laugardagur, maí 01, 2004

Við erum skyndilega að verða mikil auglýsingafjölskylda hér á Tómasarhaganum. Búið er að teikna storyboard af hugmyndunum mínum fyrir slysavarnadeild Lýðheilsustöðvar og allt stefnir í að ég skrifi fyrir þá á endanum 4-5 sjónvarpsauglýsingar. Freyja fer á morgun í tökur vegna nýrrar auglýsingar um Landsbankadeildina, ég nauðaði í Danna í nokkurn tíma út af þessu.

Ég hef vaxið töluvert í áliti hjá Freyju með því að vinna á auglýsingastofu. Hún hefur aldrei gefið mikið fyrir þessi bókaskrif, visir.is var o.k. en freelancið í fyrra og hitteðfyrra vakti tómlæti. Nú og þegar ég vann í símatorginu var hún sem betur fer allt of lítil til að vita hvað ég var að framleiða og ég forðaði mér þaðan þegar hún var að byrja í grunnskóla. Einu sinni sat ég áhyggjufullur á skrifstofunni minni í DV-húsinu í Þverholti, þetta var líklega síðvetrar 1997. Ég var farinn að fá ungar stelpur til að lesa bláar sögur sem ég hafði skrifað og stynja dálítið inn á segulband. Viðtökurnar voru frábærar (klámbylgjan var kannski enn ekki riðin yfir landið), ég var í þann veginn að forða fyrirtæki sem ég hafði tekið við frá gjaldþroti með þessu tiltæki og eyddi yfirdrætti þess á nokkrum misserum, en Samgönguráðuneytið og Póstur og sími voru ekki ánægð; fólk gaf mér hornauga á göngunum á DV osfrv. - Ég óttaðist að sjoppunni yrði lokað og ég jafnvel kærður. Það eina sem leit vel út var rekstrarstaðan á fyrirtækinu. Og einn daginn kemur Erla að sækja mig úr vinnunni og gengur ásamt Freyju inn á skrifstofuna til mín. Freyja benti á stóru símtölvuna sem notuð var til að vista efnið og sagði stolt: „Babbi á“. Blessað barnið sá vitaskuld ekkert athugavert við starf mitt.

Auglýsingaheimurinn er hlýtt og mjúkt skjól, launatékki um hver mánaðamót og maður fær klapp á bakið bara fyrir að standa sig sæmilega, nýta brotabrot af þeirra hæfni og kunnáttu sem botnlaus og áralangur þrældómur við smásagnagerð hefur fært mér.

Það er merkilegt hvað tískan blífur. Blogg er in. Ég hélt að enginn myndi lesa þessa síðu en annað hefur komið á daginn. Í dag fá skrifin myndarlega umfjöllun í Fréttablaðinu enda tilefnið það að ég var að kveða upp dóma um félaga mína í ritlistinni, slíkur kjaftháttur er útdauður meðal rithöfunda og þar með fréttnæmur. Árið 2001 vann ég sigur í smásagnasamkeppni sem 350 manns tóku þátt í, þar á meðal Einar Kárason sem varð í öðru sæti; verðlaunaféð var 250 þús. kr. sem var nokkurn veginn síðasta færslan á yfirdrætti hins þá gjaldþrota rekstrarfélags Strik.is Keppnin var auglýst með miklu brambolti á sínum tíma. Ekki var nokkur leið að fá umfjöllun um afrekið í Fréttablaðinu þetta vor og gilti einu þó að ég ætti vini þar á ritstjórninni, það var bara verra; og ekki tók betra við þegar bók kom út eftir mig um haustið með verðlaunasögunni ásamt fleirum. Á hinn bóginn birtist um þetta leyti viðtal við einhvern strákling sem hafði unnið stuttmyndakeppni unglinga og í seinni tíð hefur blaðið þráfaldlega birt viðtöl við einhvern geðsjúkling sem heldur úti netsögu.is, smásagna- og skáldsagnavef eftir sjálfan sig með naívískum stílbrögðum og ódulbúnum órum hins kynsvelta einstæðings. Nú og sjálfur á ég auðvitað miklu greiðari leið inn í Fréttablaðið með bloggi en smásögum.
Eitt af því sem er að gerast með nýjum fjölmiðlum er að svokölluð menningarskrif líða undir lok og enginn greinarmunur er gerður hvað gæði snertir í umfjöllun um menningu og afþreyingu. Viðvaningar skrifa ritdóma (Fór í bíó í gærkvöld ... vinur minn lánaði mér þessa bók og hún er bara svona ágæt) og bara tilviljanir ráða því hvort lesblint og þroskaheft fjölritunarskáld eða alvöruhöfundur fær kynningu þennan daginn. Í Mogganum er enn þessi hefðbundna menningarblaðamennska stunduð og ég velti því fyrir mér hvenær sá dagur rennur upp að hún hverfi alveg. Ég hef alltaf á tilfinningunni þegar ég fletti Lesbókinni að ég haldi á einhverju rariteti, hvert blað geti orðið það síðasta, fyrr en síðar muni fjármálaskynsemi leggja leggja Lesbókina niður eða breyta henni í matreiðslukálf.



föstudagur, apríl 30, 2004

Ég fæ ekki séð að ég skrifi neitt á næstunni, nýbúinn að ljúka við bók sem hangir í lausu lofti hvað útgáfu snertir. Það verður ákveðið frelsi að lesa bækur á næstunni eingöngu til skemmtunar en ekki til að sækja í áhrif. Bandaríkjaferðin er framundan og maður sökkvir sér í hana. Að öðru leyti ætti ég að fá aukinn áhuga á vinnunni. Annars langar mig auðvitað mest til að ganga frá útgáfu, marka þar með ákveðin skil, og byrja á næstu bók.

Var að klára nýja sögu, þessa sem ég byrjaði á um páskana, og hún lúkkar vel, bara fjandi vel. Hún er ellefu síður í handriti, sirka 15 bókarsíður. Þar með er bókinni minni lokið og núna, þessa nótt, er ég að ganga frá handritum til að senda í Laxnessmótið og Tómasarbikarinn í fyrramálið. Þá hjálpar Gunni í vinnunni mér að festa þetta á gorma. Allir á stofunni standa með mér í ritstörfunum og lesa sögurnar mínar af áhuga. Yndislegt fólk. - Þegar og ef bókin mín nýja kemur út þá verður hún mín lengsta bók til þessa þó að ekki sé hún löng, hún ætti hæglega að geta farið upp í 150 síður.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Stigveldi verkefna. Nokkuð lengi hef ég sagt að ég legði öll verkefni á auglýsingastofu að jöfnu. En undanfarið hafa verkefnin verið óvenjulega fjölbreytt og nú verð ég víst að viðurkenna að þau eru misskemmtileg. Eiginlega er þetta svona:

Ef ég er að skrifa smásögu og einhver truflar mig og biður mig um að skrifa sjónvarpsauglýsingu, þá verð ég pirraður

Ef ég er að skrifa sjónvarpsauglýsingu og einhver truflar mig og biður mig um að skrifa blaðaauglýsingu, þá verð ég pirraður.

Ef ég er að skrifa blaðaauglýsingu og einhver truflar mig og biður mig um að prófarkalesa eitthvert drasl, þá verð ég pirraður.

Annars er ég yfirleitt kátur.

Mín saga ásamt Rúnars Helga, Kristínar Marju og Einars Arnar, virðast bera af í 23. apríl. Sumar sögurnar þarna eru ekki boðlegar, hálfgerður skandall. Fólk er að tala um þetta, ekki síst vinnufélagar mínir. Þarna spilar auðvitað margt inn í, ekki allir þarna vanir að skrifa smásögur, og fyrirvarinn stuttur, en ég var sjálfur hálfnaður með mína sögu þegar mér var boðið þetta. Engu að síður finnst mér pirrandi að rekast á það aftur og aftur, að fólk sem nýtur mun meiri velvildar útgefenda og Launasjóðs rithöfunda en ég, skuli standa mér svona langt að baki. Ég skynjaði þetta líka á upplestrarkvöldinu um daginn þegar ég las Mjólk til spillis. Fann að þetta gat enginn toppað. Það er ákveðin óheppni að hafa lent í þessari stöðu en ég vildi svo sem ekki njóta viðurkenningar sem væri algjörlega innstæðulaus, eins og gildir um suma. Því fólk veit sínu viti og þegar það rekst á fáránlega smásögu þá lætur það auðvitað ekki blekkjast, þó að höfundurinn sé hjá MM og á heilsársstarfslaunum.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Sögum má skipta gróflega í tvennt, höldum okkur við smásögur, því þær eru svo stuttar og einfaldar að þar eru frásagnarelementin hrein og klár: sögur með óvæntum endi og sögur með engum endi. Eða sögur með plotti og sögur sem mynd og afhjúpun. Ég hef ávallt hallast að síðari gerðinni, hún er raunverulegri, líkist lífinu meira. Óvæntir endar finnst mér yfirleitt billegir. Hins vegar er sagan sem ég er að skrifa núna undantekning, hún er fjandakornið öll í plottinu og endirinn óvæntur. Hef oft velt þessu fyrir mér og sé að írski höfundurinn Mary Lavin gerði það líka. Hún skrifaði sögur með litlu plotti, dró upp myndir og lét þær deyja út. Sögurnar hennar eru mjög raunverulegar. En ein sagan er saga með mjög sterku og áþreifanlegu plotti og mjög sniðugum endi. En söguna segir gamall maður smásagnahöfundi í samkvæmi og segir að svona sögur eigi höfundurinn að skrifa, þá nenni einhver að lesa eftir hana. Og þegar hún heldur áfram að segja að lífið sé oftast ekkert plott heldur ringulreið þá biður hann hana um að hætta þessu bulli. Og þannig endar sú saga.

Er að skrifa handrit að tveimur sjónvarpsauglýsingum, slysavarnir fyrir börn. Þetta hefur gengið mjög vel og ég fengið prik fyrir. Ef það birtist eftir mig auglýsing í sjónvarpi þá fær hún þúsundfalt meira áhorf en nokkur smásaga sem ég myndi skrifa. En ég get ekki með nokkru móti jafnað saman fullnægjunni af því að skrifa smásögur og auglýsingar. Það snýst ekki allt um peninga og áhorf eins og sumir virðast halda. Þegar ég ræði ritstörf mín við suma þá tala þeir við mig eins og misheppnaðan bissnessmann. Sjáðu bara Arnald, segja þeir. Þeir sem skilja listir og þeir sem gera það ekki tala ekki sama tungumálið.

mánudagur, apríl 26, 2004

Á hinn bóginn: Ef mig langar til að stofna dagblað á morgun, auðvitað má ég það. Ríkið á ekki að geta bannað það þó að blaðið verði svo vinsælt að allir landsmenn lesi það. Lög á fjölmiðla eru rugl. Á hinn bóginn get ég aldrei borið fullt traust til þess að Fréttablaðið fjalli með hlutlausum hætti um Baug; nú og sumir treysta því ekki að Mogginn fjalli hlutlaust um Sjálfstæðisflokkinn. Það sem gildir er meðvitaður lestur.

sunnudagur, apríl 25, 2004

Þegar menn eru orðnir jafn gríðarlega umsvifamiklir í þjóðlífinu og Baugsveldið þá hlýtur það að kalla einhvern tíma á fjölmiðlaumfjöllun um þá. Því aðsópsmeira sem eitthvert fyrirbæri er í samfélaginu, því áhrifameira og voldugra sem það er, því meiri áhrif hlýtur það að hafa á samfélagið, og því meiri ástæða er til að hlutlausir fjölmiðlar fjalli um það. - En mun sá dagur nokkurn tíma renna upp að Fréttablaðið eða DV fjalli á neikvæðan hátt um Baug þó að tilefni sé til þess? Trúir því nokkur að það gerist? - Þetta er bara innlegg í umræðuna, ég hef ekki myndað mér skoðun á fjölmiðlafrumvarpinu.

Þetta snýst nefnilega ekki um það hvort eigendur eru að stýra fjölmiðlum eða hvort blaðamenn séu heiðarlegir eða óheiðarlegir. Ekki efast ég um heiðarleika þeirra per se, né nokkur annar sem ég þekki. En málið er augljóslega flóknara en svo. - Svo ég spyr aftur: Ef Jón Ásgeir gerðist einhvern tíma sekur um misferli, myndi birtast forsíðufrétt um það í Fréttablaðinu?

"I have ALMOST AS MUCH to say as Einar Örn and God knows, I say it better than LAXNESS." - Ég fékk þessa tillögu að tilvitnun á borð við Mcullers frá Einar Erni Gunnarssyni rithöfundi (Tár paradísarfuglsins, Ormstunga 1998; og margar fleiri skáldsögur; Smásagan Dýrmætasta leyndarmálið í 23. apríl).

Hvað á það að þýða að vera að lesa þessa síðu? Hef verið að fá komment héðan og þaðan, að vísu samtals bara 5 manns, þar af ein manneskja sem ég þekki ekki neitt. Mér fannst einhvern veginn eins og enginn læsi þetta, að þetta væri bloggsíða sem enignn væri búinn að uppgötva og ég gat skrifað án þess að spá í hvort efnið væri gott. Nú fer það örugglega að versna. Eða ég að hafa áhyggjur af aðsókinni, því 5. maí - 2. júní falla skrif niður.

Fór á Hamborgarabúllu Tomma áðan, smáhýsið gamla við Tryggvagötu. Þar er komið fóður í pælingar fyrir Eirík Guðmundsson. Þarna var matstofa upp úr 90', staður sem ég sótti töluvert í hádeginu vegna þess að ég vann í Miðlun við Ægisgötu. Þetta var orgínal búlla, fátækleg matstofa með smurðu brauði, hrukkóttri kellingu og kjötsúpu. Ég hef sjálfur skrifað um svoleiðis búllur í fyrri smásagnasöfnum og haft þar einhverjar óljósar fyrirmyndir úr Vogahverfi. Núna er þetta "meðvituð" búlla. Af ásettu ráði eru alltaf tilkynningar og tilboð krotuð klunnalegum stöfum með svörtum tússpenna á hvít pappaspjöld: það er svona "pró unpró" eða meðvitað "unpro". (Æ, hvað er ég að bulla) En svo eru hamborgararnir frábærir og alltaf troðfullt. Það er m.a. hægt að fá ítalskt lagað kaffi þarna. Er allt endurunnið í og endurskapað í dag? M.a. stemning hinnar hversdagslegu matbúllu?