föstudagur, maí 23, 2008

Óráð og hlaupastíll

Allar líkur eru á því að raunbesta aðferðin mín til að semja skáldsögur og lengri smásögur sé að byrja alltaf upp á nýtt, leitast við að hafa textan fágaðan alveg frá byrjun en sleppa honum lítt út í hráleika. Hljómar ekki gáfulega en virkar. En það gerist ekkert hjá mér fyrr en það er komið andrúmsloft og bara góður stíll laðar fram lifandi andrúmsloft.

Ég mæli ekki með þessu fyrir aðra, ég mæli bara með því að allir noti það sem virkar fyrir þá.

Nýlega tók ég upp á því að breyta um hlaupastíl, þ.e. lenda alltaf á tánum eða táberginu, aldrei hælunum. Það tók mig bara einn skokktúr að venja mig af hælalendingum. Hins vegar var e-n tíma kynnt í sjónvarpinu námskeið í þessum hlaupastíl, þannig að ef það þarf námskeið til að nema hann, er ég eflaust ekki að gera þetta alveg rétt. Það breytir ekki því að ég hleyp töluvert hraðar eftir þetta. Hlýt ég því, ólíkt því sem gildir um vinnuaðferðir við sagnagerð, að mæla með þessari aðferð fyrir alla skokkara.

Um hægri umferð

http://www.visir.is/article/20080523/FRETTIR01/947140970

Við töluðum um efni ofangreindrar fréttar í vinnunni í dag.

ÁBS: Ég man eftir þessum degi. Ég horfði á hvíta gluggakistuna og ég horfði út um gluggann. Og pabbi og mamma voru að tala um þetta.

Birgir: Ég man þetta líka.

Ása: Mikið rosalega er ég ung!!!!

ÁBS: Ég var fimm ára.

Finnbogi: Ég var úti að keyra.


Finnbogi var að grínast

Þykist nú kjellinn hafa áhuga á umhverfismálum?

Nei. Kannski hef ég bara áhuga á orkumálum. Þó hélt ég ekki.

Það hefur verið auðvelt að sannfæra mig í dag. Ég var að prófarkalesa dálítið efni í vinnunni, ekkert allt of vel skrifað, sem skiptir ekki máli, en þó nægilega vel orðað til þess að ég sannfærðist um að rafmagnsbílar væru framtíðin. Sérstaklega á Íslandi. Nærtækari lausn en bættar almenningssamgöngur.

Síðan las ég með hálfum huga hálfan leiðara í Mogganum og eftir það þykir mér núverandi fyrirkomulag orkumála á ýmsan hátt fáránlegt. Að sveitarfélög á Íslandi séu í samkeppni um að bjóða erlendum iðnjöfrum sem lægst orkuverð. Það ætti að vera öfugt. Og verður öfugt.

Íslendingar hafa sérstöðu þegar kemur að yfirvofandi olíuskorti. Og jafnvel sérstöðu hvað snertir matvælaskortinn. Evrópuverð á matvælum er frasi frá 2007. Forsendur eru allar að breytast.

Það þarf mikið klúður til að Íslendingum farnist ekki vel í framtíðinni. Við sitjum á orkulindum framtíðarinnar og erum meira en sjálfbær um matvælaframleiðslu.

Skemmtilegur Stormsker

http://www.visir.is/article/20080523/SKODANIR03/195808839 Sverrir Stormsker á í ritdeilum við nokkra miðaldra, vinsæla og virðulega poppara. Hann sakar þá um artarleysi. Poppararnir fínu svara honum lítið og illa. Ég get ekki frekar en aðrir utanaðkomandi dæmt um sannleiksgildið en ásakanir Stormskersins hafa verið illa eða alls ekki hraktar. Og svo skrifar hann með köflum skemmtilega.

mánudagur, maí 19, 2008

Vín og svín

Eflaust hafa þeir sem gerðu sjónvarpsauglýsinguna fyrir Vínbúðina verið ánægðir með verkið enda er auglýsingin flott á sinn hátt.

Skilaboðin eru hins vegar ekki í tengslum við raunveruleikann og mig satt að segja undrar að nokkur skuli bera fram svo úreltan boðskap um áfengismál.

Allir vita að lausnin við drykkjulátum getur ekki verið fólgin í því að fólk fari að drekka fallegar. Það gerist ekki. Sumir kunna með áfengi að fara, aðrir ekki. Þeir sem geta ekki drukkið eðlilega þurfa að hætta því og það er þrautin þyngri. Það er marklaust og hlægilegt að vínsali sé að senda frá sér skilaboð um að fólk fari hóflega með vín. Það gera menn af sjálfsdáðum, eða ekki. Þeim sem gera það ekki er svo sannarlega ekki bjargandi með hófdrykkjuboðskap frá ÁTVR. Sá boðskapur hefur nákvæmlega engin áhrif.

sunnudagur, maí 18, 2008

Galdur

Fyrir stuttu síðan var miðborgin skelfileg. Kannski er hún það ennþá, en samt ...

Síbirta, 1000 barnsandlit, rauður kofi ofan í Tjörninni - breyta ótrúlega miklu.

Það þarf ekki lengur að reyna að útskýra fyrir útlendingum vandræðaganginn og aðgerðaleysið á Lækjargötu/Austurstrætishorninu eftir brunann 2006. Þeir spyrja einskis, þeir horfa bara fullir aðdáunar og undrunar á barnsandlitin.

Og rauða húsið oní Tjörninni er svo stórkostlega skemmtilegt í einföldum ankannaleika sínum að það dregur athyglina glettilega mikið frá öllu veggjakrotinu, ósamstæðninni og niðurníðslunni í miðbænum.

Þetta eru galdrar. Listræn hugsun fremur töfra. Sáraeinfaldar "aðgerðir" breyta allri ásýnd miðbæjarins um stund.

Hlýtt veður, bjartviðrið og grænkan spilla heldur ekki fyrir.