föstudagur, febrúar 18, 2005

Talandi um húmor, þá hefur Judith Hermann hann. Og samt er hún Þjóðverji. Segi ykkur betur frá því um eða eftir helgi.

Það var bíókvöld með dótturinni í gærkvöld, nokkuð sem við gerum annað slagið. Við förum yfirleitt á gamanmyndir því það eru uppáhaldsmyndirnar hennar eftir að hún óx upp úr teikninmyndunum og ekki spillir fyrir að mér leiðist yfirleitt ekki á gamanmyndum þó að mér finnist þær ekki sérlega góðar, því yfirleitt gerist eitthvað fyndið í þeim.

"Meet the Fockers" ætti hins vegar að gera sérhvern heilvita áhorfanda með minnstu nasasjón af kvikmyndasögunni miður sín. Það er í sjálfu sér ekki fréttnæmt að sjá lélega gamanmynd, jafnvel mynd sem inniheldur nánast ekkert fyndið atriði, en það er eitthvað sérstaklega bagalegt að horfa á svona ömurlega flatneskjulega og misheppnaða framleiðslu þegar ekkert er til sparað í fé og leikhæfileikum. Maður sér fyrir sér hvernig allt bit hefur verið höggvið úr handritinu á hverjum fundinum af öðrum þar sem málamyndanirnar hafa verið við völd. Það er síðan hreinlega viðurstyggð að horfa á upp á jafn veigamikinn leikara og Rober De Niro aulast áfram í misheppnaðri gamanrullu (hann er ekki gamanleikari og verður það aldrei)með brosgrettuna límda á smettið, gamlan klassískan augnapíring hreinlega útklæmdan í fjölskylduvæmnisgríninu.

Þeir gátu skaffað frábæra kvikmyndatöku, nokkra af bestu leikurum heims, höfðu greinilega allt til alls en gátu ekki druslast til að koma nokkrum fyndnum atriðum fyrir í handritinu. Maður bað ekki um meira en það.

Tvípunktur. Það hét þátturinn sem Sjón og Vilborg leikkona (eða heitir hún það ekki?) voru með á Skjá einum árið 1999. Það var fínn þáttur. Mikið væri gaman að fá hann aftur í sjónvarpið. Burt með þvaðrið og inn með bókmenntirnar.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

http://krissrokk.blogspot.com/2005_02_01_krissrokk_archive.html
Ágætisnáungi sem afgreiðir í Máli og menningu og spilar í hljómsveit sem mér skilst að sé góð sendir mér tóninn út af tóni sem ég sendi Regnhlífunum í New York. Pilturinn hafði setið fyrir svörum í þættinum um metsölulista og fleira og sér síðan að gamli smásagnaþrjóturinn er að drulla yfir þáttinn sem hann kom fram í. Mér finnst hann hins vegar taka rangan pól í hæðina. Ég hafði í sjálfu sér ekkert út á hans framgöngu í þættinum að setja né út á framlag popparanna. Það sem fer í taugarnar á mér er að í svona þáttum er aldrei hægt að fjalla um bókmenntir, á þennan gamla og góða og innihaldsríka hátt, heldur þarf alltaf að gera eitthvað sniðugt: spyrja afgreiðslumanninn um metsölulistana, spyrja popparana um poppævisögurnar, allt saman alveg ágætt og yndislegt en MÁ EKKI FÁ SMÁ BÓKMENNTIR LÍKA?

Síðan fellur hann í þá gryfju að vera með lítt dulbúnar hótanir: fólk eins og hann hefur mikil áhrif á bóksölu og getur mokað bókum eftir drulluhala eins og mig undir borðið. Burtséð frá mér og mínum bókum þá vona ég að slíkur hugsunarháttur sé hvergi að verki í störfum þeirra sem afgreiða bókabúðum.

Opni maður fyrir sjónvarpið í miðjum bókmenntaþætti er afar dæmigert að lenda á spjalli um t.d. sænskar glæpasögur. Í sjálfu sér er ekkert út á það að setja. Hefði maður hins vegar lent í sömu aðstæðum árið 1975 eða 1985 eru mun meiri líkur á því að verið væri að fjalla um sænska nútímaljóðlist. - Þegar maður fór fyrst að rekast á umfjöllun um glæpasögur innan meintrar menningarlegrar umgjarðar þá líkaði manni vel, þótti það frumlegt og maklegt. Núna hefur dæmið hins vegar snúist við: Ef ég myndi opna fyrir bókmenntaþáttinn núna og ramba þar á umfjöllun um norræna ljóðlist eða eitthvað viðlíka non-commercial þá myndi ég reka upp stór augu. Mér þætti það nánast ankannalegt.

Segir þetta ekki að eitthvað sé orðið bogið við þessi mál?

Var að fá nýtt TMM. Það er fjölbreytt og forvitnilegt eins og í seinni tíð. Ritstjóranum og greinarhöfundi tekst að telja upp samtals um 30 jólabókaskáld án þess að minnast einu orði á meistarann og sá síðarnefndi tekur auðvitað eftirlæti bókmenntafræðinganna úr smásagnahópnum smáa út, svona til að fullkomna þöggunina. Sjálfsagt að óska vini mínum Guttesen til hamingju með að vera kominn í hærra álit en smásagnameistarinn, hann þarf þá ekki lengur að stæra sig af drykkjufundum með mér, frekar öfugt; hins vegar var vitað mál að Nyhil-grúppan myndi þramma öll sem ein framhjá inn í hús bókanna.

Ein skemmtilegustu tíðindin, fyrir utan þau að Guttesen minn er þarna með örsögu, er smásögubirting Arndísar Þórarinsdóttur, Lalage. Þetta er fyrsta sagan sem hún fær birt. Lalage hefur verið á Rithringur.is frá upphafi og hefur verið að puða við að bæta sig sem höfundur. Einhvern tíma rýndi ég þarna eftir hana örsöguna Mávinn sem mér leist nokkuð vel á, en síðan hefur stúlkan að mér virðist skrifað margar langar sögur, sem ég hef ekki enn gefið mér tíma til að lesa. Af því litla sem ég hef spjallað við Lalage um bókmenntir hef ég fengið sterklega á tilfinninguna að hún geri sér grein fyrir því hvað þarf til að verða rithöfundur og sjálfsgagnrýnin hefur alltaf virst í lagi. Það fjölgar sífellt fólki á Rithringnum sem er að fá birtingar en var ekki birtingartækt í byrjun Hringsins. Mjög skemmtilegt.

Nú og svo les ég örugglega pistilinn hans Jónasar Sen, þó að ég fylgist ekkert með tónlistarlífinu. Það gildir einu, allt sem þessi maður skrifar er hreinræktaður skemmtilestur.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Ég komst ekki að skrifborðinu fyrr en undir miðnætti. Ég var tómur og andlaus og þreyttur. Opnaði skjölin með sögunum og leist ekki á blikuna. Ákvað að reyna ekki að skrifa en las dálítið í mínum uppáhaldshöfundum. Þegar ég vaknaði síðan í morgun skynjaði ég að "það er allt að gerast", eins og þeir segja sem segja "dauðans". Söguhugmyndir sem ég hef verið að fikta við alveg frá í sumar eru allar að lifna við. Staðan er sú að það er tekið að móta fyrir nýju safni með nýju, skýru og áleitnu þema. Ein af sögunum er sú sem ég hef verið að kalla nóvelluna eða stuttu skáldsöguna. Efni þeirrar sögu er þannig að hún gæti hæglega farið upp í 100 síður í handriti (Síðasta bókin mín var 97 síður í handriti og 127 síður í bók) en hún gæti líka dottið niður í 40-50 síður. Ég er þegar búinn með 30 í uppkasti. Það sem mér þykir hins vegar ekki líklegt í augnablikinu er að sú saga muni koma til með að hafa nægilega vigt, nægilegt vænghaf, ein og sér, til að standa undir góðri bók, einfaldlega af því Gústi Borgþór skrifar þannig að þungi bóka hans liggur í samlagi margra sagna sem flestar hafa verið skornar miskunnarlaust niður í vinnsluferlinu. Allt á þó þetta eftir að skýra sig.

Þessar 5-6 sögur í hausnum á mér og að sumu leyti hálfkaraðar í tölvunni mynda samanlagt verkefni sem á eftir að verða skelfilega erfitt en gæti á endanum orðið að frábærri bók sem enginn nennir að lesa.

Í miðju andleysi mínu langar mig að benda á feikilega skemmtilega grein eftir Þórarinn Þórarinsson í þriðjudags Fréttablaðinu. Greinin fjallar um Vesturbæinn og er í þessum flokki þar sem eru alltaf teiknaðar myndir af höfundum. Þetta er a.m.k. skemmtileg lesning fyrir Vesturbæinga. Farið í ruslafötuna og náið í blaðið ef þið voruð ekki búin að lesa þetta.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Ég hef ekkert að segja í dag og er að hugsa um að hvíla þetta í 20 til 40 klukkustundir.

Ég hef gaman af idolinu aðallega út af tveimur stelpum, Heiðu og Hildi. Hvernig glíma verður það fyrir þær þegar það rennur endanlega upp fyrir þeim báðum hvað þær eru hrikalega góðar? Myndi skrílslegt slys í atkvæðagreiðslu verða þeim til góðs til lengdar eða er best að þær endi í tveimur efstu sætunum eins og auðvitað er eina vitið í? Þetta eru fæddar stjörnur, efstu keppendurnir frá því í fyrra eru bara hlægilegir við hliðina á þeim.

Annars hef ég ekkert vit á músík.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Mér finnst Bobby og Dingan vera smásaga, bæði hvað orðafjölda og byggingu snertir. Ágæt.

Mér líkar ekki við það sem ég er búinn að skrifa á árinu. Handritið það sem af er nóvellunni þykir mér illa skrifað en á hinn bóginn á ég erfitt með að ímynda mér að fyrsta uppkast að bók sé vel skrifað. Ég hef verið að skrifa smásögu meðfram undanfarið og þykir hún líka illa skrifuð. Staðreyndin er hins vegar sú að ég hef nánast aldrei skrifað gott efni fyrstu mánuðina eða jafnvel fyrstu misserin eftir að ég klára bók. Þetta er ferli sem er hrátt í byrjun og smám saman slípast það. Í rauninni hef ég ekki hugmynd um hvað ég birti eða gef út næst. Það ræðst einfaldlega af því hvað heppnast af hugmyndum í gerjun. Smásagnahöfundur dauðans?

Gegnir er orðinn svo spennandi að hann er tekinn fram yfir enska boltann. Staðan hjá Tvisvar á ævinni og 9 þjófalyklum er nú 23-23. - Síðan var tekinn æfingaleikur við Svía eða Spánverja, þ.e. Fífl dagsins, og smásögurnar steinliggja: 23-35. - Gegnir dauðans.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Djöfull get ég alltaf verið heppinn. Heppni dauðans myndu gelgjur á öllum aldri kalla það. (Við erum búnir að fíflast svo mikið með þetta "dauðans", nokkrir miðaldra karlpungar í vinnunni og um daginn sagði einn okkar þegar hann kvaddi, fimmtugur hönnuður: "Jæja, ég er farinn dauðans"). Heppnin er sú að það verður ekkert úr Hornstrandagöngunni en þess í stað förum við til Krítar. - Á laugardaginn fórum við í kynningarpartí með gönguhópnum en Erla hefur gengið með þessu fólki þrjú undanfarin sumur. Ég gerði mér upp mikinn áhuga en allir sáu í gegnum það, bæði fólkið og Erla. Þetta er reyndar svolítið beggja blands, göngur eru farnar að toga í mig, t.d. sólarhringsferðalag eða dagslöng ganga. Og gaman væri að kanna óbyggðir landsins og eiga leið um gömul eyðibýli. En vikulöng ganga án sturtu og Hressó? Og fólkið, fólkið var fínt, miklu skemmtilegra en ég. En samt: Gestgjafarnir spiluðu Greifana og Stuðmenn, ég hafði á tilfinningunni að enginn myndi horfa á Silfur Egils daginn eftir og bókasafnið samanstóð af nokkrum standördum: Laxness, Ólafur Jóhann og Arnaldur. Engir hrokafullir sérvitringar eða bókagrúskarar og að ég held ekki einn KR-ingur á svæðinu fyrir utan mig. Með þessu fólki átti ég í vændum að eyða viku í óbyggðum. "Ágætt", hugsaði ég með mér og hamaðist við að sannfæra sjálfan mig. Ég sá reyndar líka fram á að ég yrði mesti klaufinn í ferðinni, t.d. við að pakka niður og elda við frumstæðar aðstæður, myndi lenda í vandræðum í klifri, o.s.frv. Eina sem ég hafði ekki áhyggjur af var þrekið, sem er þokkalegt og ég get hæglega eflt enda hef ég gaman af að synda og skokka.

Í dag kom síðan í ljós að það stefnir þrátt fyrir allt í stórfjölskylduferð hjá Erlu til sólarlanda. Börnin ljómuðu þegar við bárum upp hugmyndina við þau en þeim hafði verið tjáð að þau færu ekkert til útlanda í sumar. En núna erum við búin að panta ferðina: Svo í stað Hornstrandagöngu kemur tveggja vikna dvöl á Krít. Krítaferðin tekur yfir gönguvikuna og Erla valdi frekar Krít, án nokkurs þrýstings.

Heppinn.

Ég var búinn að lofa dálítilli greiningu á setningu eftir sjálfan mig og sjálfsagt hafa allir beðið ósofnir með öndina í hálsinum, rétt eins og fólk sem heldur til fyrir utan miðasölu sólarhring fyrir tónleika uppáhaldshljómsveitarinnar.

Hérna að ofan stendur: "... að ég hafi hlustað á sjálfan mig hverfa út í heiminn og verða óþekkjanlegur." - Þetta eru síðustu orðin í smásögu eftir mig, líklega þekktustu sögunni minni, verðlaunaverki sem hefur verið birt víða og heitir einmitt "Hverfa út í heiminn." Þetta er stutt þroskasaga um unglingsstrák sem misst hefur bróður sinn og lengi lifað í skugga hans. Endir sögunnar er vísbending um að pilturinn sé smám saman að losa af sér þessa hlekki og hverfa út í heiminn, verða hluti af iðandi heiminum fyrir utan litlu veröldina á heimilinu. Í lok sögunnar kemur pilturinn heim af veitingastað þar sem hann borðaði skyndibita með móður sinni. Lokaparagraffið er svona:

"Mér verður hugsað til þess að þegar við mamma ókum burtu til veitingastaðarins í kvöld hlyti bílhljóðið að hafa heyrst inn í stofuna, fjarlægst og síðan horfið, rétt eins og önnur bílhljóð - ef einhver hefði verið heima til að hlusta. Smám saman get ég ekki varist þeirri tilhugsun að ég hafi sjálfur verið staddur hérna í stofunni, að ég hafi hlustað á sjálfan mig hverfa út í heiminn og verða óþekkjanlegur."

Fyrir utan það að þetta er dæmi um þann stíl sem ég vil skrifa, vera djúpur án þess að nota skrautleg orð, þá hefur hugsunin í þessum setningum sótt nokkuð á mig síðustu árin. Þegar ég kláraði þessa sögu fyrir fimm árum þá skildi ég endinn varla sjálfur, fann bara að hann hljómaði vel. Orðalagið "að hverfa út í heiminn", sem ég held að sé bara komið frá sjálfum mér, táknar þá að vaxa úr grasi og komast til þroska. Við ölumst upp heima hjá okkur og erum innilokuð þar í frekar litlum og þröngum heimi. Fyrir utan er óendanlega stór heimur sem við erum að litlu leyti þátttakendur í. Þegar við verðum fullorðin hverfum við út í þennan heim.

Það er önnur hlið á þessu. Maður breytist töluvert frá þrítugu til fertugs. Samt glatast þrítugi maðurinn ekki við það að verða fertugur, hann er sami maðurinn, bara breyttur: Andlitið aðeins ljótara, vonandi eitthvað meira af peningum í bankanum, eða fleiri fermetrar undir rassinn, fleiri afrek að baki eða jafnvel axarsköft. - En öðru máli gildir um börn. Þau breytast svo hratt og svo mikið að ýmsar útgáfur af þeim eru í raun glataðar nema á myndum. Svo við tökum dæmi um stelpuna mína, hana Freyju, sem er orðin 10 ára, þá er Freyja 3 ára svo gríðarlega ólík henni að sú stelpa er í rauninni horfin og kemur aldrei aftur. Hún hvarf út í heiminn og varð óþekkjanleg.