laugardagur, maí 06, 2006

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1199889 22 milljarðar. Nei, takk. Þjóðarsátt, minn breiði afturendi! - Annaðhvort fer innanlandsflugið til Keflavíkur eða flugvöllurinn verður áfram þar sem hann er. Og innst inni vita þetta allir, samt blaðra menn og blaðra og fimbulfamba um möguleika sem allir vita að verða aldrei að veruleika.

Einu sinni svalt ég tvo daga í München. Á öðrum deginum reyndi ungur náungi á lestarstöðinni að betla af mér. Ég varð fokvondur, hvernig dirfðist hann að betla af mér sem hafði ekki étið í tvo daga? Hann hrökklaðist burtu.

Mikið hefði ég orðið glaður að eiga þessa hundraðkallaskúffu þá, en það gat ég auðvitað ekki, ég þurfti að eiga hana núna þegar ég þarf ekkert á henni að halda.

föstudagur, maí 05, 2006

Það er svo mikið af hundraðköllum í skúffunni minni að ég vildi næstum óska þess að ég væri orðinn blankur, því þá yrði ég svo feginn þegar ég opnaði skúffuna og sæi að ég ætti kannski 3000-4000 kall í klinki. En ég verð ekki blankur fyrr en seinna í mánuðinum.

Þessu hugsun nær dýpra og er mjög þrálát hjá mér, allt frá því ég skrifaði söguna Eiginkona þýskukennarans.

Ég er dálítið hissa á því að Egill Helga er einn af þeim sem æpa aftur og aftur að allt sé að fara til fjandans í efnahagsmálum. Samt virðist manni margt benda til þess að það sé bara heilbrigð og eðlileg niðursveifla framundan, svipuð og 2001-2002, kannski vægari. En hvað veit maður svo sem?

fimmtudagur, maí 04, 2006

Kvenvæðing klámsins

Fyrir það fyrsta vil ég taka fram að ég er enginn siðapredikari og ég veit ekkert hvort hugtakið klám á rétt á sér (Frank Zappa sagði í viðtali þegar árið 1968: "I don´t think pornography exists") né vil ég góla á torgum: klám, klám, klám! - En annaðhvort hafa almenn siðferðisviðmið breyst eða þá að klámið er farið að þrengja sér inn á ólíklegustu stöðum.

Eins og við vitum öll er sjálfsfróun karla sóðaleg og viðurstyggileg á meðan sjálfsfróun kvenna er ljóðræn og háleit. Þess vegna eru kynlífshjálpartæki karla meira og minna ólöglegt myndefni sem grundvallast á misnotkun kvenlíkamans en kynlífshjálpartæki kvenna eru uppbyggilegar vörur sem sífellt er fjallað um í fínum blöðum.

Erkimynd klámsins er klámbíó þar sem áhorfendurnir eru laumulegir karlar í rykfrökkum. Þetta klám villir ekki á sér heimildir. Í bókabúðum eru seld dónaleg plöstuð blöð sem einmana karlar og unglingspiltar kaupa sér í flýti og hlaupa með í felur. Þar eru líka virðuleg tískublöð sem huggulegar og smart konur taka með sér upp á Súfistann og fletta á meðan þær drekka þar Cafe Latte. Eflaust þætti afar óviðeigandi að setjast þar með klámblað og fletta upp á síðum með útglenntum stelpum og stífum skaufum, enda dettur engum það í hug. En hvert er nú efni blaðanna sem fínu konurnar eru að lesa? Aðalgreinin í nýjasta Cosmopolitan heitir Sex Swap og þar er greint frá fjórum pörum sem blaðið lét víxla mökum til kynlífsleikja í eina viku. Helsta einkennið á klámvæðingu nútímans er sú viðleitni að breyta siðferðisgildum í formi meginstraumsumfjöllunar. Sjónvarpsþættir eins og Sex and the City, Bachelor, Ástarfleyið, L-Word og stór hluti kynlífsumfjöllunar erlendra tískublaða skora almenn siðferðisviðmið á hólm. Neytendur þessa efnis eru í miklum meirihluta konur.

Vel má vera að þetta efni lýsi kynlífi framtíðarinnar og ég sé einfaldlega einni kynslóð of gamall til að meðtaka þessa nýju standarda. En ef svo er ekki, þá er þetta bara klám. - Ef það er klám að sýna nærmyndir af kynfærum eða einfaldlega nakið fólk í samförum, þá er Sex and the City örugglega líka klám og Cosmopolitan, og titrarakynningar í heimahúsum og allur fjandinn annar.

Gamla klámið viðurkennir að það er á skjön við siðferðisviðmiðin og leitast við að leynast í skúmaskotum. Kvennaklámið ræðst hins vegar á viðtekin siðferðismið og reynir að læða inn nýjum viðmiðum: veröld þar sem tryggð milli para er úrelt, fólk stundar hópkynlíf, allar konur eru tvíkynhneigðar og með kynlífshjálpartæki á heilanum.

Mér er það ráðgáta hvers vegna þetta er orðið svona og hvers vegna það hefur gerst svona umræðulítið. Feministahreyfingar berjast hástöfum gegn vændi og karlaklámi en hafa þær ekkert að segja um þessa tegund af klámi? Líklega ekki, því hún er kvenfrelsi sem slíku ekki hættuleg. Hún er hins vegar ógn við þau siðferðissjónarmið sem fjölskyldulífið grundvallast á.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060504/FRETTIR01/60504031/1091
Ég vil ekki gera lítið úr kynferðisofbeldi né öðrum þjóðfélagsmeinum en ég er orðinn leiður á því að fá sífellt framan í mig groddalega tölfræði án þess að fá að vita hvað stendur á bak við hana. Allir vita innst inni að þessar tölur standast ekki. Verstu afskræmingar markaðssamfélagsins koma fram í því að líknarsamtök afbaka staðreyndir, reyna að mála skrattann eins ljótan á vegginn og hægt er til að skaffa sér atvinnu og fjármagn.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Ég er loksins farinn að fíla stílinn á sögunni minni. 100 svona blaðsíður og málið er leyst:


Hann aðgætti tölvupóstinn. Það var komin grein frá Hallgerði. Hún spurði hvenær greinin myndi birtast, rétt eins og birting hennar hefði þegar verið samþykkt, hvað hún fengi mikið greitt og hvenær. Honum fannst skyndilega svo óþægilegt að vita af gula miðanum í veskinu að hann náði í hann og fleygði í ruslafötuna. Hann opnaði viðhengið frá Hallgerði og byrjaði að lesa en gat ekki fest hugann við efnið því miðinn í ruslafötunni fyllti hann angist. Loks þoldi hann ekki við, rauk fram með fötuna, tók lyftuna niður í kjallara, fór út í port og hvolfdi úr fötunni í grænan sorpgám. Andstuttur horfði hann upp í gluggana en þar var hvergi hreyfingu að sjá. Það var hlýtt í veðri en sólarlaust. Nokkur lágreist bárujárnshús römmuðu af bakgarðinn á móti skrifstofubyggingunni, ofan á einu þeirra var ryðguð loftnetsgreiða og þar hafði hópur smáfugla raðað sér. Um leið og hann varð þeirra var þyrluðust þeir upp í loftið eins og rykagnir og flugu út í buskann. Litlu garðarnir við bárujárnshúsin voru óhirtir og grasvilltir. Upp í hugann skaut grænu veggfóðri með blómamynstri. Hann hafði farið barnshöndum um vegginn og einhver fullorðinn talaði blíðlega til hans. Hann hafði verið dæmalaust þægur drengur og móðir hans þreyttist ekki á því að hrósa honum fyrir það. Honum þótti veröldin hættuleg. Einu sinni stóð hann á strætisvagnabiðstöð þegar tveir töffarar á amerískum kagga stoppuðu þar með bremsuískri, farþeginn teygði bólugrafið andlit út um gluggann og sagði: “hey, þú mátt eiga þetta” og grýtti mjólkurhristingi í pappamáli að honum, ljósbleikar slettur lentu á skónum hans.

Skárri brot í buxum dagsins.

Fólk í kringum er alltaf að tala um eitthvað sem ég hef ekki áhuga á.

Ég tók smásagnasafnið Beyond the Pale eftir William Trevor af bókasafni í gær. Hann bregst sjaldan. Það hljómar heimóttarlega en ég virðist þurfa að halda mig við "mína" höfunda til að verða ekki fyrir vonbrigðum.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Kostir og gallar

Brotin eru farin úr buxunum mínum. Það er andstyggð. Ég er of latur og óverklaginn til að vera snyrtipinni.

Ég sá Tinnu Ævarsdóttur áðan. Hún var með prjónahúfu á höfðinu sem af einhverjum ástæðum gerði hana líkasta gamalli konu. Síðan sá ég framan í hana, hún brosti og veifaði ákaflega - þá líktist hún barni. Hún á eftir að hata mig fyrir að skrifa þetta.

Ég gaf blóð í dag. Optimal blóðþrýstingur, optimal púls.

Bráðum fæ ég nýja tölvu.

Tölvan sem ég nota er hræðileg. Vegna hennar hef ég ekki getað bloggað fyrr í dag og lyklaborðið er þannig að ég get ekki skrifað Muenchen rétt.

Bráðum fer ég til Muenchen.

sunnudagur, apríl 30, 2006

Ég fór út í Gróttuvita í dag með hluta af stórfjölskyldunni. Þangað lá stríður straumur fólks. Ég er annars merkilega lítill náttúruunnandi, galli sem e.t.v. stendur mér fyrir þrifum, og hef lítið um ferðina að segja.

Í gær fór ég með Kjartan á æfingaleik KR og Grindavíkur (2-0) í Egilshöllinni. Ég man ekki almennilega eftir veturinn hversu slakur eða góður íslenskur fótbolti er og því finnst mér erfitt að meta KR-liðið eftir þennan leik. Mínir menn voru vissulega betri aðilinn en knattspyrnan var ekkert sérstök. Mér finnst eins og KR hafi ekki enn jafnað sig eftir brotthvarf Veigar Páls og þó að hann hafi verið framherji finnst mér alltaf eins og það skarð þurfi að fylla með betur spilandi miðjumanni en finnst í liðinu núna. Ég held að meiri varnartaktík myndi henta liðinu eins og það er samsett núna, en þó ber að hafa í huga að ég hef þrátt fyrir allt ekkert vit á fótbolta. Man hins vegar að Atli Eðvaldsson lét liðið pakka í vörn 1998 og vann út frá því. Árangurinn var eftirminnilegur.

Á Fálkagötunni áðan hitti ég Eirík Guðmundsson sem var að bóna bílinn sinn. Ég hafði orð á því að á 8. áratugnum hefði maður í hans stöðu ekki komist upp með slíka iðju. Hann samsinnti því en benti á að tímarnir væru breyttir. Um það vorum við sammála. Við ræddum síðan stuttlega um stjörnuþýðandann Rúnar Helga sem líklega fer að birtast reglulega í Séð og heyrt úr þessu.

Ég er enn dálítið hugsi yfir brotthvarfi DV. Þó að óneitanlega sé það léttir fyrir hinn almenna borgara að eiga ekki á hættu að lenda á forsíðu blaðsins vegna sjálfsfróunar eða þess að eiga í peningadeilum við einhvern þá minnist ég líka forsíðufrétta um handrukkara, svefnnauðgara og heimilishrotta, glæpa sem nú munu hugsanlega aftur liggja að mestu í þagnargildi.


Kveð veturinn með þessari mynd, sem tekin er í barnaafmæli í desember. Sá tími er tryggilega að baki og í dag settum við trampólínið upp í garðinum. Allt líður þetta undrahratt.