- Hann langar til að við séum þarna. Það er ástæðan. Geturðu ekki skilið að þetta snýst ekki um þig?
- Ég er ekki að fara að horfa á einhvern handboltaleik í Valsheimilinu. Það er Ísland - Makedónía á sama tíma í sjónvarpinu. Ég meina, þetta er meistaraflokkur, það er ekki eins og HANN sé að keppa.
- Já, en þeir leiða leikmennina inn á völlinn í byrjun leiksins. Þess vegna fengum við öll boðsmiða. Hann er SVO spenntur fyrir þessu.
- Sko. Ég er búinn að horfa á hann spila næstum því hvern einasta leik sem hann hefur spilað með KR í fótbolta, ég hef gist með honum á móti úti á landi í fullum sal af hálfblandblautum strákum, ég hef mætt á alla foreldrafundi í KR - og þetta hefur þú ekki gert heldur ég! - og ég hef séð hann leiða meistaraflokksleikmenn KR inn á völlinn, og nú þegar honum dettur allt í einu í hug að fara að æfa handbolta með Val, af því vinur hans er þar, þá á ég að gera allt það sama þar?
- Það skiptir hann máli að við styðjum hann. Valur eða KR - eru þetta einhver trúarbrögð?
- Við erum KR-ingar. Þetta er KR-fjölskylda. Og það skiptir máli.
- Voðalega er þetta eitthvað heilagt hjá þér. Þetta snýst bara um að vilja að börnin manns æfi íþróttir og styðja þau í því.
- Hvers vegna gat hann ekki farið í Gróttu? Það hefði ekki verið vandamál. Það er ekki eins og við höfum flutt úr hverfinu. Við erum í miðju KR-hverfinu. Hann er að fara í annað hverfi.
- Af því það er gott handboltastarf í Val. Hann nýtur þess að vera þarna. Skiptir þig það ekki máli hvað hann hefur gaman af þessu?
- Ég styð hann. Ég hef stutt hann. En að í hvert skipti sem börnum dettur í hug að bæta við sig áhugamáli þá eigi foreldrarnir að hlaupa til ... ég meina, honum gæti dottið í hug að fara að æfa fimleika í Gerplu eða kúluvarp með Stjörnunni og í hvert skipti sem honum dettur eitthvað svona í hug þá á ég bara að hætta að vera KR-ingur og hlaupa til og mæta á hvern fund og viðburð.
- Ég hlusta ekki á svona bölvaða vitleysu! Ógurlegur barnaskapur er þetta!
- Það eru hefðir og menning í þessu, menning sem ég hef lifað í en þú ekki. Þú hefur engan áhuga á fótbolta eða handbolta. Það er ég sem horfi á boltaleiki, það er ég sem hef vakið áhuga hans á þeim.
- Það er ég sem keyri hann á æfingar. Ég hef áhuga á því sem hann er að gera, ég vil styðja hann. Þú hugsar bara um sjálfan þig.
- Það er merkilegt með ykkur kvenfólkið. Þið takið yfir karlamenningu eins og boltaíþróttirnar og breytið henni í einhver skylduverk og barnauppeldi. Ég meina, hann er ekki að leika í skólaleikritinu í Melaskóla, þetta er bara handbolti í Val, honum datt bara allt í einu í hug að mæta á handboltaæfingu með vini sínu og um leið þarf að ræsa okkur út eins og einhverja Víkingasveit.
- Við mætum þarna vegna þess að það er honum mikils virði. Geturðu ekki skilið það? Til þess að börn hafi áhuga á að æfa íþróttir þá þurfa foreldrarnir að styðja þau.
- Ég get horft á hann á handboltaæfingu með Val. Ég get farið og horft á hann keppa í sjötta flokki, en ég fer ekki að mæta á meistaraflokksleiki í Val bara af því hann er að leiða leikmennina inn á völlinn.
- Við þurfum kannski ekki að vera allan leikinn.
- Ég meina, það var gaman að sjá hann í markinu um daginn, á æfingunni. Ég veit að hann hafði gaman af því þegar ég sá markvörsluna hjá honum. En hvers vegna skiptir það hann máli að ég horfi á hann leiða leikmenn Vals inn á völlinn. Ætlar hann að segja: “Sjástu pabbi hvað ég hélt flott í höndina á kallinum?”
- Þetta er honum mikils virði, hann hlakkar til og hann langar að við komum með honum. Mér finnst það alveg næg ástæða.
- Þegar Malli var í ÍBV þá horfði pabbi hans aldrei á hann keppa, ekki fyrr en hann var kominn í meistaraflokk, því þá fór karlinn hvort eð er á völlinn.
- Já, finnst þér það til fyrirmyndar? Þú veist að þá voru allt aðrir tímar í barnauppeldi.
- Já, en munurinn á mér og þér er sá að þú keppist alltaf við að vera sammála tíðarandanum. Ef þú hefðir verið uppi á þessum tíma þá hefði þér fundist alveg eðlilegt hjá pabba hans Malla.