fimmtudagur, apríl 09, 2009

Aðrir verða að opna bókhaldið

Engum dettur í hug að verja það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið tugmilljónakróna styrki frá útrásarfyrirtækjum árið 2006.

En um leið hlýtur það að vera sameiginleg krafa allra að aðrir flokkar geri grein fyrir sínum fjárreiðum. Þar beinist athyglin helst að Samfylkingunni. Það er algjörlega óboðlegt að hún opni ekki bækurnar fyrir kosningar. Þessa kröfu þarf að gera og henni þarf að fylgja stíft eftir.

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Hlaupatími ráðherrans

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hljóp 7 kílómetra á 44:27 mín. í Háskólahlaupinu um daginn.
Ég er reyndar alveg skelfilega lélegur í reikningi en mér virðist á þessu að hann næði ekki að fara 10 kílómetra á innan við klukkustund. Hann á semsagt mikið inni í skokkinu. Það var að vísu skelfilegt rok þennan dag og vel má vera að tíminn sé ekki marktækur þess vegna.

Annars er þetta bara svona séð&heyrt útgáfa af þeirri ósk minni að Gylfi verði áfram ráðherra. Og ég ætla að sleppa öllu líkingamáli um að stjórnin sé að falla á tíma eða eitthvað svoleiðis.

Maður veltir því fyrir sér hvort hin pólitíska list, það fag að vera stjórnmálamaður, sé í raun til óþurftar og best færi á því að við fengjum hlutlaust fagfólk eins og Gylfa og Rögnu í öll ráðherraembætti.

sunnudagur, apríl 05, 2009

Upplýsið fáfróðan smásagnahöfund

Í tilefni af Michael Hudson.

Hvaða erlendu skuldir munu ganga frá íslensku þjóðarbúi ef við reynum að greiða þær?
Hvaða skuldir eigum við að neita að greiða?

Mér vitanlega mun mikill meirihluti erlendra skulda föllnu bankanna verða afskrifaður. Þar séu erlendir lánadrottnar að tapa stórfé.

Mér vitanlega verða Icesave skuldbindingarnar viðráðanlegar. Líklega innan við 100 milljarðar.

Ég veit ekki betur en fjárlagahallinn sem þarf að brúa sé ekki tilkominn vegna erlendra skulda. Innlendar skuldir ríkissjóðs aukast hins vegar verulega.

Mér vitanlega eru myntkörfulán lítill hluti af vanda húsnæðiseigenda þegar upp er staðið. Vandinn liggi m.a. í innlendum skuldum og geigvænlegu atvinnuleysi, þ.e. tekjufalli.

Hvaða erlendu skuldir eru þá að sliga okkur núna? Er verið að tala um erlendar skuldir fyrirtækja sem enn eru í rekstri, eins og Landsvirkjunar og sjávarútvegsfyrirtækja?

Getur einhver tekið léttan snúning á þetta?

Yfirleitt er staðan verri en bjartsýnismenn boða og skárri en framtíðarmynd bölsýnismanna.
En ég veit þetta ekki. Ég þykist ekki hafa vit á því sem ég veit ekkert um.