Við erum skyndilega að verða mikil auglýsingafjölskylda hér á Tómasarhaganum. Búið er að teikna storyboard af hugmyndunum mínum fyrir slysavarnadeild Lýðheilsustöðvar og allt stefnir í að ég skrifi fyrir þá á endanum 4-5 sjónvarpsauglýsingar. Freyja fer á morgun í tökur vegna nýrrar auglýsingar um Landsbankadeildina, ég nauðaði í Danna í nokkurn tíma út af þessu.
Ég hef vaxið töluvert í áliti hjá Freyju með því að vinna á auglýsingastofu. Hún hefur aldrei gefið mikið fyrir þessi bókaskrif, visir.is var o.k. en freelancið í fyrra og hitteðfyrra vakti tómlæti. Nú og þegar ég vann í símatorginu var hún sem betur fer allt of lítil til að vita hvað ég var að framleiða og ég forðaði mér þaðan þegar hún var að byrja í grunnskóla. Einu sinni sat ég áhyggjufullur á skrifstofunni minni í DV-húsinu í Þverholti, þetta var líklega síðvetrar 1997. Ég var farinn að fá ungar stelpur til að lesa bláar sögur sem ég hafði skrifað og stynja dálítið inn á segulband. Viðtökurnar voru frábærar (klámbylgjan var kannski enn ekki riðin yfir landið), ég var í þann veginn að forða fyrirtæki sem ég hafði tekið við frá gjaldþroti með þessu tiltæki og eyddi yfirdrætti þess á nokkrum misserum, en Samgönguráðuneytið og Póstur og sími voru ekki ánægð; fólk gaf mér hornauga á göngunum á DV osfrv. - Ég óttaðist að sjoppunni yrði lokað og ég jafnvel kærður. Það eina sem leit vel út var rekstrarstaðan á fyrirtækinu. Og einn daginn kemur Erla að sækja mig úr vinnunni og gengur ásamt Freyju inn á skrifstofuna til mín. Freyja benti á stóru símtölvuna sem notuð var til að vista efnið og sagði stolt: „Babbi á“. Blessað barnið sá vitaskuld ekkert athugavert við starf mitt.
Auglýsingaheimurinn er hlýtt og mjúkt skjól, launatékki um hver mánaðamót og maður fær klapp á bakið bara fyrir að standa sig sæmilega, nýta brotabrot af þeirra hæfni og kunnáttu sem botnlaus og áralangur þrældómur við smásagnagerð hefur fært mér.