laugardagur, desember 20, 2008

Davíð blífur

Árið 2004 tók meðalbloggarinn þátt í söngnum um yfirgang Davíðs Oddssonar gagnvart Baugi.

Núna er meðalbloggarinn farinn að taka undir allt sem Davíð sagði án þess þó að nefna hann á nafn.

Það var satt að Baugur stundar bolabrögð í samkeppninni.

Það var satt að eigendur fjölmiðla hafa áhrif á umfjöllun þeirra og móta hana í sína þágu, í þágu fjárglæframanna.

Það hefði átt að samþykkja fjölmiðlalögin.

Núna er stíflan að bresta, reiði almennings beinist gegn fjárglæframönnunum sem komu þjóðinni á kaldan klaka og fjölmiðlunum sem hafa þjónað þeim, t.d. DV og Fréttablaðið.

Aðeins endurtekin mistök í Seðlabankanum, fleiri vafasamar yfirlýsingar eða frekari ögrun við ríkisstjórn getur komið starfi Davíðs aftur í hættu.

Ef ekki mun hann sitja áfram í Seðlabankanum og smám saman hætta allir að krefjast þess að hann víki þaðan

fimmtudagur, desember 18, 2008

Háskólinn II

http://visir.is/article/20081218/FRETTIR01/263094852 Viltu þá biðja háskólann, Þorgerður Katrín, um að hætta þessari vitleysu, hleypa mér inn, senda mér greiðsluseðilinn aftur og leyfa mér að klára í friði það sem ég ætlaði að klára, svo ég geti eftir sem áður verið skattborgari en ekki byrjað að þiggja af velferðinni á miðjum aldri.

Frábærir mótmælendur

Ég er uppfullur af þakklæti til unga fólksins sem hefur haldið uppi virkilega markvissum mótmælum undanfarið. Afraksturinn er m.a. sá að Tryggvi er farinn úr Landsbankanum. 50 ungmenni gera meira gagn en 7000 manns á Austurvelli vegna þess að mótmælin núna eru markviss, skotmörkin áþreifanleg og aktúel. - Nú þarf að koma Jónasi úr Fjármálaeftirlitinu og halda áfram að láta skuldakóngana finna hver hugur fólks er í þeirra garð.

miðvikudagur, desember 17, 2008

Háskólinn

Eins og komið hefur fram á þessu bloggi hugðist ég taka upp þráðinn í háskólanámi eftir áramót, þ.e. þráð frá árinu 1992. Þegar er búið að meta inn minn gamla feril að fullu og ég er byrjaður að skrifa BA-ritgerð. Auk þess á ég eftir að klára heimspekileg forspjallsvísindi og taka öll námskeið í þýsku sem aukafagi.

Fyrir allnokkru síðan var umsókn mín samþykkt formlega en nú er skyndilega búið að frysta hana. Ástæðan er niðurskurður á fjárlögum til HÍ.

Burtséð frá því siðferðislega spursmáli að ötull skattborgari til áratuga fái að skrá sig í háskólann þá velti ég fyrir mér lagahliðinni og stjórnarskránni (án þess að rýna í hvorugt). Ég spyr ykkur: Getur Háskóli Íslands virkilega meinað mér inngöngu? - Og veitt einhverjum öðrum inngöngu á meðan?

Ánægjuleg mótmæli

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/12/17/jon_gerald_motmaelir_i_landsbanka/

Loksins, eftir tvo mánuði, eru mótmælin farin að beinast á rétta staði. Og þungi umræðunnar er líka farin að beinast að hinum raunverulegu sökudólgum.

mánudagur, desember 15, 2008

Prívatmálin

Ég var að fá styrkveitingu til mánaðardvalar í þýskri listamannamiðstöð skammt frá Rostock - árið 2010. Þetta er sérlega ánægjulegt en það gæti orðið langdregið að hlakka til einhvers sem er svo langt undan. Kannski jafnerfitt og fyrir barn að hlakka til jólanna frá hausti.

Kreppan hefur m.a. bitið í mig með þeim hætti að utanlandsferðir eru ekki á dagskrá á næstunni.
Þetta tækifæri er kærkomið þegar loks að því kemur.

Dóttir mín fór í andaglas með vinkvennahópi um helgina og fylgdi því mikil hystería. Einhver Daníela gaf sig fram, lettnesk stúlka sem á að hafa látist fyrir 12 árum. Ein vinkvennana var síðan kynnt fyrir lettneskri stúlku í Kringlunni í dag og sú heitir Daníela. Lamandi skelfing greip vinkonuna. En átti ekki Daníela að vera dálin? Jújú, en þær segja að hún sé þá bara endurfædd.

Þær höfðu strikað upp andaborðið á pizzukassa. Þær fóru síðan með pappaleifarnar í Landakotskirkju á sunnudaginn og báru sig upp við prest þar. Presturinn sagði þeim að brenna pizzupappann sem þær og gerðu.


Eitt hefur ekki breyst í kreppunni: pirrandi tónlist á Te&kaffi í Máli og menningu. Þetta er framúrstefnuleg tónlist sem ertir og pirrar og hljómburðurinn er afleitur. Á ég að kvarta og kveina? Nenni því ekki.

sunnudagur, desember 14, 2008

Sullenberger

  • Hann telur að frysta ætti eignir útrásarklíkunnar og fangelsa þá alla
  • Hann telur að forsetinn ætti að skammast sín og segja af sér
  • Hann telur mestu ábyrgðina liggja hjá FME, ekki Seðlabankanum og því síður hjá Davíð persónulega
  • Hann ætlar að stofna lágvöruverðsverslun á Íslandi

Kannski er þetta tími Jóns Gerard Sullenberger. Ég veit a.m.k. að ég væri til í að versla í búðinni hans.