fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Er hann nettengdur?

http://www.dv.is/frettir/2008/8/28/barnanidingur-vid-leikskola-er-osnertanlegur/ Fjarlægðir eru afstæðar nú á tímum. Þó að ég sé enginn afbrotasálfræðingur þá fæ ég ekki séð hvernig umræddur brotamaður getur verið hættulegur leikskólabörnum. Hann hefur löngun til unglinga á aldrinum 13-17 ára, allt hans mynstur bendir til að þar liggi hans hneigðir. Hann reynir að komast í kynni við unglingana á netinu og þar hefur hann kynnst flestum fórnarlömbum sínum. Ef dagblöð vilja halda uppi stöðugum fréttum af pedófílum væri nær að þau spyrðu hvort umræddur væri nettengdur. Hann ætti í rauninni ekki að hafa aðgang að nettengdri tölvu. Án hennar er hann líklega hættulaus því varla verður hann ráðinn í félagsstarf með ungmennum aftur. En einhvers staðar verður maðurinn að búa og alls staðar í mannabyggðum eru börn einhvers staðar. Ekki viljum við hafa hann nálægt unglingaskóla?

Hættulegustu pedófílarnir eru þeir sem hafa ekki uppgötvast ennþá. Ég hef minni áhyggjur af brennimerktum brotamönnum - fólk varar sig á þeim og DV heldur okkur vakandi.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Hvers vegna er Veigar Páll ekki í landsliðinu?

http://www.visir.is/article/20080825/IDROTTIR0105/268069504 Veigar Páll Gunnarsson hefur slegið í gegn í norsku knattspyrnunni. Undanfarin ár hefur hann yfirleitt verið varamaður í landsliðinu en eftir að Óli Jóh. tók við á Veigar Páll ekki lengur sjens í liðið. Ekki einu sinni í vináttuleiki þar sem vantar fullt af mönnum. Jafnvel leikmenn á borð við Stefán Þórðarson í ÍA hafa verið teknir fram fyrir hann. Þess má geta að tveir síðustu leikir landsliðsins, gegn Wales og Aserbadjan, hafa verið hörmulegir, hvert sem framhaldið verður.

Finnst landsliðsþjálfaranum Veigar Páll ekki vera nógu góður eða er þetta eitthvað persónulegt? Hefur þetta eitthvað að gera með hvernig Veigar Páll hefur tjáð sig um landsliðsvalið?

Íþróttafréttamenn ættu að kanna þetta.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Ef þú fílar þetta ekki þá ertu Hitler

http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/tveir-menn-veggjalist-og-vaffla/

Það eru til viðvaningslega máluð landslagsmálverk, svo maður taki dæmi um eitthvað sem telst gamaldags í listum. Að sama skapi hlýtur að vera til léleg hugmyndalist, lélegir gjörningar, léleg vídeólist. Til dæmis eitthvað sem er gegnsýrt yfirborðsmennsku, flipp án innihalds. En þeim sem blöskrar léleg nýlist er oft stillt upp við hliðina á Hitler og Jónasi frá Hriflu sem héldu sýningar á meintri úrkynjaðri list. Mér vitanlega hafa Jakob F. Ásgeirsson og Egill Helgason aldrei haldið slíkar sýningar.

Café Roma á silfurdegi

Ég hef verið hluti af þjóðarandanum undanfarið og notið þess. Horft á hvern einasta leik handboltalandsliðsins á OL, hljóp 10 km í Glitnismaraþoninu í gær (á 56:36) og fór á tónleikana á Miklatúni í gær. Þjóðin öll sem einn maður. Gallinn er sá að í slíkri stemningu skapa ég ekki neitt. Það eru bara nýlistamenn og popparar sem geta fengið innblástur úr þjóðhátíðarstemningu augnabliksins. Rithöfundar þurfa að halda sig til hlés og þroskast í þögninni. Það er líka ekki hægt að vera frumlegur þegar allir eru að hugsa um það sama, tala um það sama og segjandi jafnvel það sama orðrétt. Ef Ísland hefði unnið gull í morgun væri ég auðvitað ekki mættur með fartölvuna á Café Roma í dag og þess vegna var það ákveðin sárabót eftir tapið að geta farið að skrifa aftur eftir nokkurra daga hlé.

Ég er heldur ekki mikið fyrir blogg í svona stemningu, eiginlega viðheldur það henni bara og því kveð ég í bili og segi : Til hamingju!