Ég er kannski að hætta mér út á hálan ís núna, en ég er ekki vanur að láta slíkt aftra mér: Mér finnst það frekar skemmtileg tilhugsun að FF-feðgarnir Sveinn og Eyjólfur séu að fikra sig út í viðskipti aftur. Eflaust hafa þeir verið að bauka eitthvað, ég meina, svona menn hanga ekki iðjulausir, en þeir verða smám saman sýnilegri á ný næstu árin. Eflaust er einhverjum heitt í hamsi við þá ennþá enda bakar enginn sér vinsældir með stórgjaldþroti. Ég minnist þeirra með nokkrum hlýhug, já töluverðum hlýhug. Ég vann fyrir þá í nokkur ár, fékk ýmis tækifæri og skemmtileg verkefni, t.d. menningarvef á Vísi sem ljáði mér rödd í bókmenntalífinu. Nú og hitt djobbið er margumtalað og kom sér vel á sínum tíma. Og þó að allt hafi ekki gengið hnökralaust undir það síðasta, ehemm, þá endaði það nú vel hvað mig snertir. Og vonandi eru flestir hlutaðeigandi búnir að ná sér á strik aftur. Já, ég á heilt yfir mjög góðar minningar um veruna í Þverholti og Brautarholti, að mörgu leyti ógleymanlegur tími. Enginn skyldi heldur gleyma því að Eyjólfur Sveinsson stofnaði bæði Vísi.is og Fréttablaðið þó að vitaskuld eigi aðrir menn líka þátt í því brauðryðjendastarfi. Og Sveinn stofnaði Dagblaðið, síðar DV, ásamt fleirum. Brautryðjendur taka áhættu og geta gert dýr mistök- En ég segi bara: Gangi þeim feðgum vel.