föstudagur, september 23, 2005

Ég gluggaði í nýjasta smásagnasafnið hans Gyrðir á Súfistanum í hádeginu, Steintré. Fyrsta sagan er afskaplega heillandi. Síðan las ég aðra sem ég var ekki alveg eins hrifinn af. Ætla að kíkja á þetta aftur eftir vinnu. Gyrðir er oftast inspírandi með þennan myndræna stíl.

Kjartan fékk tvo vini sína í heimsókn í gær, sýndi þeim tölvuleik og svo var rabbað um Júgeó-myndir og Pókemon-myndir. Ég gat ekki annað en dáðst að því hvað þessir sex ára strákar voru yfirvegaðir og samskipti þeirra fullorðinsleg. Þetta hlýtur að e-u leyti að vera leikskólanum að þakka. Þeim hefur greinilega verið kennt að tala saman þar.

Í dag er jakkafatadagur í vinnunni til heiðurs fatasmekk mínum. Ekki hafa allir tekið áskoruninni en þó ólíklegasta fólk, t.d. nokkrar konur sem eru í jakkafötum og með hálstau. Ég fór í bestu fötin mín í tilefni dagsins.

Erla bauð mér í baðstofuna í Laugum í gærkvöld. Það er óraunverulegur staður, eins og í bíómynd. Í hvíldarstofunni varð ég dofinn af slökun og áhyggjuleysi.

Í morgun þurfti ég að sitja hátt í 2ja klukkustundalangan kynningarfund í Melaskóla. Hvernig fara börn að því að sitja kyrr á rassinum í skólastofu alla daga ár eftir ár? Enginn tölvupóstur, ekkert verið að skreppa frá í kaffi, ekkert blogg ...

Ég þarf að skrifa 6 blaðsíður fyrir mánaðamótin til að halda áætlun í skáldsögunni.

fimmtudagur, september 22, 2005

„Það kom mér á óvart að borgarstjóri hafi þurft að setja minningu skáldsins í samband við einhverja kynjapólitík.“

Kjartan Magnússon

Ég man það ákaflega skýrt þegar skipt var yfir í hægri umferð vorið 1968. Ég var á sjötta ári. Ég man að pabbi og mamma töluðu um þetta við mig og sín á milli og ég horfði á hvítu gluggakistuna við borðstofugluggann á meðan. KR varð Íslandsmeistari þetta sumar en það fór alveg framhjá mér. Ég byrjaði ekki að fylgjast með fótboltanum fyrr en 1971. Kjartan byrjar að fylgjast með KR þegar liðið er í lægð eftir nýlega titla. Ég vona að sú lægð vari skemur en sú sem ég upplifði.

Ég man síðan að sumarið 1969, einn sólríkan dag, þegar við höfðum verið að leika okkur úti og komum inn, líklega í hádeginu, sagði mamma okkur að menn hefðu stigið á tunglið um nóttina.

miðvikudagur, september 21, 2005

Tómas Guðmundsson er ekki kona

Borgarstjóri vill ekki láta reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni borgarskáldi vegna þess að hann var ekki kona.

Meira klukk

Ég klukka líka Hildi og Kristjón Kormák. Ég þekki bara varla fleiri.

Það rignir yfir mig tilboðum: blaðagreinar, upplestrar og glæpaseríur. Ég verð alveg tómur í kollinum þegar sú hugmynd er viðruð við mig að taka þátt í að skrifa glæpaseríu. Það verða nóg aðrir til þess. Hins vegar hringdi Mike Pollock í mig í gærkvöld og bauð mér að lesa upp á Café Rosenberg eftir viku. Ég þáði það. Þetta er grimm samkeppni við Skáldaspírukvöld Lafleurs og nú er spurning hvort ég verði talinn vera að svíkja lit.

Er að gæla við að skreppa bara til Darmstadt (eða Mainz eða Kassel eða Wiesbaden) núna, því ég á 4,5 daga eftir af sumarfríinu og það er rólegt í vinnunni. En ég verð auðvitað illilega andlaus í janúar og þarf þá á upplyftingu að halda.

Klukkið

1. Innst inni grunar mig að allt sé tilgangslaust, ekki síst fagurfræðileg sýn mín á bókmenntir og listir. Ég veit hvað mér finnst gott og ég skynja sannleika í því en sá sannleikur er afstæður eins og smekkur, minn sannleikur, Rúnars Helga, Alice Munro og einhverra fleiri. Innst inni grunar mig að að fyrir augliti eilfífðarinnar sé nýjasta bók Alice Munro ekkert merkilegri en nýjasti þátturinn af America´s Next Top Model.

2. Ég tala mikið um sjálfan mig en fáir vita hvenær mér er alvara og hvenær ekki. Stundum veit ég það ekki sjálfur.

3. Ég vil vera virtur og metinn og ég þoli ekki fólk sem metur mig ekki og virðir, sérstaklega ef það er yngra en ég sjálfur.

4. Ég er ekki hrifinn af því að eldast. Samt vildi ég ekki vera mikið yngri en ég er.

5. Með hverju árinu verður meira óhugsandi að lifa án fjölskyldu minnar.

Ég klukka Eyvind og Tinnu.

þriðjudagur, september 20, 2005

Hlutirnir gerast hratt á útvarpssöguöld. Harði diskurinn í tölvunni minni hrundi í hádeginu og nú þegar er ég kominn með alveg eins tölvu, tölvuna hans Erps sem hætti í haust og fór í skóla.

Á öld grammófónsins og píputóbaksins. Og brilljantínsins.

http://www.andriki.is/ Hér er (kannski fyrirsjáanleg) gagnrýni á auglýsingaherferð VR um launamun kynjanna. Málefnið er gott en mér blöskrar það líka að stéttarfélag sem ég þarf að borga í geti eytt fúlgum fjár í auglýsingaherferðir. Mér virðast stéttarfélögin eiga gríðarlega mikla peninga og þeir eru notaðir í dýr og fín verkefni.

Smásagnagerðin virkar yfirleitt best í stórum skorpum en besta aðferðin við þessa stuttu skáldsögu virðist vera að skrifa 1-2 tíma á hverjum einasta degi, frekar en að reyna að taka stórar tarnir. Það er dálítið erfitt að koma þessu við en í sjálfu sér er þetta ekki mikil vinna. Vel má vera að þetta gjörbreytist eftir að ég hef lokið við uppkastið sem á að vera e-n tíma fyrir áramót. - Reyndar greindi ég fantafínan smásagnaþráð í plottinu um helgina en varð um leið logandi hræddur: Skyldi ég eyða heilu ári í eitthvað sem reynist vera smásaga? Það ætti þó ekki að vera.

mánudagur, september 19, 2005

Ég er aftur kominn með vettvang og tala til þjóðarinnar. Þarf að skila grein á morgun og veit ekkert hvað ég á að skrifa um.

Af hverju gengur mér alltaf vel að skrifa í hádeginu þegar ég hef engan tíma til þess?

Það er veisla hjá kvenþjóðinni. Fyrst Paul Auster og síðan Michael Bolton. Hvar endar þetta?

Það má vel vera að veðrið á Íslandi sé óútreiknanlegt en þó má stundum greina það í einfalda þætti hér fyrir sunnan: Ef það er sól á glugganum og ekki júní eða júlí, þá má treysta því að úti sé skítakuldi. Ef það er sólarlaust þá er líklega fremur hlýtt, sunnanvindur og rigning með köflum. Einstaka sinnum snjóar, þegar nær að kólna nóg í sunnanáttinni fyrir úrkomu og svo kemur nýtt gluggaveður, vetrarsól, og frystir allt saman. En hvað eftir annað fáum við snjólausa vetur, með köldu og þurru gluggaveðri og hlýju og blautu sunnanroki á víxl. Einu sinni fór ég til Hildesheim í mars og þar var 2ja stiga hiti. Ég kom heim í 9 stiga hita en það var miklu kaldara en í Hildesheim, þið getið rétt nærri um getið rokið í 9 stiga sunnanátt í mars.

Fréttirnar á meðan þær gerast ...

Það gengur betur núna.

Auk þess hefur mataræðið lifað af helgina og ég hlakka til að skokka á morgun.

Mikil vonbrigði með skriftir dagsins sem hafa verið andlausar þrátt fyrir kjöraðstæður. Svona er þetta bara stundum. Alveg er ég viss um að það verður kominn rífandi gangur í þetta aftur síðar í vikunni þegar ég hef engan tíma.

Engu að síður ætla ég að smella Who á eyrun núna og pína mig áfram í tvo tíma, leyfa mér að skrifa illa eins og einn kafla og sjá hvort hægt er að vinna sér fyrir innblæstrinum.

Fyrsta hrós mitt sem rithöfundur fékk ég frá Silju Aðalsteinsdóttur árið 1987. Hún sagði að ég væri bullandi talent. Þrátt fyrir ágæta spretti finnst mér ekki hafa staðið undir þessu síðan, kraftarnir hafa líka dreifst í margt annað.

En það er alltaf tækifæri til standa undir slíku hrósi og sagan sem ég er að vinna við núna er eitt slíkt tækifæri.

sunnudagur, september 18, 2005

Áður en ég fékk mér gleraugu síðla árs 2002 var ég sífellt að heilsa fólki sem ég þekkti ekki og hundsa fólk sem ég þekkti auk þess sem ég vissi aldrei hver hefði skorað markið í leiknum fyrr en ég las blöðin.

Á laugardaginn ruglaði ég saman Jóni Óskari Sólnes og Arnaldi Indriðasyni þegar við Erla mættum þeim síðarnefnda á stígnum niðri við Ægisíðu á skokkinu okkar. Jón Óskar þekki ég betur en flesta en Arnald þekki ég bara pínulítið. Ég hélt að þetta væri Jón Óskar. Þeir eru á svipuðum aldri, báðir með ljósrautt hár og nokkuð höfðinglegir í fasi. Þetta var dálítið óþægilegt atvik því ég heilsaði Arnaldi með þónokkrum látum, langt umfram það sem eðlilegt telst miðað við kynni okkar, af því ég hélt hann væri Jón Óskar. Og ég vil ekki að menn haldi að ég flaðri upp um þá bara af því þeir eru metsöluhöfundar, þó að ég óski þeim alls hins besta og votti þeim gjarnan virðingu mína.

En spurning dagsins er sú hvort ég þurfi að fá mér sterkari gleraugu.

Gísli Marteinn eða Vilhjálmur? Í augnablikinu hallast ég að þeim síðarnefnda. Hann er ekkert sjarmatröll en hefur unnið sér traust fyrir löngu síðan og ætti að geta unnið borgina núna þegar R-listinn hefur flosnað upp auk þess að gera þó nokkuð af mistökum: Troða háskóla í Nauthólsvíkina, fokka upp strætókerfinu og færa Hringbrautina algjörlega að óþörfu og öllum til ama og óþæginda. Þó að Gísli Marteinn hafi einhverja reynslu sem borgarfulltrúi er reynsla Viljhjálms miklu meiri og Gísli Marteinn virkar með réttu eða röngu sem holdgervingur yfirborðsmennskunnar núna þegar hann reynir að komast í borgastjórastólinn út á vinsæla sjónvarpsmennsku og gott útlit.

Fram og fleira

Það er frekar auðvelt að sýna hetjuskap á þessum vínarbrauðstímum. Um daginn drap ég geitung á Súfistanum, tveimur ungum konum til léttis, og áðan rak ég róna út af Kaffi Roma við Rauðarárstíg, þjónustustúlkum til mikilllar ánægju. Hann var þarna röflandi, peningalaus og vildi ekki yfirgefa staðinn. Ég þandi mjúka bringuna á móti honum og hann varð dauðhræddur við mig. Sem er sérkennileg tilhugsun: Hver er hræddur við meistarann? Hver er hræddur við ÁBS?
Nú vill svo til að ég kann ágætlega við róna og hefði alveg verið til í að bjóða þessum upp á kaffi á biðstöðinni við Hlemmtorg (þar sem hann á betur heima) og hlusta á röflið í honum. Það er hins vegar ekki bjóðandi fyrir 50 kílóa afgreiðslustúlku að þurfa að láta hjartað berjast í brjóstinu og reyna af veikum mætti að fá svona skríl til að hlýða sér, í algjörri óvissu um viðbrögðin, sem gætu þess vegna verið hnefahögg. Við svona aðstæður á fólk ekki að þegja, heldur eiga karlmennirnir á staðnum að sýna borgaralega ábyrgð og vísa veiklunduðum meðbræðrum sínum á dyr.

Rétt áður en þetta gerðist las ég um slagsmál á bar í sögu eftir Andre Dubus. Ég hef aldrei lent í alvöru slagsmálum og mun alltaf sneiða hjá slíku. Ég er svifaseinn og ekki handleggjasterkur og ég óttast varanlegar afleiðingar áverka.

Ennfremur horfði ég á Der Untergang í gærkvöld, góð mynd, en skelfilegt hefði verið að standa með vélbyssu í höndunum á strætum Berlínarborgar vorið 1945.

Mér fannst dálítið sjokkerandi að sjá Fram falla niður í 1. deild í gær. Fram er einn af þessum klassísku erkifjendum KR og þar að auki með heimavöll í Laugardalnum þangað sem frábært er að fara á völlinn. Ég tel líka ljóst að Fram er með betra lið en ÍBV og Grindavík, enda búið að slá FH úr bikarnum og vinna Val í deildinni. En karakterleysið er ógurlegt, að tapa 1-5 í leik þar sem liðið er að berjast fyrir lífi sínu! Á sama tíma vinna Grindvíkingar hið sterka lið Keflavíkur. Ég veit svo sem ekki hvaða áhrif þetta fall hefur á Fram-liðið. Keflvíkingar féllu árið 2002 en eftir því man varla nokkur maður. Núna er liðið skyndilega í 4. sæti í deildinni og varð bikarmeistari í fyrra. Við KR-ingar þurfum líka að hugsa okkar gang. Sjötta sætið annað árið í röð er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við, ekki nema við ætlum að verða eins og Fram, vakna upp við það einn daginn að við erum ekki í tímabundinni lægð, við getum bara hreinlega ekki neitt lengur. Þannig fór með Frammara sem urðu síðast Íslandsmeistarar árið 1990, féllu síðast 1995 og hafa aldrei getað neitt síðan.