föstudagur, ágúst 19, 2005

Pistillinn sem Tinna var ánægð með í kommentakerfinu hér að neðan er sá síðasti sem ég flyt í Speglinum en við EÖN erum bara ráðnir út sumarið. Það er því sjálfsagt að vekja athygli fjölmiðla á því að það gengur pistlahöfundur laus. Ég er að vísu ekki sá besti og ég er ekki eins vel vaxinn og Gillxenberger í DV eða hvað hann nú heitir, en ég er skör fyrir ofan flatneskjuna.

Reykjavíkurmaraþon í fyrramálið. Ég er ekkert allt of vel upplagður. Borðaði of mikið í gær. Það var ekki gott. Svo verður strekkingsvindur á morgun. Ég er voðalega lítill íþróttamaður og hlakka til þegar þetta er afstaðið svo ég geti aftur farið að skokka áhyggjulaus í rólegheitum. Ætla samt að leggja mig fram og gera mitt besta.

Er markaður fyrir Who-tónleika á Íslandi? Þeir plana risatónleikaferð á næsta ári og Reykjavík er orðinn heitur tónleikastaður. Er grundvöllur fyrir Who-tónleikum hérna? Aðeins 1500 sáu Alice Cooper.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Ég byrjaður að skrifa dálítið á Súfistanum aftur. Hann hefur komið mikið við sögu í smásagnagerðinni undanfarin ár en ég hef gefið staðnum frí síðustu misseri. Það eflir trúna á söguna að glíma við hana á svo kunnuglegum slóðum. Auk þessu er komið afgreiðslufólk á staðinn sem býður góðan dag, en það var óþekkt hér áður fyrr.

Ég er að verða dálítið spenntur fyrir sögunni og er nú farinn að finna fyrir ýmsum kunnuglegum merkjum um að verkið sé að taka við sér. En þetta verður strembið. Ég er auðvitað alveg viss um að á endanum verður til alveg þrælfín og skemmtileg lítil skáldsaga og efni hennar og efnistök verða þar að auki á þá lund að hún ætti að geta vakið athygli ef einhver annar skrifaði hana. Markið sem ég set mér er hins vegar miður ágúst á næsta ári. Þá fær Skruddan þetta fullbúið í hendurnar og svo kemur þetta út. Ég fer ekki að sýna öðrum útgefendum handritið áður en það er fullbúið og það verður það ekki fyrr en stuttu fyrir útgáfu. - Þetta verður því bara þannig að ég er áfram wannabe hjá mínum ágætu sveittu útgefendum, eflaust bætast einhverjir kaupendur í hópinn, af því þetta verður skáldsaga en ekki smásagnasafn, og af því ég er að verða pínulítið þekktari - en ég verð áfram low profile. Mér finnst það ágætis tilhugsun í bili. Ég á hvort eð er eftir að detta í smásögurnar aftur og mér finnst bara ágætt að vera á mínum skrýtna stað með mitt blogg, mína Skruddu og minn óhefðbundna málflutning og veiða smám saman til mín þá lesendur sem á annað borð eru þess verðugir að ég skrifi fyrir þá.

Ég fór í nudd í dag, í annað skiptið í sumar. Nuddarinn úrskurðaði að ég væri í fínum málum og og bakið á mér í góðu lagi. Það var gott að heyra. Kannski á ég eftir nokkur góð ár í viðbót.

Ég er að hugsa um að lesa Rigningu í nóvember eftir Auði Ólafsdóttur á næstunni. Það stóð nú alltaf til að gera það. Einhver sagði við mig um daginn: "Þetta er dáldið göldrótt stelpa". Og mælti með bókinni.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Fór í fisk til mömmu um sexleytið, skrifaði síðan og las á Súfistanum og er núna niðri í vinnu með skáldsöguskjalið opið. Mamma þusaði um R-listann og náði ekki upp í nefið á sér yfir klæðaburði kvenkyns borgarfulltrúa hans. Ég sagði að í raun ætti Sjálfstæðisflokkurinn að geta malað þetta en það virtist ekkert spennandi vera að gerast hjá þeim. Ótrúlegt að þessi stóri flokkur gæti ekki teflt fram neinu spennandi í borginni. Mamma sagði að nágranni hennar hefði enga trú á Gísla Marteini, hann hefði brosað of mikið í sjónvarpinu til að geta verið tekinn alvarlega. Ég sagði að ef Össur færi fram fyrir Samfylkinguna sem borgarstjóraefni myndi hún vinna kosningarnar. Á móti kemur að mér finnst Össur fínn og gæti vel hugsað mér hann sem borgarstjóra og þar með myndi ég frekar sætta mig við að Sjálfstæðisflokkurinn fengi ekki borgina. Mamma sagði að henni litist vel á Guðlaug Þór. Ég sagðist í rauninni vera alveg sammála henni en hann væri bara ekki vinsæll. Mamma þolir ekki vinstri sinnaðar konur sem eru hippalega klæddar en hún fílar gaura eins og Guðlaug Þór. Ég minntist ekki á Hönnu Birnu; mér fannst það einhvern veginn of persónulegt til að tala um það við mömmu. Ég hefði roðnað of mikið.

Við minntumst ekki á Vilhjálm Þ. Hvort segir það meira um okkur eða hann? Vilhjálmur er annars náungi sem allir myndu treysta til að stjórna borginni vel, röggsamlega og heiðarlega; en fáir myndu treysta til að vinna kosningarnar.

Hádegisskýrsla: Frægir, hálffrægir, ríkir og fátækir

Borðaði niðurlægjandi hádegisverð á salatbarnum í 10-11 vegna þess að ég hef ekki lengur efni á Hressó. Mikil þrengsli innan um láglauna- og skólaungmenni. Til að fullkomna eymd máltíðarinnar gaus upp úr Topps-flöskunni minni og sullaðist út um allt. Eftir máltíðina stóðst ég ekki freistinguna og fór yfir á Hressó til að fá mér latte (og var þar með í raun búinn að eyða of miklu þrátt fyrir að hafa neitað mér um ærlegan hádegisverð). Á Hressó sá ég sjálfan Sullenberger sem sat þar einn og las Viðskiptablaðið. Virðulegur og greindarlegur á svip og minnti fremur á embættismann en bissnissmann.

Á Laufásveginum hitti ég Hildi Lilliendahl. Hún var ærleg og vingjarnleg og við spjölluðum örstutta stund. Skil ekki þessa tilhneigingu mína að skjóta á hana. Það eina sem hún hefur til sakar unnið er að tjá ekki takmarkalausa aðdáun á mér. En hún á eftir að gera það áður en yfir lýkur.

Já!

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1153787 Hver ætlar með mér á tónleika á næsta ári? Erla er ekki nógu áhugasöm um þá.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Þegar maður ræðir við Erp um landsins gagn og nauðsynjar hreyfir hann hendurnar eins og rappari til áhersluauka. Ég veit ekki hvað það er kallað ef nokkuð.

Molar af borði meistarans

Tilvitnunin að ofan er brot af því sem ég skrifaði í gærkvöld. Setningarnar hér að neðan eru síðan um það bil þriðjungur af því sem ég skrifaði í hádeginu:

"Ástæðan fyrir því að hann fór yfirleitt að hugsa um þetta í rúminu nývaknaður var sú að lengi á undan dreymdi hann óljósa drauma sem smám saman urðu að stöðugu mali ungrar stúlku um ágæti hans. Draumarnir leystust upp í vökuhugsanir (en ekki öfugt eins og var svo vanalegt) og þá rann upp fyrir honum að hann kunni bréfið frá henni næstum orðrétt. "

Athugið að hér er ekki rætt um sömu sögupersónu og í tilvitnuninni efst.

Ennfremur er ég með uppkast að útvarpspistli í tölvunni og upphafssetningar hans eru svona:

"Árið 1998 fór ég í lestarferð frá Duisburg í Þýskalandi til Amsterdam í Hollandi. Þetta var snemma morguns og lestin þéttsetin. Margir farþeganna voru Þjóðverjar á leið til vinnu sinnar. Í klefanum sem ég fékk sæti í var maður sem hafði í senn afar kunnuglegt og framandi fas. "

Síðan væri gaman að birta brot úr auglýsingatextum sem ég hef skrifað síðasta sólarhringinn (þó að þeir séu ekki merkilegir) en það er viðkvæmt mál viðskiptalega.

Ég er skrifvél. Ég geri ekkert annað en að skrifa. Skrifa ýmist fyrir þolanlegan pening, lítinn pening eða engan pening. Ég kann ekkert nema að skrifa, ekki einu sinni að keyra bíl. Sem betur fer kann ég a.m.k. að skrifa, þó að ég sé enginn Laxness. En hann kunni líka að keyra bíl. Hann virðist hafa haft algjöra yfirburði á mig á öllum sviðum.

Ekki gat ég þagað lengi. Samt hef ég svo óskaplega lítið að segja. Mér var bara allt í einu að detta það í hug hvað það er fyndið að húmor flestra barna skuli á tilteknum aldri fara að snúast um kúk og piss. Kannski er ég svona hrifinn af þessu vegna þess að ég hef lítið þroskaðri húmor en þetta sjálfur og yfirleitt gengur mér betur að fá börn til að hlæja að minni fyndni en fullorðna.

Ennfremur gekk mér nokkuð vel að skrifa í gærkvöld og er að fyllast dálítilli von um söguna. Samt er svo óendanlega langt í land með að ég geti einfaldlega slegið því föstu að ég sé með gott verk í smíðum. Auk þess á ég uppkast að útvarpspistli í tölvunni en líklega er ég með síðasta pistilinn á föstudaginn. Í kvöld er létt skokk framundan og síðan hjóla ég væntanlega niður í vinnu og huga að textum, lagfæri pistilinn og tekst vonandi að komast eitthvað áleiðis með söguna.

Bloggþörfin horfin í bili. Spái 20-30 klst. hléi.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Hvers vegna vantar lokakaflann í ákærubirtingum Baugsmanna í blöðunum? Er eitthvað í þeim kafla sem kemur ekki eins vel út og erfiðara er að skýra á prenti?

Ákærurnar virðast flestar ganga út á það að menn hafi umgengist hlutafélag eins og einkafyrirtæki og þar með troðið á öðrum hluthöfum. Það særir e-n veginn ekki réttlætiskenndina, sérstaklega þar sem fyrirtækið er nú að ég held að fullu í eigu þessara manna, þó að annað hafi gilt um það á þessum tíma.

Þá eru alræmdustu klerkapungar teknir við völdum í Íran og það eftir kosningasigur. Einhver bið á bandarísku lýðræði þar. Mig minnir að byltingin 1979 hafi verið gerð með miklum stuðningi almennings, en þá tók raunar klerkaveldi við af hægri fasísku einveldi. Ef almenningur í múslímskum ríkjum vill ekki vestrænt lýðræði, þá er lítið við því að gera.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Í augnablikinu finn ég fyrir vellíðan, slökun, bjartsýni og áhyggjuleysi. Svona fullkomin augnablik eru sjaldgæf þó að oftast hafi maður það nokkuð gott. Það hlýtur eitthvað slæmt að eiga eftir að gerast. Svona getur þetta ekki verið lengi.

Við tókum 10 km hringinn áðan. Tíminn betri en síðast og meiri vellíðan eftir hlaupið. Ég get slegið því föstu að vera dottinn niður í 106 kg, jafnvel tæplega það. Áttunda kílóið er því örugglega farið en það hefur látið bíða eftir sér síðan í júní. Ekki væri hægt að kalla mataræði mitt megrun undanfarið en bindindið á ákveðna hluti heldur og hreyfingin vex.

Talandi um íþróttir, þá er það KR-ÍBV á eftir. Að duga eða drepast þar.

Ég kann ekki að setja upp e-mail tengil hérna en ef fólk vill eitthvað spjalla beint við mig þá er netfangið agust@islenska.is Þangað mega fara nánari útskýringar á því sem upp kemur í umræðum hér, nú og svo er öllum frjálst að spjalla við mig á þennan hátt um hvað sem er. Aðaltilefnið er samt það ef fólk vill fá skýringu á því hvers vegna komment þess eru þurrkuð út. Ég hef ákveðið að hafa reisn yfir og samræmi í kommentunum og líð enga vitleysu, sérstaklega ekki skítkast og allra síst spam. Ef ég eyði kommenti eyði ég líka kommentum sem sem því tengjast en missa tilgang sinn við eyðinguna. - Eftir stendur raunverulegt málfrelsi en skítkast, einelti, spam og fleira slæmt á einkabloggsíðu hafa ekkert með málfrelsi að gera.

Verið ekki feimin. Ég hef bara gaman af að heyra frá ykkur.