laugardagur, júlí 29, 2006

Ég vona að einhver hafi lesið Munro söguna sem ég linkaði á hér að neðan. Þetta er engin venjuleg smásaga. Annars góða helgi.

Ég lenti fyrir tilviljun á mótmælafundi gegn innrásinni í Líbanon fyrir utan Bandaríska sendiráðið og uppgötvaði samstundis að þar átti ég vel heima. En fundinn virtust aðeins sækja mjög þekktir eindregnir vinstri sinnar. Hvers vegna þurfum við alltaf að skipa okkur í fylkingar? Hvers vegna getum við ekki sameinast í einstökum málum sem ættu að vera hafin yfir allar flokkslínur?

Maður þarf ekki að vera vinstri sinnaður til að ofbjóða framferði Ísraelsmanna (eða þykja raunar stofnun ríkis þeirra á sínum tíma fáránlegur gjörningur) og maður þarf heldur ekki að vera vinstri sinnaður til að álíta að núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum séu á skelfilegri braut.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Ég er að verða búinn með fyrsta hluta af þremur í bókinni margnefndu. Þá er ég að meina allt að því útgáfuhæfa versjón. Þessi bókarhluti gæti staðið sjálfstætt sem löng smásaga en það mun tæplega geta átt við um hina hlutana tvo. Í einhverjum skilningi er ég því að verða búinn með tæplega 15000 orða smásögu, fyrstu velheppnuðu söguna sem ég hef skrifað síðan ég kláraði síðustu bók fyrir tveimur árum. Ég held að hinir tveir hlutarnir verði styttri þannig að ekki verður þetta löng bók og stóð aldrei til.

Ég var búinn að semja alla bókina einu sinni en sú útgáfa var rosalega misheppnuð. Það var samt nauðsynlegt að skrifa hana. Ég endursamdi líka helminginn af þeim hluta en það var líka misheppnað. Það var ekki fyrr en ég hætti að segja frá aðalpersónunum til skiptis eins og tíðkast venjulega í skáldsögum, klauf þetta sundur í þrjá hluta að hætti smásagnahöfundarins, sem þetta fór að ganga vel. En þetta er samt skáldsaga, engum mun finnast þetta vera smásagnasafn. Þetta tengist allt saman.

Ég vinn þetta rosalega hægt. En jafnt og þétt. Þetta verður að vera þannig. Það er búið að taka mig frá páskum að hnoða þessu saman. Ég byrjaði á þessari versjón þá. En ég hef líka verið að gera svo margt annað á meðan, t.d. horfa á HM, vinna á auglýsingastofu, blogga og hengja upp úr þvottavélinni.

Lengsta sagan í síðustu bókinni minni heitir Eftir sumarhúsið. Ég var allt sumarið 2003 að skrifa hana og fram á haust, samtals 4 mánuði. Samt er hún aðeins rúmlega 8000 orð. Stundum hef ég hins vegar verið fljótur, Fyrsti dagur fjórðu viku sem birtist í ensku bókinni í haust, tók að mig minnir bara nokkra daga að semja.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item79218/ Táknar þetta hreinsanir?

http://www.newyorker.com/printables/fiction/060605fi_fiction Þessi saga er óhugnanlegt meistaraverk. Ég hvet ykkur til að prenta hana út og lesa hana í næði til enda, ef þið hafið tíma. Svo getið þið sagt mér hvort þið séuð sammála.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Vestfirska forlagið auglýsir eftir ástarrómönum. Er ekki til valið fyrir heimamanninn EÖN að kúpla sig út úr avante garde gírnum um stundarsakir og skrifa eina vestfirska ástarsögu?

Ég er að fara í brúðkaup á Þingvöllum í dag. Brúðurin er þýsk, brúðguminn íslenskur. Spurning hversu mikið tækifæri til þýskuspjalls þetta er, maður talar svo sem ekki mikið við brúður í brúðkaupsveislu. Eitthvað þó. Herzliche Glückwünsch. Ég byrja væntanlega þannig.

Mér finnst blöðin hafa verið nokkuð bitastæð þessa helgi. Ég var t.d. óvenjulega lengi að klára laugardagsútgáfu Blaðsins. Þetta hefur verið nokkuð góð upphafsvika hjá SME og félögum, ég held að það sé óhætt að segja það, og ef ég væri leigubílstjóri fyndist mér blaðið ábyggilega ómissandi. Síðan var góður pistill hjá Ellert Schram í Fréttablaðinu og Lesbókin stóð vel fyrir sínu.

Rétt um það leyti sem ég var farinn að venjast hávaðanum og skarkalanum í næturlífinu í nótt, byrjaður að finna á mér og kannski til í að halda dálítið áfram, þá var kominn tími til að fara heim. Klukkan orðin hálfþrjú og ég vildi ekki klúðra deginum í dag (sem hefur verið nokkuð góður á ýmsa lund, jafnt í skrifuðum orðum sem skokkuðum kílómetrum). Áður en ég kvaddi náði ég spjalli við Jóhamar á Næsta bar. Jóhamar var efnilegt súrraelískt skáld á níunda áratugnum. Ég fílaði alltaf tóninn hjá honum og beið eftir meiru. Ekki síst var hann sterkur í prósanum, t.d. skáldsögunni Byggingu. Hann var næmur á smáatriði eins og allir góðir stílistar og húmorinn var orgínal. En svo hvarf Jóhamar bara af yfirborði jarðar í langan, langan tíma. Birtist síðan aftur í 101 fyrir sirka tveimur eða þremur árum. Í nótt deildum við elskulega um lífið og listina í nokkar mínútur. Ég þekki Jóhamar sáralítið en hef á tilfinningunni að hann sé á einhvern hátt dásamlegur maður.

Þegar ég sofnaði í nótt hugsaði ég með nokkrum óhugnaði um sífelldar endurtekningar í lífi mínu: skriftir skokk auglýsingar who kr súfistinn ölstofan skriftir þýskaland skriftir blogg auglýsingar súfistinn skokk who kr auglýsingar ölstofan súfistinn skokk þýskaland blogg auglýsingar skriftir

og svo framvegis