föstudagur, janúar 06, 2006

Meðal ungskálda

Hitti Guttesen og Kristjón Kormák á Mokka í hádeginu. Guttesen var í bol með mynd af stólkolli utan á. Hann gaf mér Litbrigðamyglu. Ég gaf honum latte. Ég var í svörtum jakkafötum og rúðustrikaðri skyrtu. Kormákur var í leðurjakka. Við ræddum bóksölu og þjálfaramál í fótboltanum. Í lok fundarins sagði ég: Hugsa sér, hér er ég staddur með tveimur ungskáldum á Mokka, þetta er algjörlega klassískt. Þeir spurðu: Ætlarðu að blogga um þetta? Ég svaraði: Já.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Núna er bara vika í Þýskalandsferðina. Ég þarf síðan að klára tvo kafla og skrifa tvo kafla til að ljúka við uppkastið að sögunni. Mikið væri gaman ef það tækist áður en ég fer utan.

Það vantar eitthvað í þetta og meira en lítið. En þannig er það alltaf. Lífið er barátta.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Pistillinn hjá mér í gær var býsna laglegur og hef ég því fengið von um að ég sé ekki búinn að missa gáfuna þrátt fyrir allt. Ég veit ekki alveg hvenær hann birtist, þessi. Skáldsagan gengur óskaplega stirðlega. Þetta snýst um að þræla til enda þessu fyrsta uppkasti svo ég geti byrjað upp á nýtt því ég er alltaf langbestur í endurskriftum.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Jæja. Ég er að verða búinn með nýjan pistil þannig að eitthvað er andleysið að hörfa. Þarf m.a.s. að skera hann niður og fórna góðum köflum.

Alveg þykir mér út í hött að halda upp á þrettándann. 6. janúar er bara hversdagsleikinn. Flugeldar á þrettándanum vekja mér svipaða tilfinningu og timbraður Hemmi Gumm í bleikum jakka á hreyfðri forsíðuljósmynd í Helgar-DV frá miðjum síðasta áratug.

mánudagur, janúar 02, 2006

Hvað sem líður merku brautryðjendahlutverki Fræbblanna í íslenskri rokksögu þá hlýtur þeim að hafa liðið dálítið illa yfir gamla viðtalinu úr Rokki í Reykjavík sem spilað var stóran hluta af heimildarmyndinni í gærkvöld. Óskaplega virkar hann barnalegur þessi gamli pönkarahroki eins og hann hljómaði þarna.

Hins vegar vöktu myndskeiðin af Hlemmi upp minningar um þann tíma þegar eitthvert fólk var inni í biðstöðvarhúsinu en það hefur staðið hálftómt síðustu árin.

Hátíðarandleysið er enn yfir mér. Það eina sem mér dettur í hug að segja í dag er að mér fannst Skaupið ágætt.

Þetta stendur vonandi til bóta.