Pirrandi músík
Tónlist á kaffihúsum á líklega að þjóna sem þægileg bakgrunnshljóð. Skapa notalega stemningu.
Oftar en ekki er hún of hátt stillt. Starfsfólkið stillir hana óvart of hátt og tekur síðan ekkert eftir hávaðanum. Fæstir taka eftir honum. Kannski bara einstaka nöldurskjóða eins og ég. Reyndar kvarta ég nánast aldrei. Það lúkkar ekki vel. Þá myndi ég koma fyrir eins og frekur, feitur og fýldur miðaldra karl. Á meðan ég kvarta ekki þá er ég bara vel klæddur og myndarlegur og hávaxinn náungi á óræðum aldri. Svo ég þrauka þetta, vitandi að kaffihús voru ekki hugsuð sem vinnustofur fyrir mig.
Stundum er diskurinn rispaður og stamar endalaust þar til einhver bendir starfsfólkinu á það. Yfirleitt tekur bara enginn eftir því, rispaður diskur getur verið að hökta í klukkutíma á kaffihúsi eða í verslun og enginn veitir því athygli. Það vekur óneitanlega upp tilhugsun um fullkomið tilgangsleysi og þarfleysi tónlistarflutningsins.
Þegar músíkin er ekki of hátt stillt er hún gjarnan skrýtin og pirrandi, dregur þannig að sér athyglina.
Enginn kemur á kaffihús til að hlusta á tónlist. Langbest væri að slökkva á draslinu. En það er reyndar öllum saman um þetta nema mér.