föstudagur, júlí 04, 2008

Meira um Wade

http://www.visir.is/article/20080704/VIDSKIPTI06/734907057 Ég hef á tilfinningunni að ég, analfabetinn í efnahagsmálum, hafi skrifað mest af viti um ræðu Wades í vikunni, í örstuttri færslu hér fyrir neðan. Málflutningur hans rann hins vegar ljúflega niður í margan bloggarann og kaffihúsaspekinginn hér á eyjunum, Eyjunni.is og Íslandi.

Gramsað í Youtube

Síðustu árin sem ég var ungur, þ.e. sirka 1997 til 1999, hafði ég mjög gaman af hljómsveit sem heitir The Beautiful South og keypti margar plötur með henni. Það var svo ekki fyrr en í kvöld þegar ég var að gramsa í gömlum myndböndum á youtube að ég komst að því að þessi hljómsveit hafði áður verið The Housemartins. The Build með Housemartins er mjög áheyrilegt og hljómar nákvæmlega eins og lag með The Beautiful South (enda sami söngvari, en líka dæmigerð Beautiful South melódía).

Önnur tónlist sem ég hef hlustað mikið á í gegnum árin:

The Who (kemur einhverjum á óvart?)
Frank Zappa
REM
Bruce Springsteen
The Clash
Paul Weller (og Jam og Style Counsil)
Divine Comedy
Pearl Jam

Og eitthvað fleira.

Þó að ég hafi ekki mikið vit á músík og sé alls ekki nógu leitandi þá held ég að ég hafi eyra fyrir góðri tónlist. Ég uppgötvaði t.d. REM fyrir sjálfan mig löngu áður en þeir urðu frægir og uppáhalds REM platan mín er ennþá Life´s Rich Pageant sem ekki margir þekkja. Ég hef alltaf haft sterklega á tilfinningunni að þó að tónlist The Beautiful South sé lauflétt og grípandi sé hún alveg jafnmerkileg og músík annarra og meiri alternatívra á þessum lista mínum. - Það er dálítið merkilegt að Paul Weller er einhver vinsælasti tónlistarmaður Bretlands fyrr og síðar en fremur lítið þekktur á Íslandi. Who er einnig miklu minna nafn á Íslandi en á Bretlandi og í Bandaríkjunum.

David Winnie steggjaður - Nýr rithöfundur

Sá KR slá út Fram í bikarnum í kvöld, 2-0. Enn einn sigurinn hjá KR sem hefur verið á sigurbraut undanfarið. Kjartan var með mér eins og vanalega. David Winnie, varnarhetja KR frá árunum 1998-2000, var steggjaður í hálfleik, látinn hífaður taka aukaspyrnur yfir einhvern tilbúinn vegg. Þorsteinn Jónsson og einhver strákur teymdu síðan hetjuna upp í stúku og þar tók Þorsteinn stutt viðtal við mig (tekið upp á litla myndavél) á ensku, þar sem óbreyttur aðdáandinn ég sagði álit sitt á Winnie-tímabilinu.

Kjartan var óneitanlega forvitinn um þennan mann og hvers vegna verið væri að spyrja mig um álit á honum á ensku. Þegar ég horfði á Winnie spila með KR var Kjartan fyrst ekki fæddur en síðan of lítill til að vita nokkuð um fótbolta. Svona líður tíminn hratt.

Á leiðinni upp í vinnu (til að skrifa) kom ég við á Segafredo. Þar lá hið árlega glæpasmásagnahefti frá Birtingi, úr keppninni Gaddakylfan, í blaðahillunni. Ég las verðlaunasöguna, sem heitir Svikarinn og er eftir Lilju Magnúsdóttur. Skemmtileg saga, ekki ýkja frumleg, en lifandi og lipurlega spunnin. Mjög samtímaleg, svona rómantísk spennusaga úr íslenska góðærinu.

Veit ekkert um þennan höfund. Hef aldrei heyrt hana nefnda áður. Líklega enn einn spennusagnahöfundurinn í mótun.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Wade

Ef maður spáir stjórnarslitum á Íslandi og það er algjörlega úr lausu loftið gripið, er þá einhver ástæða til að taka mark á því sem hann segir um efnahagsmál á Íslandi?

Ekki það að ég vilji grafa hausinn í sandinn, vandamálin blasa við, en þurfum við nokkuð erlenda sérfræðinga til að greina stöðuna? Sérstaklega ekki ef þeir fara með bábiljur.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Þjóðverjinn á Benalmadena

Ég brá mér í viku til Costa del Sol með Erlu og krökkunum. Ekki virðist mér það vera merkilegur staður en þó get ég ekkert fullyrt um það. Það var mikill hiti og sól. Það var strönd og háhýsi sem flest eru hótel. Eitthvað gerðist í hausnum á mér hvað skriftir varðar á leiðinni út og skrifaði ég heilmikið í flugvélinni og fyrstu þrjá dagana. Síðan missti ég þráðinn í hitanum og samverunni. Það sem ég er að vinna við small saman og sömu hugmyndirnar virðast virka í skáldsögu og stakar smásögur. Ég tók ekki tölvuna með en er nú með allnokkrar útkrotaðar síður í vasabókum sem eru útklíndar í sólarolíu. Fróðlegt verður að sjá hvort eitthvert vit er í þessu .

Ég og Kjartan keyptum okkur fótboltatreyjur. Ég vakti töluverða athygli í þýsku landsliðstreyjunni dagana fyrir úrslitaleikinn, flautað á mig á götum og allir starfsmenn á hótelinu vildu tala um fótbolta við mig. Ég klæddi mig úr treyjunni eftir leikinn, vildi ekki meira áreiti. Þetta var heldur vandræðalegur endir á keppninni fyrir Þjóðverja sem áttu ekki möguleika í Spánverjana. Það voru hins vegar engir þýskir túristar þarna, mér skilst að þeir séu allir á Mallorca.

Í gærkvöld horfði ég síðan á KR vinna ÍA á KR-vellinum og allt í einu eru KR-ingar komnir á mikla siglingu.

Er að ná úr mér ferðaþreytunni. Skrifa kannski eitthvað háfleygara hér á næstunni.