föstudagur, júní 13, 2008

Pirrandi músík

Tónlist á kaffihúsum á líklega að þjóna sem þægileg bakgrunnshljóð. Skapa notalega stemningu.

Oftar en ekki er hún of hátt stillt. Starfsfólkið stillir hana óvart of hátt og tekur síðan ekkert eftir hávaðanum. Fæstir taka eftir honum. Kannski bara einstaka nöldurskjóða eins og ég. Reyndar kvarta ég nánast aldrei. Það lúkkar ekki vel. Þá myndi ég koma fyrir eins og frekur, feitur og fýldur miðaldra karl. Á meðan ég kvarta ekki þá er ég bara vel klæddur og myndarlegur og hávaxinn náungi á óræðum aldri. Svo ég þrauka þetta, vitandi að kaffihús voru ekki hugsuð sem vinnustofur fyrir mig.

Stundum er diskurinn rispaður og stamar endalaust þar til einhver bendir starfsfólkinu á það. Yfirleitt tekur bara enginn eftir því, rispaður diskur getur verið að hökta í klukkutíma á kaffihúsi eða í verslun og enginn veitir því athygli. Það vekur óneitanlega upp tilhugsun um fullkomið tilgangsleysi og þarfleysi tónlistarflutningsins.

Þegar músíkin er ekki of hátt stillt er hún gjarnan skrýtin og pirrandi, dregur þannig að sér athyglina.

Enginn kemur á kaffihús til að hlusta á tónlist. Langbest væri að slökkva á draslinu. En það er reyndar öllum saman um þetta nema mér.

Þegar hetjurnar tapa

Ég held með KR og Þýskalandi í fótbolta og íslenska karlalandsliðinu í handbolta. Þetta eru helstu hetjurnar mínar í íþróttum. Um helgina töpuðu handboltalandsliðið og KR en Þjóðverjar unnu. Í dag töpuðu Þjóðverjar. Um helgina keppa KR og handboltalandsliðið aftur. Þjóðverjar, held ég, á mánudaginn.

Kosturinn við að vera íþróttaáhangandi er sá að þegar liðið mitt tapar fer ég að hugsa um eitthvað annað, t.d. bókmenntir. En þegar það vinnur nýt ég þess. Þannig að yfirleitt fylgir sárum töpum ekkert þunglyndi. Hins vegar veit ég ekki hvað ég þoli stóran skammt í einu. Ef KR heldur áfram að tapa, Þjóðverjar detta út í 8-liða úrslitum á EM á móti Portúgal og Makedónar slá út handboltalandsliðið - ef þetta gerist allt nokkurn veginn í einu, þ.e. á næstu dögum og vikum, þá er það ansi þungur biti að kyngja.

Ég trúi því að eitthvað af þessu fari vel. Ég mun gleðjast yfir því en láta hitt liggja á milli hluta.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Náttúruvernd - umhverfisvernd

Í útlöndum eru umhverfisverndarsinnar. Þeir hafa áhyggjur af mengun, hlýnun jarðar, losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna eru þeir hrifnir af íslenskum vatnsaflsvirkjunum. Að stóriðja sé knúin afli þar sem kol og olía eru víðsfjarri.

Á Íslandi eru hins vegar náttúruverndarsinnar. Þeir vilja að umhverfið sér "óspillt", ómanngert þ.e.a.s. Ekki má hrófla við neinu. Líklega væri Elliðaárdalurinn ennþá fallegri ef þessi helvítis hraðbraut væri ekki fyrir ofan að ógleymdum öðrum mannvirkjum þar sem "spilla" umhverfinu.

Þessi náttúruvernd í bókstaflegum skilningi virðist ekkert hafa með mengun, framtíð jarðar eða heilnæmi að gera.