laugardagur, mars 03, 2007

Þeir svartsýnustu um framtíð Moggans eru nú farnir að óttast að hann endi sem bloggsíða Styrmis Gunnarssonar.

Einu sinni var auglýsingaflóðið í Mogganum plága, núna sér maður lítið af auglýsingum í blaðinu. Þetta eru auðsæ áhrif af því hve mikill hluti af umsvifum eru í höndum sömu aðila og Mogginn er þessum aðilum ekki þóknanlegur.

Núna eru málsaðilar á því að andrúmsloft í þjóðfélaginu hafi orsakað Baugsmálið en ekki samsæri. Það breytir því ekki að manni finnst málatilbúnaðurinn vera endalaust rugl.

Blaðið (þ.e. BLAÐIÐ en ekki Mogginn) stendur sig vel í Bakkavararmálinu sem það fylgir eftir í bæði fréttum og leiðara í dag. Þar er líka viðtal við Davíð Þór Jónsson þar sem komið er inn á klámumræðuna rétt eins og í viðtali við Ingibjörgu Jónu í Fréttablaðinu. Núna þegar klámumræðan er að lognast út af og bjánarnir sem héldu henni uppi eru þagnaðir, þá taka skynsemisraddirnar að hljóma. Davíð Þór segir sjálfur að gáfaða fólkið í Vinstri grænum hafi haft vit á því að þegja á meðan þetta gekk yfir en heimskingjarnir í flokknum hafi stýrt umræðunni. - http://www.jonas.is/leidarar/greininl.lasso?id=8047 Jónas Kristjánsson skrifar síðan fantagóða grein um málið.

föstudagur, mars 02, 2007

Með púlsinn á bókmenntaheiminum

Ungur höfundur skrifaði undir sinn fyrsta útgáfusamning í gær við stórt forlag og hélt upp á tímamótin með því að fá sér plokkfisk. Sambýliskona hans var í vinnunni.

Skáld elska hversdagsleikann og þau elska skáldskap og smáatriði.

Það eru ferskir höfundar að stilla kanónur sínar fyrir næstu jólavertíð. Ólgandi af krafti.

Varið ykkur.

Blaðið

Eftir að hafa hraunað yfir forsíðu DV í gær er allt aðra sögu að segja um forsíðufrétt Blaðsins í dag. Þar virðist heldur betur vera kjöt á beinunum. Kannið málið sjálf.

Persónulegt framhald af Bókmenntaskýringum til alþýðu á almannafæri

Ég fór síðan aftur upp í vinnu og baukaði við bókina. Tók síðan smá kvöldlabbitúr með Erlu, þ.e. við mættumst á miðri leið milli Íslensku og Tómasarhagans og gengum saman heim, ég blaðrandi út í eitt um bókina og hún að rembast við að reyna að fá botn í blaðrið.

Síðan þá hef ég verið í bullandi hamingju sköpunargleðinnar við endursamningu á miðhluta bókarinnar þar sem ég hef tekið mestu listrænu áhættu ferils míns (listræn áhætta hefur hingað til ekki verið aðalsmerki mitt, styrkurinn hefur legið í öðru) og dæmið virðist ganga upp.

Í sögunni verða bæði kunnuleg höfundareinkenni mín í bland við nýstárleika. Víða mun ég koma lesendum mínum töluvert á óvart.

Þeir þurfa bara að bíða í rösklega hálft ár.

Það er misskilningur einhverra að þetta verði stór bók. Hún verður stutt en margskrifuð og þrauthugsuð.

http://www.kistan.is/efni.asp?n=5194&f=4&u=98 Í þessari skemmtilegu áróðursgrein Vinstri-græningja, sem fjallar um pólitískan áróður, er nefndur, í næst síðustu efnisgrein, til sögunnar keisari spunabloggaranna. Hann nafngreinir hann ekki. En hver er það? Hver getur bætt úr þessari fáfræði minni?

fimmtudagur, mars 01, 2007

Það að 49% þjóðarinnar vilji Geir Haarde sem forsætisráðherra er ekkert slæmt en vegur ekki upp á móti þeim ótíðindum að 26% vilji fá í það embætti netlöggu framtíðarinnar sem var á móti bjórnum. Þá vil ég frekar ISG en ekki í samstarfi við netlögguna heldur fyrrnefndan Haarde. Það mun reyndar ekki gerast nema Samfylkingin vinni kosningasigur og það er raunar mun betri kostur en kosningasigur Vinstri grænna.

Bókmenntaskýringar til alþýðu á almannafæri

Það sem hér fer á eftir stafréttur sannleikur. Átta mig ekki á því hvers vegna ég vil taka það fram því sagan er svo sem ekkert ótrúleg.

En ég er staddur á Kofa Tómasar frænda þar sem ég átti erfitt með að ná einbeitingu í vinnunni vegna anna þar og einbeitingu heima næ ég ekki fyrr en krakkarnir eru sofnaðir. Að þessu sinni er Kofinn eins og félagsmiðstöð unglinga á rólegu kvöldi, meðalaldurinn varla yfir 17 ár. En í stað þess að snúa við í dyrunum lét ég hafa mig í að panta einn latte.

Sem ég er að fá mér sæti rek ég augun í feitlaginn ungling að lesa í bók og forvitnin rekur mig í að kíkja á kápuna og ég sé að þetta er Eitur fyrir byrjendur. "Svo þú ert að lesa Eirík", segi ég við piltinn og hann svarar ákafur: "Já, þetta er rosalega spennandi." - Síðan leiðréttir hann sig en finnur ekki rétta orðið: "Nei, ekki beint spennandi heldur ..." - "Ófyrirsjáanleg?" segi ég. "Já, einmitt", hrópaði pilturinn og hélt áfram að lesa hálfu glaðari ef það var þá hægt.

Ég myndi vilja eiga svona ungling líka. Helst marga. Kannski eru þeir þarna einhvers staðar úti.

Ekki veit ég hvers vegna - en í fyrstu hlakkaði dálítið í mér yfir forsíðufrétt DV um "svikinn" launabónus starfsmanna Landsbankans (kannski af því allir gamlir kunningjar mínir sem eru að "meika það" eru farnir að vinna í banka) . Síðan sá ég að fréttin var bara eins og hvert annað bull. Kaupaukar eru alltaf miðaðir við fullt starf og fólk í hlutastarfi fær alltaf samsvarandi hlutfall af kaupauka, rétt eins og í þessu dæmi. Þetta er vonlaus ekki-frétt, teflt fram sem aðalforsíðuefni.

Átti þetta nýja DV ekki að vera í anda gamla góða DV? Þetta er fremur í anda þess DV sem gekk af sjálfu sér dauðu.

Það vildi ég óska að DV gæti byggt upp áskrifendakerfi og gert út á prýðilegt innsíðuefni sitt og stundum afbragðsgott helgarblað. Lausasöluþörfin æpir á fyrirsagnaskandal daglega og með þessum vinnubrögðum fýkur trúverðugleikinn á augabragði.

miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Mér finnst eitthvað rosalega næntís- eða jafnvel eitís-legt við auðkennislykilinn. Ég get ekki rökstutt það, öðru nær væri eflaust hægt að rökstyðja hið gagnstæða. En þessi tilfinning mín hefur eitthvað með útlit lykilsins að gera og hvað fyrirferð hans er þó mikil miðað við mjög afmarkað og skilyrt notkunargildi hans.

En hvað sem því líður þá tók ég þá ákvörðun að láta auðkennislykilinn minn gera mig hamingjusaman í stað þess að ergja mig yfir honum. Það hefur gengið eftir.

mánudagur, febrúar 26, 2007

Eftir landsfund Vinstri grænna um helgina þykir mér einsýnt að eina gæfulega stjórnarformið eftir kosningar er Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Fróðlegt verður að sjá í næstu skoðanakönnunum hvort 1/5 þjóðarinnar sé jafn veruleikafirrtur og ofstækisfullur og talsmenn þessa flokks. Ég trúi því ekki að Framsóknarflokkurinn fari yfir 10 prósentin að þessu sinni og Sjálfstæðisflokkurinn vinnur engan stórsigur eftir alla þessa stjórnarsetu. Núverandi ríkisstjórn mun því örugglega ekki halda velli.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Nokkuð langur inngangur að lítilli tilvitnum og síðan tilvitnunin

Neðangreinda tilvitnun fann ég á vef Feministafélags Íslands. Höfundurinn heitir Katrín Anna. Ég er svona aðeins að kynna mér eitthvað hvað þetta fólk er að segja sem telst til róttækra feminista og hefur haft sig mikið í frammi undanfarið. Þessar konur sem eru sífellt að segja: "Þú hefðir nú gott af að taka nokkra kúrsa í kynjafræði." Vel má vera að það séu stórmerkileg fræði.

Ég tek það fram að mig langar ekki að tala meira um klám. Það er margt fleira sem ber á góma í jafnréttisbaráttunni. Og maður skynjar að ansi samstilltur hópur skoðanalega er að verða sífellt áhrifameiri í þjóðlífinu, kemur til með að hafa áhrif í menntakerfinu og menningarlífinu og svo framvegis.

En alltsvo, þegar ég byrja að skoða vef Feministafélagsins í fyrsta skipti (og það er nokkuð aumt að hafa ekki gert það áður) þá er þetta eitt það fyrsta sem ég rekst á:

"Sumir róttækir femínistar eru á því að konur geti ekki verið í kynferðislegu sambandi við karl án þess að vera kúgaðar. Bara með því að eiga samfarir með karl þýði undirgefni. Konur eru því hvattar til að láta karla eiga sig og vera annaðhvort einar eða í sambandi við aðarar konur. Þetta er full róttækt sjónarmið fyrir mína parta þó svo að ég telji að slík afstaða geti skilað mjög skjótum árangri ef samstaða næst um aðgerðir…! "

Katrín Anna þessi er kannski ekki alveg á því að þetta sé rétta stefnan en hún er dálítið skotin í hugmyndinni engu að síður.

Karlhatur er mannhatur, rétt eins og kvenhatur.