Týndur í tíma
Tilefni þessarar færslu, þ.e. þess að setja yfirleitt inn færslu hér í staðinn fyrir status á feisbúkk eða pistil á Pressuna (var að setja nýjan pistil þar inn), er sú að ég sit í nýju Eymundsson-búðinni í gamla Spron-húsinu á Skólavörðustíg. Það er frábært að sitja hér, skrifa eða reyna að skrifa, glugga í einhverjar bækur. Þetta er auðvitað bara fortíðarþrá því þetta er svipuð tilfinning og að var að sitja á Súfistanum í Máli og menningu á Laugarvegi. Mér skilst raunar að sú stemning verði fljótlega endurvakin. En mér þykir þegar vænt um þessa bókabúð.
Maður situr við flennistóran glugga og horfir niður á Vegamótastíg. Þarna er Eiríkur Bergmann Einarsson á reiðhjóli. Hélt hann væri að fara inn á Kormák og Skjöld en hann hjólar bara upp götuna og talar í gemsa.
Nú fer ég líklega að komast upp á lag með að skrifa á nýja vinnustaðnum eftir lokun. Snilldin við það er sú að vinnutölvan er með tveimur skjám, nokkuð sem er einkar heppilegt við söguskrif.
Ég logga mig ennþá hérna inn á gamla netfanginu mínu frá Íslensku auglýsingastofunni. Það er mjög sérkennileg tilfinning og í eitt augnablik áttaði ég mig ekki á þessu. Öll netföng komin í graut. Íslenska, Pressan, Háskólinn og Skjal.