Sá KR slá út Fram í bikarnum í kvöld, 2-0. Enn einn sigurinn hjá KR sem hefur verið á sigurbraut undanfarið. Kjartan var með mér eins og vanalega. David Winnie, varnarhetja KR frá árunum 1998-2000, var steggjaður í hálfleik, látinn hífaður taka aukaspyrnur yfir einhvern tilbúinn vegg. Þorsteinn Jónsson og einhver strákur teymdu síðan hetjuna upp í stúku og þar tók Þorsteinn stutt viðtal við mig (tekið upp á litla myndavél) á ensku, þar sem óbreyttur aðdáandinn ég sagði álit sitt á Winnie-tímabilinu.
Kjartan var óneitanlega forvitinn um þennan mann og hvers vegna verið væri að spyrja mig um álit á honum á ensku. Þegar ég horfði á Winnie spila með KR var Kjartan fyrst ekki fæddur en síðan of lítill til að vita nokkuð um fótbolta. Svona líður tíminn hratt.
Á leiðinni upp í vinnu (til að skrifa) kom ég við á Segafredo. Þar lá hið árlega glæpasmásagnahefti frá Birtingi, úr keppninni Gaddakylfan, í blaðahillunni. Ég las verðlaunasöguna, sem heitir Svikarinn og er eftir Lilju Magnúsdóttur. Skemmtileg saga, ekki ýkja frumleg, en lifandi og lipurlega spunnin. Mjög samtímaleg, svona rómantísk spennusaga úr íslenska góðærinu.
Veit ekkert um þennan höfund. Hef aldrei heyrt hana nefnda áður. Líklega enn einn spennusagnahöfundurinn í mótun.