föstudagur, september 09, 2005

http://www.visir.is/?PageID=90&NewsID=53922 Fólk er fljótt að bregðast við geðheilsuádrepunni.

Ég fór á 6 ára bekkjarkynningu í Melaskóla í gær. Þar sem við fórum á sambærilega kynningu þegar Freyja að byrja í skólanum þá slepptum við ratleiknum sem hófst eftir klukkustundar fundarhöld. Andrés Magnússon, íklæddur tveed vestisjakkafötum, fór fyrir sínum hópi í ratleiknum og gustaði mjög af honum.

Í hádeginu borðaði ég með Eyvindi á Ruby Tuesday.

fimmtudagur, september 08, 2005

Það standa yfir miklar endurbætur utanhúss á Laufásvegi 49 sem hýsir Íslensku auglýsingastofuna. Þessu fylgir mikill hávaði en það verður maður að umbera og bíða þessi ósköp af sér. Flestir verkamennirnir eru ungir og flestir þeirra reykja. Þeir eru yfirleitt með logandi sígarettu í munnvikinu á meðan þeir vinna. Þetta er augljóslega meðvitaður stíll sem minnir á fortíðina. Hvort sem okkur líkar betur eða verr verðum við að kalla þetta menningu.

Ég hef áður minnst á nostalgíuna sem grípur mig við að horfa á Staupastein. Hún var sérlega mögnuð í gærkvöld. Mér fannst vera 1989 eða eitthvað. Ef ég hefði horft fram í tímann þá og séð sjálfan mig árið 2005 hefði ég líklega orðið nokkuð ánægður: starf á auglýsingastofu, hreint sakavottorð, næm ungmenni sjá mig á reiðhjóli og lesa bækurnar mínar í kjölfarið, mannvænleg börn og ýmislegt fleira. Það eina sem er sorglegt við þetta er bara hvað tíminn líður, lífið þýtur áfram.

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=53762 Ég verð að segja eins og er að mér finnst þessi málflutningur vera óttalegt væl, e-k blanda af pólitískum réttrúnaði og þrýsihópsbaráttu.
Háskóli er harður heimur rétt og eins og lífið og þar er ekki hægt að halda í hendurnar á fólki eins og í leikskóla.

Mér finnst eðlilegt og æskilegt að Willum Þór Þórsson verði næsti landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Sjáið varnarleikinn hjá Val, munið eftir stemningunni hjá KR 2002 sem sífellt tryggði sér sigur á lokamínútunum.

Eitthvað hef ég átt erfitt með að festa hugann við lesefni undanfarið og finna mér sögur sem mig langar til að lesa. Ég opnaði Iain Rainkin í gærkvöld en eftir hálfa síðu hugsaði ég: Glæpasögur eru góðar en ég nenni ekki að lesa þær. Þær bjóða ekki upp á þá sensasjón sem ég er að leita að. Áður horfði ég á Law and Order og það er góður þáttur, sólíd eins og Davíð Oddsson en kannski ögn fyrirsjáanlegri.

Ný tilvitnun

Þetta er svo sem enginn myndavélarstíll en stundum verður maður að segja hvað persónan er að hugsa og mér finnst það sem er að brjótast um í henni núna spennandi.

Stórtíðindi dagsins gera mann orðlausan. Foringinn hefur sagt af sér og af einhverjum ástæðum hefur maður ekkert um málið að segja. Er bara hálfringlaður. En þetta var orðið tímabært. Líklega setti hann endapunktinn á hárréttum tíma.

miðvikudagur, september 07, 2005

Dómur Þórfreðs

http://thorfredur.blogspot.com/2005/09/gst-borgr-og-strkarnir.html

Ég var að gera það sem einhver kallaði stærstu mistök í sögu stofunnar. Um er að ræða mistök í prófarkalestri. Þetta kemur í kjölfar vel heppnaðrar skorpu í auglýsingaskrifum. Vonandi snjóar fljótt yfir þetta.

Í Fréttablaðinu í dag er vitnað til ummæla Kolbrúnar Bergþórsdóttur um hugsanlega vinstri stjórn. Ég er einmitt að vona að meirihluti manna reynist á endanum vera fólk með common sense sem geti ekki hugsað sér vinstri stjórn með tilheyrandi óstjórn í efnahagsmálum. Það er skiljanlegt að fólk vilji einhverjar breytingar og telji hroka einkenna ráðherra sem hafa verið of lengi við völd, en að afhenta fjármálaráðuneytið og annað slíkt flokkum á borð við Vinstri græna og Samfylkinguna, það er auðvitað bara skelfilegt.

Ég er kominn með eitthvert leiðindakvef í nefið, ekki mikið en nóg samt til að valda svefntruflunum og draga úr almennum lífsgæðum eins og það er orðað svo faglega nú til dags. Annað er á beinu brautinni, skáldsagan og mataræðið t.d.

þriðjudagur, september 06, 2005

Nú heiti ég á sjálfan mig að taka mataræðið aftur föstum tökum. Ég fitna svo sem ekki af þessu smásvindli á meðan hreyfingin er góð en mig langar til að klára þetta mál og það er orðið meira en tímabært. Nú vaki ég yfir hverjum bita.

Eru þetta einu áhyggjurnar í lífinu?
Já, eiginlega.

Þannig getur það ekki gengið endalaust. Er á meðan er.

mánudagur, september 05, 2005

Meistarans harðasti krítíker

Morgunhjal. Hefst við rúmstokkinn og færist inn á baðherbergi.

Erla: Þú ert að sumu leyti þroskaður og að sumu leyti mjög vanþroskaður. Þú hlýtur að teljast misþroska.
ÁBS: Hvernig er ég vanþroskaður?
Erla: Til dæmis í sambandi við dauðann. Þú getur ekki talað alvarlega um dauðann, ef það er minnst á hann ferðu í kerfi og svarar með barnalegum húmor.
ÁBS: Eitthvað fleira?
Erla: Þú ert líka vanþroskaður í sambandi við börn. Þú heldur að börn séu til að skemmta þér.
Þess vegna leikurðu þér ekki beint við þau heldur þeim. Stundum.
ÁBS: Eitthvað fleira?
Erla: Þú ert líka hrokafullur. Þú hæðist að fólki fyrir að gera eitthvað sem þú kannt ekki og getur ekki lært, t.d. að baka rúgbrauð og smíða.
ÁBS: Hef ég þá enga kosti.

Hik og mjög löng þögn.

Erla: Jú, þú ert góður í íslensku.

_________________________________

It´s Hard með The Who er æðislega skemmtileg. Þar er funk-lagið Eminence Front. Ég og krakkarnir dönsuðum við það í gærkvöld; Freyja dansaði þá gríndansinn sinn sem felst í því að skjóta út rassinum taktfast.

Ég skrifaði tvær blaðsíður í gær (ca. 800 orð) og verð frameftir í kvöld. Þetta eru því nokkuð góðir dagar fyrir söguna. Ég skokkaði bæði laugardag og sunnudag og mér virðist ég vera kominn í betra form en í Reykjavíkurmaraþoninu. Mér líður stundum eins og lungun í mér hafi víkkað mikið. Ég er því miður að klikka af og til á mataræðinu en harma hvert hliðarspor og missi mig ekki. Leggist nú góðar sálir á eitt með að styðja mig með þetta í huganum svo ég skafi af mér sirka 5 kíló fyrir áramótin.

P.s. Ég nenni ekki að fá meira bull í kommentakerfið. Ég sleppti þessu lausu um helgina og því miður var það misnotað. Og þetta p.s. er ekki umræðupunktur.

sunnudagur, september 04, 2005

Hversdagsleikinn yrkir sjálfur sitt ljóð

Skrapp í Kolaportið áðan og keypti Who-disk (It´s Hard) fyrir slikk. Skoðaði gamlar VHS. Á eina vantaði kynningarumslagið og utan á hvítt hulstrið hafði verið skrifað með svörtum tússpenna: American Ninja II. - Níundi áratugurinn hríslaðist um mig, ótal skammdegismorgnar, samborgarar á förnum vegi með færri hrukkur og öðruvísi hárgreiðslu en í dag, tvíhnepptir jakkar, ungt fólk aftur orðið að börnum ... Fegurð lífsins gagntók mig í tómleika sínum.

Heyrðu. Haldiði að ég sé ekki búinn með auglýsingatextana! Nú get ég farið að skrifa fyrir glatkistuna!

Var að mæta í vinnuna á sunnudegi þar sem mín bíður nokkuð stórt textaverkefni (ég er hættur að þora að nefna viðskiptavinina hér, óttast að það gæti mælst illa fyrir). Takist mér að ljúka því á skikkanlegum tíma get ég snúið mér að skáldsögunni.

Samkvæmið heppnaðist afar vel á föstudagskvöldið. Mér virtist strákunum lítast svona þokkalega vel á kaflann minn þó að þeir væru með einhverjar aðfinnslur. Gott að vera búinn að viðra eitthvert efni úr sögunni, þá verður hún raunverulegri fyrir mér sjálfum og trúin á að geta lokið henni eykst. Eyvindur las las kafla sem menn voru hrifnir af. Hann er hörkustíllisti og kraftmikill penni. Benni kom og sagði okkur frá Vestfjarðasundinu. Ég spurði aftur og aftur að hvers vegna í ósköpunum hann væri að þessu. Hann hló að því og sagði spurninguna út í hött. Hvers vegna skrifaði ég og bloggaði? Varla hefði ég mikið upp úr því.