin, eða nýtt smásagnasafn frá ÁBS, og þá er tími til að gleðjast og halda hátíð. Ég fékk fyrstu eintökin í hendur áðan, kynningareintök eru farin út og dreifing í búðir hafin. Fyrsta eiginlega útgáfuvikan er samt næsta vika.

fimmtudagur, október 21, 2004

Tvær ömurlegar karlrembufréttir í blöðunum í gær: Heimilisofbeldismaður fær dóm skilorðsbundinn vegna þess að dómari taldi konuna eiga sök á ofbeldinu. "Dómur frá steinöld", segir viðmælandi DV réttilega í dag.

Hin fréttin var sú að launamunur kynjanna hjá hinu opinbera er 17%. Þarna er hægt að byrja að taka til því hið opinbera getur ráðið launastefnu sinni, sama hvað hver segir.

Ég þarf ekki að spyrja um hug kvenna en ég spyr karlmenn: Viljið þið heyra fréttir eins og þessar? Viljið þið að þær séu raunveruleikinn?

þriðjudagur, október 19, 2004

Þetta eru strembnir dagar því ég má vart hafa hugann við annað en nauðsynleg verkefni vinnunnar og síðan umfram allt væntanlega útgáfu. Ég er að herja á kunningja- og tengslahópa til að örva sölu á bókinni. Hingað til hef ég alltaf setið á rassinum og ekki gert neitt og selt þetta 150-200 eintök. Núna verð ég á útopnu og sel 300 eintök. Kannski meira. Aðalstressið er fram að útgáfuteitinu 3. nóvember. Eftir það verður þetta þægilegri útgáfurútína með nokkrum upplestrum og vonandi fleiri blaðaviðtölum.

mánudagur, október 18, 2004

Aldrei grunaði mig að frjálshyggjumaðurinn ég yrði nokkurn tíma fylgjandi kynjakvótum í stjórnunarstörfum og á framboðslistum stjórnmálaflokka. En nú liggur við að ég geti greitt slíkum lausnum atkvæði mitt. Ég viðurkenni að hafa orðið fyrir áhrifum tveggja manna vegna málflutnings þeirra um þetta efni, Hallgríms Helgasonar og Ingva Hrafns Jónssonar. Ég er oftar en ekki sammála Ingva Hrafni en Hallgrímur er ekkert átorítet fyrir mig í stjórnmálum enda virtist mér hann um daginn vera kominn með þær undarlegu hugmyndir að Lúðvík Bergvinsson væri efni í framtíðarleiðtoga þjóðarinnar. Með fullri virðingu fyrir þeim þingmanni þótti mér það dálítið frumlegt. - En staðreyndin er sú að launamisrétti milli kynjanna er viðvarandi hér á landi og skortur á konum í háum stórnunarstöðum, jafnt hjá hinu opinbera sem á frjálsum markaði, er sláandi og pínlegur. Hallgrímur sagði í Silfri Egils að fyrir ári síðan hefði honum ekki dottið í hug að styðja kynjakvóta en núna velti hann því fyrir sér hvort nokkur lausn önnur væri til að breyta ástandinu. Og það er einmitt stóra spurningin. Er nokkur önnur lausn til? Og er sú lausn ekki betri en að sætta sig endalaust við þetta ástand?

Ingvi Hrafn lagði til á Útvarpi Sögu að stórfyrirtæki fengju ekki skráningu í Kauphöllinni án þess að uppfylla skilyrði um lágmarkshlutfall kvenna í stjórnunarstöðum.

Staðreyndirnar eru þær að hvað eftir annað eru tækifæri til að ráða hæfar konur til hárra stjórnunarstaða hjá hinu opinbera látin ónotuð og alltaf þykjast menn hafa einhverjar faglegar ástæður til að sniðganga konurnar. Á vinnustöðum ríkir oft klíkuskapur þar sem strákarnir drekka saman og klappa hver öðrum og inn í þær klíkur eiga konur ekki möguleika á að brjótast. Auðvitað er ekki hægt að skipa litlu heildsölufyrirtæki að ráða konu sem framkvæmdastjóra en hið opinbera verður að sýna betra fordæmi. Þegnarnir þurfa að þola ýmis valdboð og afskiptasemi hins opinbera og mér virðist að lögfastara jafnrétti væri ekki meiri frelsisfórn en margt annað.

En hvernig var það, er ég ekki karlremba? Ég veit það ekki. Ég hef verið sakaður um það vegna þess að ég gagnrýni oft harðlega málflutning feminista þegar mér finnst hann vera óraunsær, snúast um tittlingaskít, ýta undir ritskoðun, steypa allt fólk í sama mót. Ef það er að vera karlremba, þá það. En ef ég er karlremba þá er ég líka feministi. Vonandi fjölgar feministum af báðum kynjum og vonandi beinist málflutningur þeirra umfram allt að ofangreindum málum.

Þegar ég hnýtti í Gísla Martein þáttinn um daginn fyrir að vera með enn eitt viðtalið við Bubba Morthens, þá varð ég auðvitað dálítið smeykur um að gagnrýnin gæti túlkast sem illgirni og öfundsýki. Sem hún var auðvitað ekki. Tilefni viðtalsins var raunar heimildarmynd góðkunningja míns, Ólafs Jóhannessonar, hjá Poppola, en Ólafur er einn helsti aðdáandi bókarinnar Sumarið 1970, hefur "keypt" að henni kvikmyndaréttinn og líklega mun einhvers konar kvikmyndaútgáfa af Hverfa út í heiminn líta dagsins ljós áður en ég dey. - En hvað um það, eflaust er heimildarmyndin góð en samt finnst mér ofaukið að gera heimildarmynd um Bubba. Hann hefur einfaldlega verið svo fyrirferðarmikill.

Á ég að fara að koma mér að efninu? Í DV í dag er viðtal við fyrirverandi eiginkonu Bubba. Konunni er greinilega vel til eiginmannsins fyrrverandi og viðtalið er laust við alla beiskju. En hún þekkir sinn mann og er gagnrýnin á hann. Hún segir í rauninni miklu betur en ég það sem ég vildi segja í blogginu um daginn. Hún er t.d. kominn með leiða á þessum endalausu dópsögum hans. Henni finnst hann ekki standa undir því hlutverki móralíserandans sem hann er sífellt að leika, enda auglýsir hann núna grimmt lúxusjeppa en þóttist vera baráttumaður fyrir réttindum farandverkamanna áður fyrr. Og svo er hann reglulega að blaðra um Biblíuna á Omega. Hún segir að hann Bubbi kallinn blaðri bara einfaldlega of mikið og það endi með því að enginn taki mark á honum lengur. Málið er það að maður þarf ekki að vera alvitur og algóður til að vera verðugur listamaður og mér finnst líka að Bubbi ætti að einbeita sér að listinni og draga úr blaðrinu. Endalaus meint samúð hans með lítilmagnanum er hjákátleg í ljósi þess að sem vini velur hann sér alltaf einhverja ríkisbubba og talar helst ekki við annað fólk. Enda má hann það alveg. Hann má alveg elska jeppa og dýrka ríkt og frægt fólk og líta niður á pöpulinn. Það er allt í lagi. Það er bara þetta yfirþyrmandi, hræsnisfulla og mótsagnakennda og háværa blaður hans sem hvergi er friður fyrir vilji maður á annað borð fylgjast með fjölmiðlum.

Bubbi er frekar ungur maður ennþá og þó að rokkarar brenni fljótt út þá er hann á miklu víðara sviði. Hann gæti því átt sín allra bestu ár eftir sem listamaður. Hann þarf hins vegar að draga úr yfirlýsingunum því annars missir hann trúverðugleika. Geturðu ekki, Bubbi minn, bara hætt þessu helvítis blaðri, eins og fyrrverandi eiginkona þín er að ráðleggja þér, og lagt allan kraftinn í listina; tónlist, texta og kannski bækur, hver veit? Þú verður örugglega ekki í vandræðum með að kynna og selja afurðirnar, þú þarft ekki að vera í hverjum einasta sjónvarpsþætti til þess og segja dópsögur af þér, móralísera og blaðra um Biblíuna. Listin þín verður eiginlega miklu meira spennandi ef þú dregur þig dálítið í hlé og beinir allri athyglinni að hugverkunum sjálfum.

sunnudagur, október 17, 2004

Hélt einhver að ég væri hættur að skokka? Neinei, við förum 4 sinnum í viku. Ég er farinn að missa Erlu fram úr mér og hvað eftir annað er hún 1 til 200 metrum á undan mér í mark. Þarna skilur vigtin að. Ég mun ekki halda í við hana nema ég léttist og ég veit ekkert hvort það tekst. Ég er alltaf að reyna að laga ákveðna hluti í mataræðinu en ég mun ekki asnast framar í einhvern megrunarkúr. En það sem ég laga dugar hingað til ekki til annars en að ég hætti að fitna. Þetta verður nefnilega sífellt erfiðara með árunum og því eins gott að reyna sitt besta ef maður ætlar ekki að líta út eins og Egill Helgason, sá annars prýðilegi sjónvarpsmaður.

Ég myndaðist býsna vel í Fréttablaðinu í dag. Verð að viðurkenna að myndin tekur af mér sirka 7-10 kíló. Garðurinn fyrir utan Íslensku auglýsingastofuna er heldur ekki slæmt umhverfi. Ég hefði svo sem kosið að fá viðtal seinna enda bókin ekki einu sinni komin út, en maður þiggur það sem gefst þegar það gefst. Ekki spurning um það.