http://www.mbl.is/mm/frettir/forsida/2008/09/26/bubbi_hefur_gert_betur_en_a_konu/Einu sinni horfði ég langt viðtal á Youtube við Pete Townshend þar sem hann ræddi um smelli og eðli þeirra, dægurlög sem verða feikilega vinsæl og halda vinsældum sínum, verða sígild. Townshend hefur oft reynt að semja slík lög en ekki tekist það neitt mjög oft. Mörg af lögunum hans sem áttu að verða vinsæl urðu það ekki en ég nýt þess að hlusta á þau. Nokkur hafa hins vegar orðið að sígildum smellum og eitt þeirra er "Pinball Wizard". Townshend segist hafa áttað sig á því strax að hvað hann var með í höndunum þar. Bara forspilið í því lagi grípur jafnvel unga krakka í dag sem hafa annars engan áhuga á Who. Þetta sígilda, grípandi og ofsavinsæla í sumum dægurlögum er óskilgreinanlegur galdur og er alls ekki það eina sem getur gert tónlist góða. Margs konar önnur tónlist er góð en sígildir smellir. Þeir eru hins vegar ólíkir annarri góðri tónlist að því leyti að þeir falla næstum öllum í geð, grípa að minnsta kosti huga allra sem hlusta.
Frank Zappa samdi smellinn Bobby Brown í hálfkæringi en lagið er hans mesti smellur, nokkuð sem fer í taugarnar á mörgum Zappa-aðdáendum því þetta lag segir svo lítið um tónlistarmanninn Frank Zappa. Það er engu að síður mjög gott. - Annað lag eftir Zappa, mjög ólíkt, Andy, af plötunni One Size Fits All, er lag sem Zappa-aðdáendum finnst að hefði átt að slá í gegn, þeir jafna því saman við Stairway To Heaven með Led Zeppelin. En Andy sló ekki í gegn, það vantaði þennan óskilgreinanlega galdur sem gerir sum lög þannig að allir elska þau og allir þekkja þau. Öll sú plata, One Size Fits All, er hlaðin lögum sem hefðu kannski átt að geta orðið sígild, en urðu það bara alls ekki, því platan seldist ekki vel. Samt er hún ein besta plata Zappa. En stefin af henni eru flestum óþekkt.
Þetta var forspilið að umræðunum um Stál og hníf sem hafa orðið í fjölmiðlum rétt undir helgina. Það er örugglega ekki uppáhaldslagið mitt. En það hvarflar ekki að mér að gagnrýna það. Stál og hnífur er sígildur smellur, hluti af þjóðarsálinni, og það er asnalegt að setjast niður í dag, kryfja sundur textann, benda á þetta og hitt og segja að hann sé klunnalega ortur. Sé textinn illa ortur, gott og vel: það skiptir engu máli! Þessi texti virkar. Hvert einasta orð. Lagið virkar, hver einasti tónn. Það er asnalegt að setja út á það. Ég meina: það er glatað að hafa hafnað Bítlunum - en að hafna þeim eftir á, væri til eitthvað heimskulegra?