laugardagur, desember 24, 2005

Fornbókabúð Braga og Ara Gísla á Hverfisgötu er eitt af því fáa sem skapar evrópska borgarstemningu í Reykjavík. Kom þangað við á Þorláksmessukvöld og keypti heildarsafn Maupassant á 600 kr. Það furðulega er að ég hef lítið sem ekkert lesið eftir Maupassant til þessa. Ari Gísli gaf mér snafs þegar hann afgreiddi mig.

Í hvert sinn sem brauð er ristað hér þarf að slökkva á ljósunum í seríunni á handriðinu fyrir utan vegna þess að hún deilir innstungu með brauðristinni.

Skriftir og skokk fóru í vaskinn síðustu daga fyrir jól. Nú styttist í að þetta streð sé á enda og hægt verði að njóta jólanna. Það ætla ég að vona a.m.k. Við skokkuðum reyndar í dag í stórgóðu veðri.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Alveg er þessi kjaradómur skelfilegt fyrirbæri. Eru menn að úrskurða sér í mjúkinn hjá valdastéttinni? Einar Oddur er sjálfum sér samkvæmur þegar hann leggur til að úrskurðinum verði hnekkt og fordæmi borgarstjóra er til fyrirmyndar; alveg skaðlaust þó að það hjálpi henni í prófkjörsslagnum, hún á það bara skilið.

http://www.bokmenntir.is/hofundur.asp?cat_id=939&module_id=210&element_id=1263&author_id=75&lang=1 Óvenjuvönduð grein um Rúnar Helga Vignisson.

Það má vel vera að ég sé kominn í stutt jólafrí hérna á þessari síðu. Enginn fjölskyldumaður fer varhluta af jólaveseni en ég nenni ekki að blogga um normannsþin, jólaskraut og innkaupaleiðangra.

mánudagur, desember 19, 2005

Ég hef lítinn áhuga á sjúkdómum en samt ætla ég að lesa bókina hans Ingólfs Margeirssonar í kvöld enda er látið fjarskalega vel af henni víða.

Í dag uppgötvaði ég að dagatal á ensku er skrifað calendar en ekki calender.

Ennfremur opinberaðist mér ójöfnuður mannlífsins í útliti og hæfileikum uppi á Hlemmi í hádeginu þar sem Garðar Corthes yngri á Kaffi Roma var fulltrúi annars ásins.

Síðast en ekki síst fékk ég jólaklippinguna í dag.

sunnudagur, desember 18, 2005

Meðal frægra (þokkalega)

Það er frumherjastemning á NFS í Skaftahlíð, allt í stressi og allt í hers höndum. Egill bað mig taugastrekktur að koma með bókastafla til sín inn í stúdóið. Þrátt fyrir stressið gekk allt snuðrulaust fyrir sig. Hannes Hólmsteinn heilsaði mér afar vinsamlega að fyrra bragði, ég hef ekki hitt hann áður, merkilegt nokk; hann sagðist hafa lesið eftir mig. Augljóslega hef ég einhvern tíma bloggað mig í mjúkinn hjá honum. Flestum þótti tíminn stuttur að þessu sinni enda var mörgum bókum sinnt og þarna saman kominn stór hópur kjaftaska. Halldór Guðmundsson bauð mér far eftir útsendingu niður á Laufásveg, líklega var hann á sama jeppanum og ég stakk mér upp í gleraugnalaus árið 2001, þegar ég hélt að hann væri Páll Þorsteinsson. Við ræddum eitt og annað á leiðinni, flest fellur sjálfkrafa undir trúnaðarskilgreininguna en þó er freistandi að láta þess getið að Halldór fór nokkuð fögrum orðum um Kristjón Kormák, þykir hann vera snjall piltur.